Stefna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er að:

 • Veita nemendum sínum haldgóða menntun sem nýtist þeim til frekara náms og starfa auk þess að gera þá að virkum og gagnrýnum þátttakendum í nútíma lýðræðissamfélagi.
 • Gera nemendum kleift að afla sér þekkingar, leikni og hæfni í einstökum námsgreinum sem byggja á vönduðum vinnubrögðum, víðsýni, vinnusemi og virðingu fyrir vel unnu verki og ólíkum sjónarmiðum.
 •  Skapa umhverfi sem stuðlar að vellíðan, heilbrigðum lífsháttum og velferð nemenda og starfsfólks.
 • Bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi og koma fram við alla í anda jafnréttis og lýðræðis.

Til að þessi markmið náist leggur skólinn áherslu á:

 • Að sérhver nemandi fái að njóta sín á eigin forsendum og að hann njóti umhyggju og stuðnings frá öllu starfsfólki skólans.
 • Að bjóða upp á fjölbreytt nám við hæfi sem flestra á sviði bóknáms, iðnnáms og starfsnáms í takt við aðstæður í samfélaginu hverju sinni.
 • Að setja skólareglur sem stuðla að árangursríku námi og jákvæðum samskiptum sem byggja á jafnrétti, gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og tillitssemi.
 • Að námsmarkmið og námskröfur séu skýr, aðgengileg og hvetjandi fyrir nemendur auk þess að auðvelda kennurum að velja kennsluaðferðir við hæfi.
 • Grunnþáttum menntunar er lýst í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011.
  Þeir eru læsi, sköpun, sjálfbærni, heil­brigði og velferð, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi. Fræðslu um þessa þætti er fléttað saman við kennslu margra námsgreina skólans. Jafnframt er leitast við að vekja bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar og samræðu um grunngildi skólastarfsins. Hér á eftir er lýst í stuttu máli hvað fleira skólinn gerir til að starfa í anda þessara grunnþátta.

Læsi

Læsi nær ekki aðeins til þess að geta tileinkað sér merkingu skrifaðs texta, talna eða annarra upplýsinga, heldur nær það einnig til læsis á umhverfið, listir og náttúru. Tungumálið er verkfæri til að koma hugsun í orð og eitt af megin hlutverkum skólastarfs er að efla hæfni nemandans í tjáningu á sem fjölbreyttastan hátt. Skólinn stuðlar að læsi með því að:

 • Efla hæfni nemandans til að lesa umhverfi sitt og aðstæður sér til gagns.
 • Efla hæfni nemandans til að nota tungumálið til að afla sér þekkingar og auka skilning, auk þess að koma hugsunum sínum á framfæri hvort heldur er í töluðu eða rituðu máli.
 • Auka við orðaforða nemenda og fjölga hugtökum sem þeir hafa á valdi sínu með lestri námsefnis af ýmsu tagi.
 • Efla hæfni nemenda til að lesa og skilja námsefni sem sett er fram með mismunandi hætti bæði í rituðu máli og myndmáli.
 • Bjóða nemendum áfanga í fjármálalæsi.
 • Styðja við og leggja fram aðstoð við útgáfu skólablaðs nemenda – Molduxa.

Sköpun

Skólinn stuðlar að sköpun með því að:

 • Hvetja nemendur til þess að nálgast viðfangsefni sín á sjálfstæðan og frumlegan hátt.
 • Bjóða upp á nám i skapandi greinum.
 • Flétta skapandi verkefni við nám í einstökum námsgreinum.
 • Styðja við skapandi verkefni á vettvangi félagslífs skólans t.d. með þátttöku nemenda í leiklist, tónlistarviðburðum og öðrum listviðburðum.
 • Efla hæfni nemenda til tjáningar í ræðu og riti.

Sjálfbærni

Skólinn stuðlar að sjálfbærum lífsháttum með því að:

 • Hvetja nemendur til að setja eigin lífsstíl í samhengi við sjálfbærni og takmarkaðar náttúruauðlindir.
 • Efla umhverfisvitund nemenda og hvetja þá til að umgangast náttúruna og sitt nánasta umhverfi af virðingu, hófsemi og nægjusemi.

Heilbrigði og velferð

Skólinn stuðlar að heilbrigði og velferð með því að:

 • Byggja upp jákvæða sjálfsmynd nemenda með hvatningu og hrósi þar sem það á við.
 • Bjóða nemendum upp á náms- og starfsráðgjöf.
 • Aðstoða þá nemendur, sem á því þurfa að halda, við að fá aðstoð sérfræðinga utan skólans.
 • Stuðla að heilbrigðum lífsháttum nemenda t.d. með fræðslu og greiðum aðgangi að hreyfingu og hollu mataræði.
 • Vera heilsueflandi skóli.
 • Veita fræðslu og skipuleggja forvarnir gegn áhættuhegðun og sjálfskaðandi lífsstíl.
 • Bjóða öllum nemendum sínum upp á fjölbreytt nám á sviði líkamsræktar og lýðheilsu.
 • Bjóða upp á frjálsa tíma í hreyfingu og heilsueflandi lífsstíl utan skólatíma nemendum sínum að kostnaðarlausu.

Jafnrétti

Skólinn vinnur í anda jafnréttis með því að:

 • Hver og einn fær að njóta hæfileika sinna án tillits til kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar eða trúarskoðana.
 • Vinna gegn hvers kyns mismunun og misgjörðum á borð við einelti, kynferðislega áreitni og annað ofbeldi.
 • Hvetja til fjölbreytni í kennsluháttum og námsmati í takti við ólíkar þarfir nemenda.
 • Bjóða nemendum að sækja áfanga í kynjafræði.

Lýðræði og mannréttindi

Skólinn vinnur í anda lýðræðis og mannréttinda með því að:

 • Eiga gott samstarf við stjórn nemendafélags skólans sem skipar fulltrúa nemenda í skólanefnd, skólaráð og gæðaráð.
 • Leita umsagnar starfsfólks og nemenda um ákvarðanir sem snerta stefnumótun, skólanámskrá og mikilvægar breytingar á skólastarfi.
 • Styðja við starfsemi nemendafélags skólans og hvetja nemendur til þátttöku í félagslífi skólans.
 • Hvetja nemendur til að láta sig varða málefni líðandi stundar og koma ábendingum um það sem betur má fara í skólastarfinu til stjórnenda eða kjörinna fulltrúa nemendafélags skólans.

Kennslufræðileg stefna

Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er lögð áhersla á nám á bóknámsbrautum, iðnnámsbrautum og starfsnámsbrautum. Boðið er upp á nám fyrir breiðan hóp nemenda.

Leiðarljós skólans eru grunngildin vinnusemi, virðing og vellíðan. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og hafa fjölbreytnina að leiðarljósi til þess að nemendur geti fundið sér nám við hæfi. Áfangakerfið og fjölbreytni náms í skólanum eykur ábyrgð nemenda á eigin námi og námsvali, ábyrgðin þroskar þá og gerir þá um leið hæfari til þátttöku í samfélaginu. Að velja sér námsleiðir eftir áhuga, getu og metnaði er upphafið að þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi nútímans. Það liggur því í eðli skólans að fjölbreytni í kennsluaðferðum er mikil, sveigjanleiki í námi og námsframboði sömuleiðis.

Öflugt stuðningskerfi er við nemendur í skólanum og er það hluti af kennslufræðilegri hugmyndafræði skólans sem ítrekar með því að skólinn sé tækifæri fyrir alla. Í skólanum er kappkostað að uppfæra tækja- og tæknibúnað í takt við kröfur tímans og þannig er tryggt að nemendur skólans fari frá skólanum vel búnir til frekara náms og / eða til þátttöku í atvinnulífinu. Kennarar eru hvattir til þess að vinna þróunarstarf og sækjast eftir endurmenntun til að auka nýbreytni og viðhalda faglegum metnaði.

Starfsmannastefna FNV

Ábyrgð á starfsmannastefnu og starfsmannamálum.

Skólameistari ber ábyrgð á starfsmannastefnu Fjölbrautaskóla Norðurland vestra á Sauðárkróki og öllum starfsmannamálum skólans sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og reglugerð nr. 5/2001 um starfslið og skipulag framhaldsskóla og erindisbréf skólameistara. Skólameistari er ábyrgur fyrir að skipurit skólans sé öllum starfsmönnum skólans aðgengilegt ásamt greinagóðum starfs- og verklýsingum fyrir öll störf sem unnin eru í skólanum.

Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

Stjórnendur og starfsmenn bera jafna ábyrgð á að vinna að markmiðum skólans og veita sem besta þjónustu nemendum, foreldrum, forráðmönnum og öðrum þeim sem til skólans leita. Stjórnendur skulu tileinka sér ábyrga og lýðræðislega stjórnunarhætti og auðsýna jákvætt og uppörvandi viðmót í garð starfsmanna og nemenda. Þeir skulu leitast við að hafa sem virkast upplýsingastreymi til starfsmanna. Þá skulu stjórnendur hvetja starfsmenn til dáða í hvívetna.

Starfsmönnum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra ber að sýna kurteisi, lipurð, réttsýni, alúð og samviskusemi í öllum störfum sínum. Þeir skulu mæta stundvíslega til starfa og forðast að aðhafast nokkuð í starfi sínu og utan þess sem rýrt getur trúverðugleika og traust þeirra. Starfmenn skóla starfa samkvæmt lögum, reglugerðum, erindisbréfum, skólanámskrá og gildandi fyrirmælum á hverjum tíma svo og ákvörðun skólameistara um skiptingu starfa milli starfsmanna. Þeim er skylt að hlýða löglegum fyrirskipunum skólameistara sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmaður skal gæta þagmælsku um atriði sem tengjast starfi hans skv. lögum þar að lútandi og fyrirmælum yfirmanns.

Starfsmanni ber, áður en hann stofnar til atvinnurekstrar eða tekur að sér starf í þjónustu annars aðila samhliða starfi, að greina skólameistara frá því sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Starfsmenn skulu leitast við að fylgjast með nýjungum á starfssviði sínu og vera reiðubúnir til að takast á við ný og breytt verkefni.

Starfslýsingar

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki gerir starfslýsingar fyrir öll störf sem unnin eru innan skólans. Skólameistari gengur frá starfslýsingum í samráði við viðkomandi starfsmann. Þegar ráðið er í nýtt starf skal starfslýsing ávallt liggja fyrir. Þegar nýir starfsmenn koma til starfa skal þeim tryggð leiðsögn um skólastarfið.

Starfsmannaviðtöl

Skólameistari annast viðtöl við starfsmenn í þeirri viðleitni skólans að auka vellíðan og starfshæfni hvers og eins. Hverjum starfsmanni skal gefinn kostur á a.m.k. einu viðtali annað hvert ár þar sem hann getur komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Fastur þáttur í starfsmannaviðtölum skal vera að ræða veikleika og styrkleika skólahaldsins og markmið þess. Skal starfsmanni gefið tækifæri til að tjá sig um líðan sína í starfi og setja fram óskir um betrumbætur á starfsaðstöðu sinni. Þá skal yfirfara verklýsingar og starfslýsingar eftir atvikum.

Símenntun

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hvetur starfsmenn sína til að viðhalda og auka færni sína í starfi með símenntun af ýmsu tagi bæði innan skólans og utan. Það er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns hans að viðhalda og auka fagþekkingu viðkomandi. Gera skal árlega könnun á óskum starfsmanna um námskeiðahald fyrir starfsmenn skólans og niðurstöður hennar kynntar á starfsmannafundi.

Starfsandi

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra leggur áherslu á góðan starfsanda sem byggir á jákvæðu viðmóti, kurteisi, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu starfsmanna. Hegðun sem brýtur gegn almennu velsæmi eða veldur á annan hátt vanlíðan eða óþægindum verður undir engum kringumstæðum liðin. Þetta á t.d. við um einelti og kynferðislega áreitni.

Öryggismál og vinnuvernd

Vinnuumhverfi skal vera skv. lögum og reglugerðum um aðbúnað, hollustuhætti, öryggi á vinnustöðum (nr. 46/1980) og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum (nr. 77/1982). Við skólann starfar sérstök öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og skólameistari tilnefnir tvo fulltrúa. Báðir fulltrúar skólameistara teljast öryggisverðir og báðir fulltrúar starfsmanna öryggistrúnaðarmenn. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög og reglur. Fulltrúa í öryggisnefnd skal tilnefna og kjósa til tveggja ára.

Sjá öryggishandbók á http://www.fnv.is/files/fnv/gogn/Ordnung/Oryggishandbok.pdf

Viðvera og vinnutími

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki leggur áherslu á stundvísi og umsamda viðveru starfsmanna sinna. Skólameistari hefur umsjón með ástundun og stundvísi starfsmanna og gerir viðeigandi athugasemdir við þá ef ástæða er til.

1. Kennarar í fullu starfi skili vinnu sinni á tímabilinu 8 til 16.10 virka daga vikunnar.

2. Kennarar í meira en fullu starfi geta búist við að hluti yfirvinnu falli utan dagvinnumarka.

3. Kennari, sem óskar eftir því að kenna annað hvort fyrir eða eftir hádegi, getur ekki gert kröfu um hærra starfshlutfall en 50%.

Til að ná þessum þremur markmiðum skulu töflusmiðir leitast við að gera stundaskrár nemenda með tilliti til námskrár, vals nemenda og markmiða þeirra með námi sínu og að hafa þær sem samfelldastar. Þá skal taka mið af óskum kennara eftir því sem mögulegt er án þess að brjóta meginreglur um jafnræði og markmið skólans að öðru leyti.

Notkun vímuefna

Öll notkun vímuefna (þar með talin notkun tóbaks og rafsígaretta) er bönnuð í húsnæði og á skólalóð Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á. Skólinn leitast við að aðstoða starfsmenn og nemendur við að vinna úr vandamálum sem tengjast notkun vímuefna.

Siðareglur

Starfsmönnum ber að sýna trúnað í samskiptum sínum við nemendur. Skólinn fer fram á að starfsmenn stundi ekki starfsemi sem gengur gegn hagsmunum skólans eða er í samkeppni við hann. Að öðru leyti vísast til stjórnsýslulaga um sama efni og eftirfarandi siðareglna Kennarasambands Íslands.

Kennari:

 1. Menntar nemendur.
 2. Eflir með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu.
 3. Sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.
 4. Skapar góðan starfsanda og hvetjandi námsumhverfi.
 5. Hefur jafnrétti að leiðarljósi.
 6. Vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir.
 7. Kemur vel fram við nemendur og forráðamenn og virðir rétt þeirra.
 8. Gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn og þagmælsku um einkamál þeirra sem hann fær vitneskju um í starfi sínu.
 9. Viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.
 10. Vinnur með samstarfsfólki á faglegan hátt.
 11. Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
 12. Gætir heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.

(Siðareglur K.Í.)

Viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna

Leiðbeiningar um þau viðmið og gildi sem ríkisstarfsmönnum ber að fylgja í daglegum störfum sínum,sbr. dreifibréf 1/2006 frá Fjármálaráðuneytinu:

a.         Ríkisstarfsmaður gætir þess að fara vel með það vald sem honum er falið og beita því í þágu almannahagsmuna, gæta sanngirni og meðalhófs en ekki nýta það í eigin þágu.

b.         Beiti ríkisstarfsmaður mati við meðferð valds, sem honum er fengið, þar sem velja þarf á milli einstaklinga, t.d. við ráðningu í störf, úthlutun styrkja eða annarra gæða eða gerð samninga um verktöku, skal hann byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum, s.s. verðleikum og hæfni. Óheimilt er að mismuna málsaðilum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti.

c.         Ríkisstarfsmaður gætir þess að persónulegir og fjárhagslegir hagsmunir hans, fjölskyldu hans eða vina fari ekki í bága við starfsskyldur hans. Þannig skal hann t.d. ekki taka þátt í ákvörðunum ef hann tengist málsaðilum fjölskylduböndum, ef hann á sjálfur aðild að málinu eða ef það varðar vini hans eða fyrrverandi maka.

d.         Ríkisstarfsmaður skal ekki þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi hans ef almennt má líta á það sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Sanngjarnt er að víkja frá þessu ef um afmælisgjafir eða annars konar tækifærisgjafir er að ræða enda séu verðmæti þeirra innan hóflegra marka. Hafa skal samráð við yfirmann ef vafi leikur á hvort starfsmanni er heimilt að taka við gjöf.

e.         Ríkisstarfsmaður skal stuðla að því að upplýsingar um ákvarðanir og starfsemi þess stjórnvalds, stofnunar eða fyrirtækis sem hann starfar hjá séu aðgengilegar almenningi enda sé ekki um upplýsingar að ræða sem leynt þurfa að fara samkvæmt lögum.

f.          Ríkisstarfsmaður gætir þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Honum er óheimilt að afla sér trúnaðarupplýsinga í starfi sínu sem ekki hafa þýðingu fyrir starfið. Hann skal ekki hagnýta sér upplýsingar sem hann hefur fengið í starfi sínu og ekki hafa verið kynntar eða gerðar almennar, til þess að skapa sjálfum sér eða öðrum ávinning, þ. á m. fjárhagslegan, enda þótt ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða. Ríkistarfsmaður gætir þagnarskyldu sinnar þótt hann hafi látið af starfi sínu.

g.         Ríkisstarfsmanni ber að fara vel með almannafé, gæta þess að það sé vel nýtt og sé ekki notað á annan hátt en ætlast er til lögum samkvæmt.

h.         Ríkisstarfsmaður sem verður var við spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, skal koma upplýsingum um slíka háttsemi til réttra aðila. Til réttra aðila geta m.a. talist stjórnendur stofnunar, hlutaðeigandi fagráðuneyti og eftir atvikum Ríkisendurskoðun eða lögregla. Ríkisstarfsmaður sem í góðri trú greinir á réttmætan hátt frá upplýsingum samkvæmt þessum lið, skal á engan hátt gjalda þess.

Endurskoðun starfsmannastefnu

Starfsmannastefna skólans skal sæta endurskoðun kennarafundar reglulega.

Áætlun gegn einelti

Það er stefna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að starfsmenn sýni samstarfsfólki og nemendum skólans alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum liðin í skólanum, né heldur meðvirkni starfsmanna í einelti.

Skilgreining FNV á hvað einelti og kynferðisleg áreitni er styðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.: Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Stjórnendur bera ábyrgð á að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun fyrirtækisins í eineltismálum strax við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum.

Á vinnustöðum geta komið upp ágreiningsmál og hagsmunaárekstrar sem valdið geta óþægindum. Mikilvægt er að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.

Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti af sömu festu og einelti almennt.

Komi upp einelti skulu þolendur leita til skólameistara eða aðstoðarskólameistara. Ef yfirmaður er gerandinn eða hundsar vandamálið er hægt að leita til þriggja annarra aðila (sjá næsta kafla). Þessir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað.

Skólinn mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, t.d. með áminningu, tilflutningi í starfi eða uppsögn. Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda. Gerandi eineltis verður látinn sæta ábyrgð.

Viðbrögð

Starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni skal snúa sér hið fyrsta til skólameistara eða aðstoðarskólameistara og tilkynna um atvikið. Ef yfirmaður er gerandi málsins eða sinnir því ekki er hægt að snúa sér til tveggja annarra trúnaðarmanna.

Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar fyrirtækisins fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.

Auk yfirmanna skólans eru eftirfarandi trúnaðaraðilar tilbúnir að ræða við starfsmenn um meint einelti á vinnustaðnum.

1. Öryggistrúnaðarmenn skólans.

2. Náms- og starfsráðgjafi skólans.

Sá aðili, sem samband er haft við, ákvarðar síðan í samráði við þolanda hvert framhaldið verður sbr. lýsingu á ferli eineltismála á vinnustað og ferli ofbeldismála af hendi nemenda í garð kennara sem er að finna á heimasíðu Kennarasambands Íslands.

Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.

Óformleg málsmeðferð

Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.

Formleg málsmeðferð

Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað.

Fundin verður lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og áminningu.

Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins.

Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu getur það leitt til uppsagnar hans úr starfi.

 

Jafnréttisáætlun

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum bæði kvenna og karla. Jafnréttisáætlun skólans, sem byggir á lögum nr. 1 0/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er ætlað að stuðla að jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans og minna starfsfólk og stjórnendur á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis. Áætlunin er tvískipt þar sem fyrri hluti hennar nær til skólans sem vinnustaðar, en seinni hluti hennar nær til skólans sem menntastofnunar. Áætlunin gildir frá 1. september 2016 - 1. september 2019.
Í jafnréttisáætlun þessari er gerð grein fyrir jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúa auk þess sem sett eru fram helstu markmið og aðgerðir skólans sem miða að jafnrétti kynjanna.

Jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi

Innan skólans starfar jafnréttisnefnd. Kosið er í nefndina til tveggja ára á starfsmannafundi þar sem leitast er við að skipa hana einum fulltrúa úr hópi stjórnenda og tveimur úr hópi kennara og annars starfsfólks.

Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, móta stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa skólans, sem kosinn er til tveggja ára á starfsmannafundi. Í starfi sínu hefur nefndin til hliðsjónar jafnréttisáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stjórnarráðs og lög og reglugerðir sem við eiga.

Helstu verkefni nefndarinnar eru að:

• endurskoða jafnréttisstefnu skólans, sem kynnt verði starfsfólki skólans á starfsmannafundi í janúar ár hvert og stjórn nemendafélagsins í tölvupósti í sama mánuði auk kynningar í áföngum um kynjafræði og í lífsleikni.
• hafa eftirlit með að farið sé að lögum og reglum í jafnréttismálum og að jafnréttisáætlunum sé fylgt eftir meðal annars með því að safna og birta reglulega upplýsingar um stöðu jafnréttismála í skólanum.
• vera til ráðgjafar við gerð aðgerðaáætlana, ef þess er óskað, um hvernig rétta skuli hlut kynja þar sem það á við

• fylgjast með umræðu um jafnréttismál eftir því sem við verður komið
• standa að fræðslu um jafnréttismál fyrir stjórnendur og annað starfsfólk á starfsmannafundi í janúar ár hvert.
• halda uppi umræðu og fræðslu um jafnréttismál og koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.

Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra starfar jafnréttisfulltrúi sam valinn er á starfsmannafundi í september annað hvert ár. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi í skólanum. Jafnréttisfulltrúi sendir Mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega greinargerð um jafnréttisstarf skólans. Jafnréttisfulltrúi á sæti í jafnréttisnefnd sem sér um gerð starfsmannastefnu.

Helstu markmið og leiðir

Í jafnréttisáætlun Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, sem byggð er á lögum nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, er lögð áhersla á jafnan rétt kvenna og karla til náms óháð kynbundnum staðalmyndum, launa, stöðuveitinga, starfa, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og þátttöku í nefndum og ráðum. Jafnframt er áréttað mikilvægi þess að bæði kyn fái notið starfsþjálfunar og endurmenntunar að jöfnu. Auglýsingar, upplýsingagjöf, kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni og tengsl við starfsmannastefnu eru einnig viðfangsefni jafnréttisáætlunar skólans.

Jafnréttisáætlunin er í tvíþætt. Fyrri hlutinn fjallar um skólann sem vinnustað og sá síðari um skólann sem menntastofnun.

Skólinn sem vinnustaður

Launajafnrétti 19. grein.

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Kynjajafnréttis sé gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda, beinna og/eða óbeinna. Einnig skulu kynin njóta sömu kjara og réttinda sem metin verða til fjár sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Þátttaka í nefndum og ráðum

Unnið skal markvisst að því að jafna fjölda kvenna og karla í nefndum, ráðum og nefndum á vegum skólans. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir og ráð skal farið fram á að tekið sé mið af 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, en þar segir:

Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. mgr. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.

Auglýsingar og upplýsingagjöf

Í auglýsingum skulu störf vera ókyngreind og mismuna ekki kynjum. Þegar birtar eru tölfræðilegar upplýsingar á vegum skólans skulu þær jafnan kyngreindar, eftir því sem við á.

Stöðuveitingar og störf

Laus störf 20. gr.

Jafnréttissjónarmið verður að meta til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Stefnt skal að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynja í störfum innan skólans. Þess verði gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í störfum. Jafnframt skulu bæði kyn njóta sömu tækifæra til að axla ábyrgð.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun 20.gr.
Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til menntunar og starfsþjálfunar. Til að tryggja að svo megi vera þarf að skýra endurmenntunarstefnu skólans í starfsmannastefnu og safna skipulega upplýsingum um endurmenntun starfsfólks. Tryggja þarf að tilboð sem lúta að starfsþjálfun mismuni ekki kynjum.

Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni

Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni.

Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

• Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
• Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.

Telji starfsfólk sig verða fyrir kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni skal það leita til trúnaðarmanna eða jafnréttisfulltrúa eins og fram kemur í starfsmannastefnu.

Skólinn standi fyrir fræðslu fyrir starfsfólk um kynbundið ofbeldi, kynferðislega og kynbundna áreitni.

Starfsmannastefna

Jafnréttissjónarmið og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna verða að vera virkur þáttur í starfsmannastefnu skólans. Í starfsmannastefnunni þarf meðal annars að taka mið af jafnrétti þegar fjallað er um líðan nemenda og starfsfólks á vinnustað og starfsanda. Einnig þarf í starfsmannastefnu að vera ljóst hvernig nemendum og starfsfólki er gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Jafnréttisáætlun og starfsmannastefna skólans verða að vera samhljóma. Til að gæta jafnréttissjónarmiða tekur jafnréttisfulltrúi þátt í endurskoðun starfsmannastefnu og er það eitt af hlutverkum jafnréttisnefndar að vera til ráðgjafar við endurskoðunina.

Skólinn sem menntastofnun.

Kennslustefna skólans

Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er lögð áhersla á nám á bóknámsbrautum, iðnnámsbrautum og starfsnámsbrautum. Boðið er upp á nám fyrir breiðan hóp nemenda óháð kyni. Lögð er áhersla á að nemendur fái kynningu á námsleiðum sem mismunar ekki eftir kyni. Leiðarljós skólans eru grunngildin vinnusemi, virðing og vellíðan. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og hafa fjölbreytnina að leiðarljósi til þess að allir nemendur geti fundið nám við hæfi. Áfangakerfið og fjölbreytni náms í skólanum eykur ábyrgð nemenda á eigin námi og námsvali, ábyrgðin þroskar þá og gerir þá um leið hæfari til þátttöku í samfélaginu. Að velja sér námsleiðir eftir áhuga, getu og metnaði er upphafið að þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi nútímans. Það liggur því í eðli skólans að fjölbreytni í kennsluaðferðum er mikil, sveigjanleiki í námi og námsframboði sömuleiðis. Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti, réttindi og skyldur.

Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni

Allir nemendur eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni.

Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

• Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
• Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.

Telji nemendur sig verða fyrir kynferðislegri eða kynbundinni áreitni skulu þeir t.d. leita til jafnréttisfulltrúa, náms- og starfsráðgjafa eða stjórnenda.

Skólinn standi fyrir fræðslu fyrir nemendur um kynbundið ofbeldi, kynferðislega og kynbundna áreitni.

Stefna skólans og markmið

Jafnréttissjónarmið og leiðir til að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna verða að vera virkur þáttur í stefnu skólans og markmiðum. Í stefnu skólans og markmiðum þarf meðal annars að taka mið af jafnrétti þegar fjallað er um líðan nemenda í skóla og skólabrag. Einnig þarf að vera ljóst hvernig nemendum er gert kleift að samræma nám sitt og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegri skólasókn, eða annarri hagræðingu, eftir því sem við verður komið. Jafnréttisáætlun og stefna skólans og markmið verða að vera samhljóma. Til að gæta jafnréttissjónarmiða tekur jafnréttisfulltrúi þátt í endurskoðun stefnu skólans og markmiða og er það eitt af hlutverkum jafnréttisnefndar að vera til ráðgjafar við endurskoðunina.

Endurskoðun og samþykkt

Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við 18., 22. og 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þar sem kveðið er á um að leggja beri áherslu á að tryggja konum og körlum jafna stöðu og jafnan rétt. Jafnframt segir að jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skuli endurskoða á þriggja ára fresti.

Jafnréttisáætlun FNV verður næst endurskoðuð í ágúst 2019 undir stjórn jafnréttisfulltrúa skólans.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun 1

Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir þar sem fram kemur hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. jafnréttislaga.

Launajafnrétti 19. grein

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Að konur og karlar fái sömu laun og njóti sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Samstarfnefnd fari yfir röðunarforsendur til launa fyrir hvern starfsmann með tilliti til jafnrar stöðu kynjanna. Skólameistari og trúnaðarmaður. Við upphaf hvers skólaárs.

 

Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun 20. grein

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Laus störf standi bæði konum og körlum til boða. Í auglýsingum verði bæði kyn hvött til að sækja um laus störf nema á annað kynið halli í viðkomandi starfsgrein. Skólameistari Þegar störf eru auglýst
Jafna kynjahlutfallið í starfsmannahópnum. Halli á annað kynið í einhverri starfgrein innan skólans skal leitast við að rétta þann halla standi umsækjendur jafnir að öðru leyti. Skólameistari og skólanefnd Þegar ráðið er í störf
Konur og karlar sem vinna sambærileg störf skulu hafa jafnan aðgang að starfsþjálfun og endurmenntun. Að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Hér er um viðvarandi viðleitni að ræða.
Efla kynjafræðiþekkingu starfsfólks.

Starfsfólki verði gert að sitja  námskeið um kynjafræði einu sinni á ári auk þess að veita því aðgang að fræðsluefni auk árlegrar kynningar á jafnréttisstefnu skólans í janúar ár hvert.

Skólameistari og Jafnréttisnefnd Frá og með upphafi haustannar 2016

 

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs 21. grein

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Starfsfólki sé gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Að komið sé til móts við starfsfólk með sveigjanlegum og fyrirsjáanlegum vinnutíma eftir því sem við verður komið. Kennarar geta lagt fram óskir um skipulag stundatöflu fyrir upphaf hverrar annar. Komið er til móts við annað starfsfólk með tilhliðrun vinnutíma eftir því sem við verður komið. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri Við skipulag skólastarfs í upphafi hverrar annar.

 

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni 22. grein

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum. Farið verði eftir aðgerðaröð eineltisáætlunar skólans komi til tilvik sem varða kynbundið ofbeldi eða áreitni. Efnt verði til umræðu um málaflokkinn í hópi starfsfólks. Jafnréttisnefnd og skólameistari. Umræður farir fram að minnsta kosti einu sinni á skólaári.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun 2

Skólum ber auk þess að uppfylla 23. gr. jafnréttislega (menntun og skólastarf) og 22. gr. sömu laga (kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni).

23. gr. jafnréttislaga / menntun og skólastarf:

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Nemendur fái fræðslu um jafnréttismál. Námsáfangi í kynjafræði er skylduáfangi á öllum bóknámsbrautum skólans. Nemendur á öðrum námsbrautum sæki námskeið um jafnréttismál. Skólameistari aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Allir nemendur fái fræðslu um jafnréttismál a.m.k. einu sinni á námsferli sínum.
Að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Allir reglulegir nemendur skólans fái fræðslu um jafnréttismál með þátttöku í námsáföngum um lífsleikni og kynjafræði auk sérstakra námskeiða þar að lútandi. Skólameistari aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Allir nemendur fái fræðslu um jafnréttismál a.m.k. einu sinni á námsferli sínum.
Að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjunum. Leitast verði við að velja kennslu- og námsgögn sem endurspegla framlag beggja kynja í viðkomandi greinum og fjalla um bæði kyn. Kennarar skólans og þeir sem sjá um val á námsefni hverju sinni. Hér er um viðvarandi viðleitni að ræða.
Í námsráðgjöf og starfsfræðslu fái strákar og stelpur fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf. Kynna skal báðum kynjum nám og störf óháð kynbundnum staðalmyndum. Náms- og starfsráðgjafi og kennarar í lífsleikniáföngum. Hér er um viðvarandi viðleitni að ræða.
Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skólastarfinu. Þess verði gætt að fulltrúar beggja kynja komi að stefnumótun og áætlanagerð svo sem þegar unnið er við skólanámskrá, við gæðastjórnun og innra mat. Með þessu verði tryggt að sjónarmið beggja kynja endurspeglist í stefnumótun og áætlanagerð skólans. Skólameistari. Við alla vinnu við stefnumótun og áætlanagerð.

 

22. gr. jafnréttislaga / kynbundin og kynferðisleg áreitni:

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni í skólanum eða í félagsstarfi á vegum skólans. Farið verði eftir aðgerðaröð eineltisáætlunar skólans komi til tilvik sem varða kynbundið ofbeldi eða áreitni. Allir nemendur á bóknámsbrautum skólans sæki námsáfanga um kynjafræði og séð verði til þess að aðrir nemendur skólans fái fræðslu á sömu nótum. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Allir nemendur fái fræðslu um kynbundna og kynferðislega áreitni a.m.k. einu sinni á námsferli sínum.

 

Samstarf heimilis og skóla:

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Að mæður og feður taki jafnan þátt í skólastarfinu.
Starfsfólk skólans útiloki ekki annað foreldrið á grundvelli kyns.
Þess verði gætt að foreldrar njóti þeirra ívilnana í námi sem nauðsynlegar eru til að stunda nám samhliða barnauppeldi óháð kyni. Skólameistari, aðstoðarskólameistari, áfangastóri og viðkomandi kennarar. Þegar þörf krefur.

 

Annað:

Markmið
(Hvað?)
Aðgerð
(Hvernig?)
Ábyrgð
(Hver?)
Tímarammi
(Hvenær?)
Að karlar og konur hafi sömu tækifæri til náms. Boðið verði upp á fjölbreytt námsframboð sem mismunar ekki kynjum. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Hér er um viðvarandi viðleitni að ræða.
Að jafn margar konur og karlar sitji í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum skólans. Tilnefningaraðilum sé gert að tilnefna bæði karla og konur.
Reglulega verði birt yfirlit yfir hlutfall kynja í nefndum.
Skólameistari, aðstoðarskólameistari,  áfangastjóri og jafnréttisfulltrúi. Í hvert sinn sem tilnefnt er í nefndir og ráð. Jafnréttisnefnd kynni stjórnendum og starfsfólki stöðuna í janúar og september hvert ár.
Að auglýsingar mismuni ekki kynjum og höfði til beggja kynja. Farið yfir auglýsingar sem fara frá skólanum. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Hvenær sem auglýsingar fara frá skólanum.
Að tölfræðilegar upplýsingar séu kyngreindar eftir því sem við á. Þetta á einkanlega við um niðurstöður úr innra gæðamati skólans sem kynntar eru starfsfólki á starfsmannafundum og nemendum á skólafundi. Leitast verður við að kyngreina upplýsingar á vef, í vefriti og fréttatilkynningum. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Jafnréttisfulltrúi fylgist með því að aðgerðir eigi sér stað og fari tvisvar á ári yfir stöðuna og upplýsi jafnréttisnefnd.

 

Gæðastefna

Innra mat

Matsteymi hefur umsjón með innra mati skólans. Matsferlið er þannig að matsteymið ákveður matsþætti í samráði við starfsfólk skólans, síðan eru matsspurningar settar fram og viðmið ákveðin. Næst er gagna aflað og gögnin greind. Loks er gerð umbótaáætlun og hún sett í framkvæmd með ákvæðum um eftirfylgni.

 Matsferli í innra mati FNV

Matsferli í innra mati FNV

Helstu matsþættir eru: a) kennsla og önnur störf kennara, b) stjórnun, c) stoðþjónusta, d) nemendur og nám og e) starfsfólk og starfsumhverfi.

Forvarnastefna

Skólinn stuðlar að heilbrigðum lífsháttum nemenda sinna. Hann leitast við að efla áhuga þeirra á lífi án áfengis, tóbaks og annarra vímuefna.

Markmiðum þessum hyggst skólinn ná með því að:
1. veita forvarnarfræðslu fyrir nemendur, aðstandendur þeirra og starfsmenn skólans,
2. leitast við að flétta forvarnir inn í kennslu og félagsstarf skólans,
3. sjá nemendum fyrir viðfangsefnum sem stuðla að jákvæðri sjálfsmynd, sjálfsvirðingu og sjálfsaga,
4. kynna starfsfólki og nemendum skýrar reglur um umgengni og hegðun gagnvart ávana- og fíkniefnum og framfylgja viðurlögum við brotum á þeim,
5. gera sérstaka stuðningsáætlun fyrir ungmenni í áhættuhópi,
6. taka þátt í samstarfi við aðila utan skólans sem sinna forvarnastarfi,
7. hafa stefnu skólans í forvörnum í stöðugri endurskoðun.

Heilsustefna

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra leggur áherslu á heilsueflingu allra nemenda og starfsfólks skólans. Verkefni þetta miðar að bættri heilsu og líðan m.a. með góðri og heilsusamlegri vinnuaðstöðu, hvatningu til hollrar hreyfingar og heilsusamlegs lífernis.

Meginmarkmið þessa verkefnis er að marka stefnu um hollustuhætti, heilbrigði og aðbúnað sem hafi áhrif á allt daglegt starf nemenda og starfsfólks skólans.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra setur sér fimm undirmarkmið um aukna hreyfingu, forvarnir gegn streitu, hollt mataræði, áfengis-, tóbaks og vímuefnavarnir og öryggi. Þessi markmið eru að:

1. Efla þekkingu meðal starfsfólks og nemenda skólans á gildi hollrar hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu og stuðla að reglulegri hreyfingu þeirra.

- Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:

i. Skólinn standi fyrir og hvetji til þátttöku í almennri hreyfingu nemenda og starfsfólks s.s. með þátttöku í keppni framhaldsskólanema og Lífshlaupinu.
ii. Bjóða nemendum þátttöku í íþrótta- og útivistaráföngum.
iii. Bjóða nemendum upp á frjálsa hreyfitíma utan hefðbundinnar líkamsræktarkennslu.

2. Allir taki þátt í að efla góðan starfsanda og hugað sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna skólans.

- Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:

i. Hafa á heimasiðu skólans aðgengilegar upplýsingar um stoðþjónustu skólans og leiðir til að nálgast aðstoð á sviði andlegrar heilsu.
ii. Bjóða fræðslu um mikilvægi andlegrar heilsu m.a. í lífsleikni fyrir nýnema.

3. Stuðla að hollu mataræði meðal nemenda og starfsmanna.

- Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:

i. Bjóða hollan mat í samræmi við viðmið Lýðheilsustöðvar í mötuneyti skólans.
ii. Sjá til þess að í verslun nemenda sé fyrst og fremst boðið upp á holla matvöru á borð við ávexti og grænmeti.
iii. Þegar boðnar eru veitingar í skólanum sé þess gætt að í boði sé hollustufæða.

4. Annast fræðslu um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna sem nái til nemenda og starfsmanna undir kjörorðunum „Mens sana in corpore sano“ (heilbrigð sál í hraustum líkama ) auk þess að setja fram upplýsingar um leiðir til að hætta notkun þessara efna. Forvarnarfulltrúi skólans annast umsjón og skipulagningu þessar fræðslu.

- Þessu markmiði hyggst skólinn ná með því að:

i. Veita forvarnarfræðslu fyrir nemendur, aðstandendur þeirra og starfsmenn skólans.
ii. Leitast við að flétta forvarnir inn í kennslu og félagsstarf skólans.
iii. Sjá nemendum fyrir viðfangsefnum sem stuðla að jákvæðri sjálfsmynd, sjálfsvirðingu og sjálfsaga.
iv. Kynna starfsfólki og nemendum skýrar reglur um umgengni og hegðun gagnvart ávana- og fíkniefnum og framfylgja viðurlögum við brotum á þeim.
v. Gera sérstaka stuðningsáætlun fyrir ungmenni í áhættuhópi.
vi. Taka þátt í samstarfi við aðila utan skólans sem sinna forvarnastarfi.
vii. Hafa stefnu skólans í forvörnum í stöðugri endurskoðun.

5. Tryggja öryggi í húsnæði skólans og framfylgja öryggisáætlun skólans.

- Þessum markmiðum hyggst skólinn ná með því að:

i. Endurskoða öryggishandbókina annað hvert ár.
ii. Viðhalda öryggis- og áhættumati og leita úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á.
iii. Bjóða upp á námskeið í skyndihjálp.

Stefna um alþjóðlegt samstarf

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra býr nemendur undir líf og starf í alþjóðlegu umhverfi m.a. með þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi og verkefnum.

Gera má ráð fyrir að hluti nemenda FNV stundi síðar nám og störf erlendis. Af þeim sökum er mikilvægt að þeir kynnist menningu og tungumálum annarra þjóða, einkanlega í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands þar sem langt er í næstu nágranna. Sama gildir um starfsfólk skólans og starfsemi hans. Skólinn hefur um árabil tekið þátt í margvíslegum Evrópuverkefnum á vegum Leonardo, Comeniusar, Erasmus+ og Nordplus sem hafa náð til nemenda, starfsmanna og skólaþróunar.

Stefna skólans er að:

 • Styrkja stöðu sína á sviði bóknáms, verknáms og starfsnáms með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
 • Byggja upp tengslanet og samstarf við aðra skóla og stofnanir utan og innan Evrópu.
 • Hvetja nemendur og starfsfólk til þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum.
 • Stuðla að aukinni þekkingu og skilningi nemenda og starfsfólks á menningu og tungu annarra þjóða.
 • Gera nemendur og starfsfólk meðvitað um þau tækifæri sem felast í þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
 • Miðla og sækja þekkingu og reynslu til annarra þjóða.

Umhverfisstefna FNV

Í einkunnarorðum skólans segir m.a. „Í skólanum er lögð áhersla á virðingu fyrir sérhverjum einstaklingi, samfélaginu og umhverfinu og leitast er við að sýna það í verki“.

Í þessum anda er eitt af hlutverkum skólans að efla þekkingu og virðingu nemenda og starfsfólks skólans fyrir umhverfi sínu í víðasta skilningi þess orðs. Í því felst m.a. að nemendur öðlist skilning á mikilvægi þess að vernda umhverfið og læra að meta gildi þess fyrir framtíðina.

Helstu markmið með umhverfisstefnu skólans eru að

 • efla skilning nemenda og starfsfólks á mikilvægi náttúrunnar og gildi þess að ganga vel um hana.
 • auka þekkingu nemenda á náttúrunni og þeim gæðum sem fólgin eru í sjálfbærni og hófsamri nýtingu auðlinda hennar.
 • hvetja nemendur og starfsfólk til að njóta þeirra náttúrgæða sem fólgin eru í nærumhverfi þeirra.
 • hvetja nemendur til heilsusamlegs lífernis í sátt við sitt nánasta umhverfi.
 • stuðla að góðri umgengni um umhverfið sem einkennist af virðingu og hófsemi.
 • efla skilning nemenda og starfsfólks á vistsporum og áhrifum lífshátta þeirra á náttúruna.

Helstu leiðir við framkvæmd stefnunnar

Meðal leiða að þessum markmiðum má nefna námsefni í lífsleikni, lýðheilsu, jarðfræði, líffræði, vistfræði og sögu þar sem m.a. er fjallað um samspil manns og náttúru og þau gríðarlegu áhrif sem maðurinn hefur haft á umhverfi sitt. Nægir í þeim efnum að minna á magn gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum.

Við skólann er m.a. boðið upp á námsáfanga í útivist þar sem nemendur takast á við sjálfa sig í íslenskri náttúru. Þá eru nemendur og starfsfólk hvatt til að ferðast til og frá skóla á vistvænan máta m.a. með þátttöku í átaki á borð við Hjólað í vinnuna. Í íþróttaáföngum er lögð áhersla á hreyfingu og útivist þegar veður leyfir og nemendur og starfsfólk hvatt til daglegrar útivistar.

Með góðri umhirðu lóða skólans við Bóknámshús, Hátæknimenntasetur og heimavist er lögð áhersla á mikilvægi snyrtilegs umhverfis og umönnunar gróðurs.

Með skýrum verklagsreglum í skólanum um förgun spilliefna leggur skólinn áherslu á ábyrga umgengni og sjálfbærni. Sama gildir um innkaup á hreinsiefnum til þrifa í skólanum, en þar er lögð áhersla á umhverfisvæn efni sem eru merkt með svansmerkinu. Allur úrgangur er flokkaður og honum fargað skv. reglum Sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem m.a. er lögð áhersla á endurvinnslu endurvinnanlegra efna.

Skólinn vinnur kerfisbundið að því að fá þá umhverfisvottun sem fólgin er í Grænfánanum.

Viðbrögð við áföllum

Hvað er áfall?

Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið áfall m.a. slys, tjón, mótlæti, þungbæra reynslu eða sjúkdóma. Dauðsföll og slys gera ekki boð á undan sér og því er fólk misvel í stakk búið að takast á við áföll og vinna úr þeim. Oft kemur það í hlut kennara að tilkynna nemendum og samstarfsfólki um slíka hluti og því er gott að hafa einhvern ramma til að styðjast við þegar slíkt ber að höndum.

Áfallahjálp í skólum

,,Áfallahjálp byggist á vitneskju um eðlileg viðbrögð einstaklinga og hópa við alvarlegum áföllum sem valda sálrænu umróti og streituviðbrögðum hjá þeim sem hlut eiga að máli. Áfallahjálp beinist að því að fyrirbyggja alvarleg og langvinn sálræn eftirköst í kjölfar áfalla af ýmsum toga." (Fyrirlestur Borghildar Einarsdóttur og Rudolfs R. Adolfssonar um áfallahjálp 18. febrúar 2000) Það skiptir miklu máli að sá, sem veitir áfallahjálp, sé rólegur og gefi sér nægan tíma. Mikilvægt er að, sá sem verður fyrir áfalli, finni að hann er öruggur og geti treyst þeim sem eru hjá honum. Þá er mikilvægt að farið sé á afvikinn stað svo að viðkomandi verði ekki fyrir truflun. Sá, sem fyrir áfalli verður, þarf að finna fyrir hlýju, vinsemd og líkamlegri nálægð, hann sé faðmaður og hughreystur. Staðreyndir þarf að skýra og reyna að fá þolandann til þess að horfast í augu við raunveruleikann. Honum er nauðsyn að fá að tjá sig til að koma skipulagi á tilfinningar sínar og hugsun.

Ef slys hefur borið að höndum í skóla hefur það forgang að veita líkamlega skyndihjálp. Sálræn skyndihjálp felst í því að þeir sem hana veita huggi nemendur og starfsfólk og leyfi þeim að fá sem eðlilegasta útrás fyrir tilfinningar sínar, sem geta birst á mismunandi hátt, m.a. sem grátur, ógleði, skjálfti og köfnunartilfinning, en geta líka verið doði, tómleikatilfinning, fólksfælni og þörf fyrir einveru.

Viðbrögð skólans við slysi eða dauða

Fyrstu viðbrögð

1. Hefjist handa!

2. Fáið staðfestingu á andláti eða slysi hjá aðstandendum, lögreglu eða sjúkrahúsi.

3. Kallið áfallaráð skólans saman. Fyrsti fundur ætti að vera stuttur, þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar.

4. Skólameistari kallar starfsmenn skólans saman. Starfsmönnum er tilkynnt hvað gerst hefur og hvernig skólinn hyggst taka á málum.

5. Segið nemendum skólans frá atburðinum. Boðið alla nemendur á sal. Segja má nemendum skólans frá atburðum í skólastofum, aðeins þarf að gæta þess að þeir fái fregnina samtímis.

Æskilegt er að leyfa nemendum að ræða um atburðinn og líðan sína.

6. Sé um dauðsfall að ræða:

a) Húsvörður flaggar í hálfa stöng að tilkynningu lokinni.

b) Ritari setur fram dúkað borð og kveikir á kerti.

7. Í lok skóladagsins koma starfsmenn skólans saman með áfallaráði. Farið er yfir nöfn þeirra sem tengjast atburðinum s.s. ættingja og vini. Aðgerðir næstu daga ræddar.

Viðbrögð næstu daga

1. Hlúð að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálfræðing, prest, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s.frv.

2. Hafi nemandi eða starfsmaður látist, er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá prests. Ritari sér um að minningabók liggi frammi.

3. Húsvörður flaggar á jarðarfarardag.

4. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefið gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Bjóðið upp á hópvinnu eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á.

Alvarleg slys í skóla

1. Sá starfsmaður, sem kemur fyrstur að slysi í skóla, sendir einhvern nærstaddan strax til að kalla á hjálp og tilkynna skólameistara um slysið. Starfsmaðurinn reynir að halda nemendum frá slysstað og veitir þá aðstoð sem þörf er á.

2. Skólameistari leitar staðfestingar á að hringt hafi verið á sjúkrabíl og lögreglu eða vinnueftirlit eftir atvikum.

3. Skólameistari biður viðkomandi starfsmann að skrá niður vitni að slysinu.

4. Skólameistari lætur starfsfólk vita og kennarar tilkynna nemendum um slysið. Aðrar aðgerðir sbr. liði nr. 5 - 7 í kaflanum um fyrstu viðbrögð.

5. Námsráðgjafi / Umsjónarkennari nemandans sér um tengsl við aðstandendur og / eða sjúkrahús eftir atvikum.

Áfallaráð

Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsmenn skólans. Mikilvægt er að þeir, sem veljast í áfallaráð, geti unnið undir miklu álagi og séu vel undir það búnir að mæta fólki sem er hrætt, hnuggið eða sorgmætt.

Skipan áfallaráðs í FNV: Skólameistari / aðstoðarskólameistari, námsráðgjafi, fulltrúi kennara, ritari, verkefnisstjóri félagsmála nemenda / forvarnafulltrúi og hjúkrunarfræðingur skólans.

Áfallaráð metur þörf á að leita til eftirtalinna aðila: læknis, prests, formanns nemendafélags.

Verkaskipting áfallaráðs

1.Skólameistari er formaður ráðsins og hann kallar áfallaráðið saman þegar þörf krefur. Hann er yfirleitt sá aðili innan skólans sem fyrst er haft samband við vegna válegra tíðinda og hann hefur þá yfirsýn sem til þarf. Hann getur tekið ákvarðanir strax. Hann sér að jafnaði um samskipti við fjölmiðla en getur falið öðrum það hlutverk í sérstökum málum.

2. Námsráðgjafi er sá starfsmaður innan skólans sem hefur sérfræðiþekkingu á viðbrögðum fólks við válegum tíðindum. Hans hlutverk er fyrst og fremst að skipuleggja sálræna skyndihjálp við þann / eða þá sem fyrir áfalli verða. Mikilvægt er að þessi skipulagning sé þannig að sá, sem fyrir áfalli verður, fái strax þá aðstoð og aðhlynningu sem nauðsynleg er.

3. Fulltrúi kennara er tengiliður við aðra kennara skólans og gætir þess að boð komist til allra á sem skemmstum tíma. Hann hefur það hlutverk í ráðinu að sjá um samskipti við fjölmiðla ef við á og skólameistari felur honum það. Ef slíkir atburðir hafa átt sér stað, að fjölmiðlar sýni þeim áhuga, er mjög mikilvægt að skólinn sé frá upphafi með ákveðnar reglur um hver gefi upplýsingar. Mikilvægt er að huga að hvað er sagt og hvað er látið ósagt. Fjölmiðla má nýta til þess að koma upplýsingum fljótt og vel til nemenda og aðstandenda þeirra. Þeir geta einnig veitt fólki leiðbeiningar og leiðrétt sögusagnir. Þegar fjölmiðlar leita til annarra starfsmanna skólans er þeim vísað á tengiliðinn.

4. Ritari er vanur að miðla og taka við upplýsingum. Ef hringt er og beðið um að ná í nemanda úr tíma, er mjög nauðsynlegt að ritarinn hafi á blaði hjá sér ákveðnar spurningar áfallaráðs til að komast að alvarleika málsins. Þannig er komið í veg fyrir að nemanda sé t.d. tilkynnt um dauðsfall beint í gegnum símann. Með vitneskju sinni um eitthvað alvarlegt getur ritari t.d. haft samband við námsráðgjafa sem þegar hefur skipulagt sálræna aðstoð í slíkum málum. Nemandinn er síðan sóttur úr tíma, honum tilkynnt um atburðinn og hlúð að honum eins og hægt er. Mismunandi er hvernig fólk tekur áföllum. Skólinn þarf að vera undir það búinn að bjóða fram þá aðstoð sem nauðsynleg er til að nemandinn fari ekki úr skólanum í þannig ástandi að hann geti orðið sjálfum sér og / eða öðrum til skaða.

5. Verkefnisstjóri félagsmála / forvarnafulltrúi er sá starfsmaður skólans sem hefur oft betra aðgengi að nemendum en aðrir starfsmenn. Ef nemandi t.d. slasast alvarlega eða lætur lífið hefur verkefnisstjóri félagsmála samband við þá sem hafa upplýsingar um hver vinahópurinn er svo hægt sé að ná sem fyrst til þeirra. Nauðsynlegt er að nánustu vinir fái aðstoð, svo og að aðstandendur þeirra fái vitneskju um atburðinn þannig að nemendur geti fengið stuðning þegar heim er komið.

Fyrstu viðbrögð kennara í kennslustund eftir válegan atburð.

Sjá nánar á Sarpinum.

Á innra neti skólans (sarpi) eru leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð kennara í kennslustund eftir válegan atburð.

Tilkynning frá skólanum til aðstandenda nemenda

Sú staða getur komið upp að skólinn telji rétt að koma boðum til aðstandenda nemenda, t.d. til að tryggja að nemandi fái þann stuðning sem nauðsynlegur er ef t.d. um dauðsfall náins vinar er að ræða. Til hagræðingar hefur skólinn tilbúið uppkast að bréfi í fórum áfallaráðs, svo hægt sé að skrifa bréfið sem fyrst og til að fyrirbyggja að eitthvert atriði gleymist í því umróti sem válegur atburður getur haft í för með sér.

Heimildir um viðbrögð við vá:

Dyregrov, Atle: 1993. Katastrofepsykologi, Gyldendal AS, 1993 Norway

Landlæknisembættið og Miðstöð áfallahjálpar Sjúkrahúss Reykjavíkur: 1999. Sálræn eftirköst áfalla. Bæklingur saminn af Borghildi Einarsdóttur og Rudolf R. Adolfssyni