Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra leggur áherslu á heilsueflingu allra nemenda og starfsfólks skólans. Verkefni þetta miðar að bættri heilsu og líðan m.a. með góðri og heilsusamlegri vinnuaðstöðu, hvatningu til hollrar hreyfingar og heilsusamlegs lífernis.

Meginmarkmið þessa verkefnis er að marka stefnu um hollustuhætti, heilbrigði og aðbúnað sem hafi áhrif á allt daglegt starf nemenda og starfsfólks skólans.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra setur sér fimm undirmarkmið um aukna hreyfingu, forvarnir gegn streitu, hollt mataræði, áfengis-, tóbaks og vímuefnavarnir og öryggi. Þessi markmið eru að:

  1. Efla þekkingu meðal starfsfólks og nemenda skólans á gildi hollrar hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu og stuðla að reglulegri hreyfingu þeirra.
    - Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:
    1. Skólinn standi fyrir og hvetji til þátttöku í almennri hreyfingu nemenda og starfsfólks s.s. með þátttöku í keppni framhaldsskólanema og Lífshlaupinu.
    2. Bjóða nemendum þátttöku í íþrótta- og útivistaráföngum.
    3. Bjóða nemendum upp á frjálsa hreyfitíma utan hefðbundinnar líkamsræktarkennslu.
  2. Allir taki þátt í að efla góðan starfsanda og hugað sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna skólans.
    - Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:
    1. Hafa á heimasiðu skólans aðgengilegar upplýsingar um stoðþjónustu skólans og leiðir til að nálgast aðstoð á sviði andlegrar heilsu.
    2. Bjóða fræðslu um mikilvægi andlegrar heilsu m.a. í lífsleikni fyrir nýnema.
  3. Stuðla að hollu mataræði meðal nemenda og starfsmanna.
    - Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:
    1. Bjóða hollan mat í samræmi við viðmið Lýðheilsustöðvar í mötuneyti skólans.
    2. Sjá til þess að í verslun nemenda sé fyrst og fremst boðið upp á holla matvöru á borð við ávexti og grænmeti.
    3. Þegar boðnar eru veitingar í skólanum sé þess gætt að í boði sé hollustufæða.
  4. Annast fræðslu um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna sem nái til nemenda og starfsmanna undir kjörorðunum „Mens sana in corpore sano“ (heilbrigð sál í hraustum líkama ) auk þess að setja fram upplýsingar um leiðir til að hætta notkun þessara efna. Forvarnarfulltrúi skólans annast umsjón og skipulagningu þessar fræðslu.
    - Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:
    1. Veita forvarnarfræðslu fyrir nemendur, aðstandendur þeirra og starfsmenn skólans.
    2. Leitast við að flétta forvarnir inn í kennslu og félagsstarf skólans.
    3. Sjá nemendum fyrir viðfangsefnum sem stuðla að jákvæðri sjálfsmynd, sjálfsvirðingu og sjálfsaga.
    4. Kynna starfsfólki og nemendum skýrar reglur um umgengni og hegðun gagnvart ávana- og fíkniefnum og framfylgja viðurlögum við brotum á þeim.
    5. Gera sérstaka stuðningsáætlun fyrir ungmenni í áhættuhópi.
    6. Taka þátt í samstarfi við aðila utan skólans sem sinna forvarnastarfi.
    7. Hafa stefnu skólans í forvörnum í stöðugri endurskoðun.
  5. Tryggja öryggi í húsnæði skólans og framfylgja öryggisáætlun skólans.
    - Þessum markmiðum hyggst skólinn ná með því að:
    1. Endurskoða öryggishandbókina annað hvert ár.
    2. Viðhalda öryggis- og áhættumati og leita úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á.
    3. Bjóða upp á námskeið í skyndihjálp.