Námsvísir - Brautalýsingar

Í brautarlýsingum eru tilgreindir allir áfangar sem nemendur verða að ljúka til að brautskrást af viðkomandi braut. Um frávik frá brautalýsingum þarf að sækja sérstaklega.

Flokkun námsbrauta

Stúdentsbrautir

Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám hérlendis og erlendis. Fjöldi námseininga til stúdentsprófs er 200-212 einingar. Námslokin eru í öllum tilvikum skilgreind á hæfniþrepi þrjú. Inntak náms til stúdentsprófs er háð lokamarkmiðum námsbrautarinnar en fer einnig eftir því hvers konar undirbúning viðkomandi námsbraut veitir fyrir háskólanám. Uppistaða námsins getur því falið í sér bóknám, listnám eða starfsnám.

Hæfniviðmið stúdentsbrauta taka mið af kröfum ráðuneytis og hæfnikröfum fræðasviða háskólastigsins. Um nám til stúdentsprófs gilda sérstakar reglur auk ákvæða um lágmarkseiningafjölda. Þær lúta að hæfnikröfum í kjarnagreinum og öðrum greinum auk þeirra reglna sem gilda almennt um innihald og uppbyggingu námsbrauta með námslok á þriðja hæfniþrepi. Stúdentspróf staðfestist með útgáfu prófskírteinis þar sem kemur fram á hvaða sérsviði prófið er, hæfniþrep námsloka, upptalning áfanga og einkunna.

Stúdentsprófið tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum geta nemendur þurft að gangast undir inntökupróf. Það er mikilvægt að nemendur, sem stefna að inngöngu á tiltekna námsbraut á háskólastigi, afli sér upplýsinga um þær kröfur sem viðkomandi skóli gerir um undirbúning.

Eftirtaldar stúdentsbrautir eru í boði í FNV:

FÉL-2015         Félagsvísindabraut. Áhersla á samfélagsgreinar.
FJÖ-2015         Fjölgreinabraut. Áhersla á sérgreinar er í höndum nemanda.
HAG-2015       Hagfræðibraut. Áhersla á viðskipta- og hagfræðigreinar.
HES-2015        Hestabraut. Áhersla á sérgreinar hestamennsku.
ÍÞT-2015          Íþrótta- og tómstundabraut. Áhersla á íþróttir og uppeldisgreinar.
NÁT-2015        Náttúruvísindabraut. Áhersla á stærðfræði og raungreinar.
NÝT-2015        Nýsköpunar- og tæknibraut. Áhersla á skapandi greinar og listir.

Starfsbraut

Starfsbraut er ætlað að búa nemendur undir aukna þátttöku í þjóðfélaginu á eigin forsendum. Leitað er leiða til að finna styrkleika og áhugasvið hvers og eins með það að markmiði að styðja viðkomandi til aukins þroska, frekara náms og starfsþjálfunar. Starfsþjálfunin fer að mestu leyti fram á vinnustað. Þetta nám gefur ekki starfsréttindi, hins vegar býr það nemanda undir þátttöku á vinnumarkaði og auðveldar honum að fá launaða vinnu við hæfi að námi loknu. Náminu er ætlað að auka sjálfstraust, sjálfstæði og lífsgleði nemandans og hvetja hann og styðja í viðfangsefnum sínum á heimili, í vinnu og í tómstundum.

Námið er einkum ætlað nemendum, sem hafa notið verulegrar námsaðstoðar í grunnskóla, verið í sérdeild eða sérskóla og taldir af viðurkenndum greiningaraðilum víkja svo frá almennum þroska að þeir hafa fengið námsmat samkvæmt 48. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 og undanþágu frá ákveðnum skyldunámsgreinum. Námstími er fjögur ár. Nemendur geta einnig innritast í aðra áfanga á almennum brautum og fer það eftir óskum og færni hvers nemanda.

STA-2015        Starfsbraut. Áhersla á aðlagaða námskrá sem undirbýr nemandann undir aukna þátttöku í þjóðfélaginu á eigin forsendum.

 Próf til starfsréttinda

Skólinn býður upp á nám í bifvélavirkjun, hársnyrtiiðn, málmiðnum, rafiðnum, tréiðnum og vélvirkjun.

Námið í grunndeildum tekur tvær til fjórar annir og veitir almenna undirstöðu í greinunum og veitir aðgang að framhaldsdeildum, grunndeildir eru eftirtaldar við skólann:

GR.      Grunndeild rafiðna,
GBM.   Grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina,
MG.     Málmiðngreinar, fyrri hluti.

Eftirtaldar iðnbrautir eru starfræktar við skólann:

BV8.    Bifvélavirkjun
HG.      Hársnyrtiiðn
HÚ8.    Húsasmíði, verknámsbraut
HS8.     Húsgagnasmíði
RK9.     Rafvirkjun
RS9.     Rennismíði
VS8.     Vélvirkjun
VVA.    Vélstjórnarbraut - A
VVB.    Vélstjórnarbraut - B

Aðrar starfsnámsbrautir:

FIT-2015           Fisktækni. Áhersla á sérgreinar fisktækni.
HEL-2016         Hestaliðabraut. Áhersla á sérgreinar hestamennsku.
MN.                   Meistaranámsbraut fyrir iðnsveina.
PLB-2016          Plastbátasmíði. Áhersla á sérgreinar trefjaplastsmíði.
PLT-2016           Plasttækni. Áhersla á sérgreinar trefjaplastsmíði.
SJ.                      Sjúkraliðabraut.
SLÁ-2016           Slátraranám. Áhersla á sérgreinar slátrunar.
Smáskipanám. Réttindi til skipstjórnar á skipum upp að 12 metrum.

Framhaldsskólapróf

Framhaldsskólaprófi er ætlað að koma til móts við þá áherslu að nemendur njóti fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólarnir bjóði upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Einnig er því ætlað að koma til móts við þarfir nemenda sem ekki hyggja á önnur námslok. Þannig getur skóli hvort sem er tengt framhaldsskólapróf við lok skilgreindrar námsbrautar eða tengt það annarri þátttöku nemandans í skólanum sem sniðin er að einstaklingsbundnum þörfum hans. Þó skulu lokamarkmið námsins í öllum tilvikum vera skýr.

Framhaldsskólapróf geta hvort sem er verið skilgreind á fyrsta eða annað hæfniþrep en það ræðst af því hvaða kröfur eru gerðar um þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Námið getur flokkast sem starfsnám, listnám eða bóknám og er því ætlað að ná þeim markmiðum sem einkenna hæfniþrep þess.

Umfang náms til framhaldsskólaprófs fer eftir lokamarkmiðum námsins og er á bilinu 90-120 einingar. Ef vilji er til að námsbraut ætluð nemendum með þroskahömlun ljúki með framhaldsskólaprófi gilda sömu reglur um umfang. Framhaldsskólaprófinu lýkur með útgáfu prófskírteinis þar sem kemur fram hæfniþrep námsloka, umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemandans, upptalning áfanga, einkunnir eftir því sem við á og skrá um aðra þátttöku nemandans í viðfangsefnum tengdum framhaldsskólaprófinu.

NÝT-2015      Nýsköpunar- og tæknibraut. Áhersla á skapandi greinar og listir.
KVT-2016      Kvikmyndatækni. Áhersla á sérgreinar kvikmyndagerðar.

Inntökuskilyrði

Skýrar reglur eru um inntöku nýnema í skólann. Reglurnar eru uppfærðar árlega og birtar á heimasíðu skólans. Til að hefja nám á öðru þrepi í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði þarf nemandi að hafa einkunnina B eða B+ að lágmarki, að öðrum kosti hefur hann nám í þessum greinum á fyrsta þrepi. Nemendur geta hafið nám á einstökum námsbrautum þó þeir uppfylli ekki skilyrði til að hefja nám í kjarnagreinum á öðru þrepi.

Innritunar og efnisgjöld

Efnis- og innritunargjöld eru ákveðin af skólameistara að höfðu samráði við skólanefnd. Innritunargjöld eru innheimt fyrir upphaf hverrar annar. Greiðsla þeirra er staðfesting á skólavist. Efnisgjöld fyrir ákveðna áfanga eru innheimt í upphafi hverrar annar. Greiði nemandi ekki efnisgjald fær hann ekki einkunnablað sitt afhent fyrr en hann getur framvísað greiðslukvittun sem staðfestir greiðslu efnisgjalda.