FNV og UMF Tindastóll stofna íþróttaakademíu í knattspyrnu

Mánudaginn 13. mars, undirrituðu skólameistari FNV og formaður knattspyrnudeildar U.M.F.Tindastóls samning um íþróttaakademíu sbr neðangreinda lýsingu. Samningur þessi stendur í beinu sambandi við gervigrasvöll sem verður tekinn í notkun næsta haust.

Íþróttaakademía Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og knattspyrnudeildar U.M.F.Tindastóls.

U.M.F.Tindastóll – knattspyrnudeild og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra standa sameiginlega að íþróttaakademíu. Nemendur í FNV geta unnið sér inn námseiningar og samhliða því fengið markvissa þjálfun sem skilar þeim lengra í sinni grein sé öllum skilyrðum þar að lútandi fullnægt.

Íþróttaakademía FNV og knattspyrnudeildar U.M.F.Tindastóls hafa sett á stofn Íþróttaakademíu í knattspyrnu fyrir pilta og stúlkur í FNV. Íþróttaakademían er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi og er boðið upp á 4 námseiningar á önn í knattspyrnu. Með fjölbreyttum og skipulögðum æfingum og bóklegum kennslustundum verður unnið markvisst að því að gera nemendum kleift að bæta sig bæði líkamlega og andlega. Æfingarnar skiptast í tækniæfingar í viðkomandi íþróttagrein og styrktarþjálfun sem er nauðsynleg til að ná hámarksárangri í íþróttum.

Bóklega kennslan mun fela í sér nauðsynlegan fróðleik fyrir þá sem ætla að skara fram úr. Leitast verður við að auka sjálfstraust og bæta sjálfsmynd nemenda til þess að bæta árangur þeirra. Í þeim tilgangi þurfa þátttakendur að ljúka í a.m.k. þremur af fjórum eftirtöldum áföngum:

Næringarfræði (NÆRI2ON05)
Þjálffræði (LÍFF3LÞ05)
Hreyfifræði (LÍFF3VB05)
Íþróttasálfræði (SÁLF3ÍS03)

Nemendur læra að vera hluti af liðsheild þar sem þeir þurfa bæði að gefa af sér og geta unnið vel með öðrum. Þeir þurfa að tileinka sér þann aga og lífsstíl sem þarf til að ná hámarksárangri í íþróttum, læra að tileinka sér hugsunarhátt afreksmanna, hugsa vel um eigin líkama, borða hollan og góðan mat, temja sér heilbrigt líferni og vera reglusamir í alla staði.

Nemendur þurfa að gangast undir strangar mætinga- og agareglur enda er reglusemi og dugnaður undirstaða velgengni í íþróttum. Neysla áfengis, tóbaks og fíkniefna er bönnuð í Akademíunni og getur brot á þeim reglum valdið brottrekstri úr henni.

Nemendur sem ljúka námi með fullnægjandi hætti í Íþróttaakademíunni fá afhent skírteini því til staðfestingar við brautskráningu frá skólanum.