Starfakynning - Myndbanda- og/eða teiknimyndasögusamkeppni

Miðvikudaginn 15. nóvember kl. 11:00-15:00 verður haldin Starfakynning í húsnæði Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Nemendum FNV og allra grunnskóla á Norðurlandi vestra er boðið að taka þátt henni þeim að kostnaðarlausu. Sérstök áhersla er lögð á að kynna störf í iðn-, verk-, raun- og tæknigreinum. Fyrirækjum og stofnunum á svæðinu er boðið að taka þátt og nú þegar hafa um 30 fyrirtæki tilkynnt þátttöku þar sem kynnt verða mjög fjölbreytt störf úr ólíkum greinum. Má hér nefna störf í heilbrigðisgreinum, byggingagreinum, matvælagreinum, snyrtigreinum og mörgum fleiri.

Markmið Starfakynningarinnar eru:

  1. Að kynna störf í iðn-, verk-, raun- og tæknigreinum fyrir nemendum á aldrinum 13-19 ára á Norðurlandi vestra með það að leiðarljósi að fleiri nemendur skili sér til náms og starfa í þessum greinum.
  2. Að kynna menntunar- og atvinnumöguleika í þessum greinum.
  3. Að gefa nemendum kost á að hitta og ræða við þá einstaklinga sem starfa í þessum greinum og afla sér þannig upplýsinga um námið og starfið.
  4. Að gefa fyrirtækjum á Norðurlandi vestra sem starfa innan þessara greina tækifæri til að kynna sín störf og mikilvægi þeirra.

Nemendum gefst kostur á að taka þátt í myndbanda- og/eða teiknimyndasögukeppni sem fer þannig fram að á meðan á Starfakynningunni stendur taka nemendur myndir/myndbönd og útbúa í kjölfarið efni sem þeir geta sent inn í keppnina. Verðlaun verða veitt fyrir 3 bestu myndböndin/teiknimyndasöguna. Taka skal fram að teiknimyndasagan má vera teiknuð eða tölvugerð. Fyrirkomulag keppninnar verður kynnt nánar fyrir nemendum.