Flúðasigling útivistarhóps
Flúðasigling útivistarhóps

Árleg flúðasigling útvistarhóps FNV, niður Vestari-Jökulsá, var farin miðvikudaginn 13. sept. síðastliðinn. Að þessu sinni var farið með Viking Rafting en þeir hafa aðstöðu á Hafgrímsstöðum í Lýtingsstaðahreppi hinum forna.

Alls mættu 35 nemendur ásamt 1 kennara í bækistöð „Raftaranna“ kl. rúmlega tvö þar sem ganga þurfti frá ýmsum málum áður en nemendur fengju leiðsögn um klæðnað og búnaðinn, sem fyrirtækið lætur þátttakendum í té s.s. þurrbúning, hjálm, skó, vettlinga og síðast en ekki síst björgunarvesti. Sérstaklega var tekið fram menn skyldu klæðast búningunum rétt og af alúð og ef einhver kæmi í honum úthverfum úr búningsherberginu þá mætti gera að honum góðlátlegt grín. Það var bara einn sem klikkaði á þessu og var það undirritaður sem náttúrulega hafði um svo margt að hugsa að hann féll á prófinu!

Þegar allir voru komnir í gallana og með sinn útbúnað var safnast í rútu sem keyrði hópinn að upphafsreit siglingarinnar. Þar var lögð lokahönd á undirbúninginn og farið í gegnum hvað má og hvað má ekki í svona ferð.

Menn stilltu sér upp fyrir myndatöku og nokkrir þurftu að pissa því ekki er gott að verða mál á miðri leið, því þá er bara ein leið í stöðunni.

Fimm bátar ásamt fimm bátsstjórum voru nú tilbúnir á bakkanum og var hópnum skipt á milli bátanna og gekk það fljótt og örugglega fyrir sig. Hver bátsstjóri tók síðan sína áhöfn og fór í gegnum þær skipanir sem hann notar svo allir í áhöfninni rói í takt og eins var kennt hvernig hjálpa ætti þeim sem dyttu útbyrðis aftur um borð.

Hófst svo siglingin. Fyrst er siglt niður flúðir þar sem bátsverjar þurfa að fylgja skipunum „stjóra“ síns og þá gefst ekki mikið andrúm til að gantast á milli báta en þó tókst einstaka sinnum að senda smá skvettu á andlit áhafnarmeðlima næsta báts.

Eftir u.þ.b. 20 mín siglingu var tekið land þar sem vatn í heitri uppsprettu á bakkanum er nýtt í kakógerð og þar var staldrað í ca. 10 mín.

Áfram var haldið og næsti áningarstaður var svo kletturinn góði þar sem hoppað er í ána, en viti menn, var ekki búið að bolta í klettavegginn skilti þar sem á stóð „ All jumping in the river is forbidden without a permission from the landowners“. Þetta skilti var sem sagt nýkomið upp og varð til þess að enginn hoppaði, sem var miður því þetta átti að vera einn af hápunktum ferðarinnar.

En þetta eyðilagði samt ekki túrinn því er komið var að ármótum austari og vestari Jökulsánna hófst ballið fyrir alvöru. Útbyrðis flugu menn, oftast sjálviljugir, og létu sig fljóta niður ána og þeir sem eftir voru um borð fylgdu þeim eftir og drógu þá innbyrðis þegar viðkomandi var búinn að fá nóg.

Þegar þarna er komið við sögu er vatnsmagnið í ánni margfalt miðað við upphaf ferðar sem gerir það að verkum að það verða meiri rastir þar sem farið er yfir stórt grjót eða áin beygir eða þrengist.

Til að gera langa sögu stutta þá var komið að landi fyrir neðan Villinganes þar sem bátarinir voru dregnir á land og komið fyrir á sleða sem er síðan er dreginn upp snarbrattan bakkann með dráttarvélarspili. Við gengum, hins vegar, upp brattann stíg að rútunni sem flutti okkur aftur að Hafgrímsstöðum.

Það var svo glaður en þreyttur hópur sem skilaði af sér útbúnaðinum og hélt heim á leið eftir ævintýri dagsins.