ÍÞRÓ2LH03 - Lífsstíll og heilsa

heilsa, lífsstíll

Einingafjöldi: 3
Þrep: 2
Forkröfur: ÍÞRÓ1UÞ02 , ÍÞRÓ2SL03 og ÍÞRÓ1SS02
Áfanginn er bæði bóklegur ( fræðilegur ) og verklegur. Í áfanganum er fjallað um næringu og mataræði og hvað felst í hollri og góðri næringu með tilliti til íþrótta og daglegrar fæðu. Fjallað verður um skaðleg áhrif tóbaks, áfengis og annarra vímuefna á líkamann. Í áfanganum er lögð áhersla á verklega og fræðilega þætti tengda skipulagi þjálfunar. Nemendur vinna eigin þjálfunaráætlun undir handleiðslu kennara, auk þess sem fjallað er um líkamleg og sálræn áhrif þjálfunar. Komið verður inn á helstu líffræðilegar forsendur þjálfunar, svo sem starfsemi vöðva, liða, tauga og blóðrásar. Fjallað er um gildi reglulegrar og skipulagðrar líkamsþjálfunar og nemendum gerð grein fyrir ábyrgð á eigin líkama. Nemendur fá fræðslu um gildi þess að lifa heilbrigðu lífi og fá að kynnast möguleikum umhverfisins til líkams- og heilsuræktar. Nemendur verða hvattir til að nýta sér tölvu- og upplýsingatækni við skrásetningu upplýsinga og vinnu að eigin áætlanagerð. Þá verður farið nánar í aðalatriði undanfarandi áfanga, þ.e. snerpu og samhæfingu og unnið með þá þætti bæði fræðilega og verklega. Í verklegu tímunum verður fjölbreytnin höfð að leiðarljósi – nemendur glíma við fjölbreytt verkefni sem á einn eða annan hátt tengjast þeim þáttum sem að ofan getur. Í einhverjum verklegum tímum býðst nemendum að vinna eftir eigin áætlunum og/eða velja sér viðfangsefni eftir áhugasviðum.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • flokkun næringarefna í fæðunni
  • mismunandi áhrif næringarefna og mataræðis á líkamann
  • taki þátt í umræðu um skaðleg áhrif áfengis, tóbaks og annarra vímuefna á líkamann
  • möguleikum til heilsuræktar í nánasta umhverfi og úti í náttúrunni

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • meta eigið líkamsástand
  • klæða sig til íþróttaiðkunar eftir aðstæðum, úti sem inni
  • glíma við fjölbreytt verkefni sem snúa að alhliða hreyfingu
  • taka þátt í alhliða líkams- og heilsurækt

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • leysa af hendi verkefni, stunda æfingar og leiki sem viðhalda og bæta grunnþol
  • taka þátt í fjölbreyttri líkams- og heilsurækt jafnt úti sem inni
  • nýta sér upplýsingatækni við alhliða líkams- og heilsurækt og mat á eigin heilsu
  • nýta eigin þekkingu til að framkvæma eigin þjálfáætlun með það að markmiði að auka líkamlegt atgervi sitt
Nánari upplýsingar á námskrá.is