Lög foreldrafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki

Félagið heitir Foreldrafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Aðsetur þess er á Sauðárkróki.

Tilgangur, markmið og leiðir:

Tilgangur félagsins er að stuðla að auknum gæðum skólans og leitast við að bæta jafnframt almenn skilyrði og aðstæður einstakra nemenda til menntunar og almenns þroska. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því meðal annars að:

  • Stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
  • Vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna sem starfar í fullu samráði við stjórn Nemendafélags skólans.
  • Auka sýnileika og nánd foreldra/forráðamanna sem veiti yfirvöldum, skólastjórnendum, kennurum og nemendum stuðning í skólastarfinu.
  • Koma á, efla og tryggja gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks skólans.
  • Hvetja til aukins stuðnings og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
  • Vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
  • Standa vörð um réttindi nemenda til menntunar og farsæls þroska.

Aðild:

Félagsmenn eru sjálfkrafa allir foreldrar og aðrir forráðamenn nemenda skólans. Félagið er jafnframt opið öðrum velunnurum skólans sem óska eftir aðild.

Stjórn félagsins:

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda á fyrstu vikum skólaárs. Til fundarins skal boðað sannanlegum hætti með a.m.k. 7 daga fyrirvara með dagskrá. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu.

Á aðalfundi skal kosin fimm manna stjórn sem situr í eitt ár í senn og þrír varamenn. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi og skipta þeir með sér öðrum verkum. Stjórn félagsins stýrir því í umboði aðalfundar í samræmi við samþykktir þess sem og starfi félagsins utan funda. Stjórnin skal halda gerðarbók og koma upplýsingum um störf félagsins s.s fundargerðum á heimasíðu skólans. Einfaldur meirihluti stjórnarmanna ræður úrslitum og við afgreiðslu mála skal meirihluti stjórnar vera viðstaddur fundinn.

Stjórnin getur kallað til almennra foreldrafunda um einstök málefni, við boðun slíkra funda skal hafa samráð við skólameistara. Starfsmönnum skólans og stjórnendum er heimilt að sækja fundi sem haldnir eru í nafni félagsins.

Tekjur félagsins eru styrkir sem stjórn félagsins er heimilt að taka við frá opinberum aðilum og öðrum er styðja vilja félagið og starfsemi þess, félaginu er heimilt að beita sér fyrir fjáröflun en ekki er heimilt að innheimta félagsgjöld.

Breytingar á lögum:

Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Tillögur að breytingum þurfa að berast stjórn félagsins fyrir 1. september ár hvert. Tillögur til breytinga á samþykktum þessum, sem stjórn félagsins hyggst leggja fram, skal kynna um leið og boðað er bréflega til aðalfundar.