Húsasmíði

Húsasmíði er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina, samtals fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Meginmarkmið með námi í húsasmíði er að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til að sinna allri smíðavinnu í bygginga- og mannvirkjaiðnaði hvort sem er verkstæðis- og innréttingavinna, úti- og innivinna á byggingastað eða viðgerða- og breytingavinna. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Húsgagnasmíði

Húsgagnasmíði er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina, samtals fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Markmið námsins er að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til að takast á við viðfangsefni iðngreinarinnar, þ.e. að smíða, endurnýja og gera við húsgögn, innréttingar, hurðir, glugga, tréstiga m.m. og sinna fjölbreyttri sérsmíði úr gegnheilu tré og plötuefni. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Rafvirkjun

Rafvirkjun er löggilt iðngrein. Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þekkingu og færni til að takast á við störf rafvirkja einkum við lagningu raflagna, uppsetningu og tengingu rafbúnaðar, mælingar, eftirlit, viðhald og viðgerðir á rafbúnaði. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi rafiðna, þar af eru sex annir í skóla og 48 vikna starfsþjálfun. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Vélvirkjun

Vélvirkjun er löggilt iðngrein. Meðalnámstími í vélvirkjun er fjögur ár að loknu grunnnámi málmiðna, samtals 6 annir í skóla og 60 vikna starfsþjálfun. Markmið námsins er að gera nemendum kleift að takast á við þau viðfangsefni sem vélvirkjar inna af hendi, þ.e. uppbyggingu og viðhald véla, kælikerfa og loftstýringa, bilanaleit og stýringar. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.