Skólareglur

Með því að greiða innritunargjald hefur nemandinn gert samning við skólann um ástundun náms og góða umgengni í skólanum. Hann hefur jafnframt samþykkt ýmsar reglur sem honum ber að virða. Þær helstu eru að:

 1. hvorki reykja né nota annað tóbak í húsakynnum skólans eða á lóðum hans. Bann þetta nær einnig til svokallaðra rafsígaretta. Sömu reglur gilda á heimavist skólans.
 2. ganga hreinlega um innan- og utandyra og setja rusl einungis í þar til gerð sorpílát. Sömu reglur gilda um heimavist skólans.
 3. neyta ekki áfengis eða annarra vímuefna né að hafa þau um hönd, né heldur að vera undir áhrifum þeirra í húsum eða á lóðum skólans, eða á samkomum í nafni skólans og/eða nemendafélagsins. Sama gildir um heimavist skólans.
 4. neyta ekki matar eða drykkjar í kennslustundum. Sama gildir um sælgætisneyslu.
 5. tala ekki í síma eða taka við símtölum í kennslustundum. Sama á við um smáskilaboð.
 6. hafa kynnt sér reglur um eftirlits- / öryggismyndavélar í húsnæði skólans og réttindi sín í því sambandi.

Séu þessar reglur ekki virtar getur það varðað brottrekstur úr skólanum eða eftir atvikum synjun um skólavist og / eða heimavist.

Skólasóknarreglur

 1. Nemendur skulu sækja allar kennslustundir samkvæmt stundatöflu sinni og koma stundvíslega til kennslu.
 2. Ef nemandi er fjarverandi úr kennslustund eða mætir eftir að fjórðungur kennslustundar er liðinn merkir kennari F í skólasóknarbókhald INNU. Komi nemandi of seint, þ.e. eftir að kennari hefur lokið við skráningu skólasóknar merkir kennari S. Sambærilegar reglur gilda yfirgefi nemandi kennslustund áður en henni er lokið. Tvö S jafngilda einu F.
 3. Ef annað er ekki tekið sérstaklega fram í kennsluáætlun jafngildir það úrsögn úr áfanga ef fjarvistir í honum verða fleiri en sem svarar kennslu í eina og hálfa viku.
 4. Veikindi og önnur forföll skal tilkynna samdægurs. Nemanda eða forráðamanni ber að tilkynna forföll á milli kl. 07:50 og 09:00 að morgni hvers veikindadags. Forföll eru tilkynnt í Innu eða í síma 455-8000. Sé nemandi yngri en 18 ára skulu forföll staðfest af forráðamanni. Skólameistari getur krafist þess að veikindi séu staðfest af lækni. Ef nemandi er fjarverandi vegna veikinda meira en viku í áfanga á önn ber honum að framvísa veikindavottorði.
 5. Ef nemandi gerir grein fyrir öllum veikindaforföllum í samræmi við 4. grein hér að ofan þá fer skólasóknareinkunn viðkomandi ekki niður fyrir 7, sé ekki um aðrar óútskýrðar fjarvistir að ræða (veikindi eru dregin frá upp að 93%).
 6. Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á brautskráningarskírteini. Skólasóknaeinkunn ræðst af skólasókn samkvæmt meðfylgjandi töflu. Nemandi í fullu námi (30 einingar eða meira) sem nær 9 eða 10 í skólasóknareinkunn fær 1 einingu sem er færð inn á námsferil hans í lok annar. Nemandi getur fengið að hámarki 6 einingar fyrir skólasókn.

Tafla yfir skólasóknareinkunn:

Frá 98% upp í 100% gefur einkunnina 10.
Frá 96% upp að 97% gefur einkunnina 9.
Frá 94% upp að 95% gefur einkunnina 8.
Frá 92% upp að 93% gefur einkunnina 7.
Frá 90% upp að 91% gefur einkunnina 6.
Frá 88% upp að 89% gefur einkunnina 5.
Frá 86% upp að 87% gefur einkunnina 4.
Frá 84% upp að 85% gefur einkunnina 3.
Frá 82% upp að 83% gefur einkunnina 2.
Skólasókn undir 82% gefur einkunnina 1.

Sé skólasóknareinkunn lægri en 5 á nemandi ekki vísa skólavist á næstu önn.

Reglur um niðurfellingu fjarvista af öðrum ástæðum en veikindum

Skólastjórnendur geta heimilað að fjarvistir séu felldar niður að fullu eða nokkru leyti þegar nemendur hafa verið fjarverandi í eftirfarandi tilvikum:

 1. Vegna námsferða á vegum skólans.
 2. Vegna tiltekinna starfa í stjórn nemendafélags FNV að fengnu leyfi skólastjórnenda.
 3. Vegna keppnisferða á vegum skólans.
 4. Vegna vinnu við undirbúning og framkvæmd stórviðburða á vegum nemendafélags FNV að undanfengnu leyfi skólastjórnenda.
 5. Vegna þátttöku í eða undirbúnings fyrir íþróttakeppni á vegum landsliðs eða íþróttafélags. Liggja þarf fyrir staðfesting á slíkri þátttöku frá viðkomandi sérsambandi eða íþróttafélagi.
 6. Vegna ófærðar eða annarra óviðráðanlegra tilvika, enda geti nemandi skýrt og staðfest þá töf sem hann varð fyrir.
 7. Vegna útfarar nákomins ættingja eða vinar.
 8. Vegna veikinda barns sem nemandi á eða hefur á framfæri.
 9. Vegna ferðar til læknis eða tannlæknis staðfest af viðkomandi lækni. Læknisferðir utan Sauðárkróks skulu sérstaklega tilgreindar og þá sá tími sem þær taka.
 10. Vegna ökuprófa.
 11. Þegar rökstudd umsókn um leyfi vegna brýnna erinda liggur fyrir frá nemanda eða forráðamönnum hans.

Reglur um frávik frá skólasóknarreglu

Nemendur geta sótt um frávik frá skólasóknarreglu í byrjun annar. Umsókn þarf að vera rökstudd. Um frávik frá skólasóknarreglu gildir:

 1. Að jafnaði skal við það miðað að nemandi, sem fær frávik frá skólasóknarreglu, sé orðinn 20 ára eða eldri, hafi stundað nám með góðum árangri og tilgreini í umsókn sinni ástæður þess að hann geti ekki haldið áfram námi án þess að sleppa einhverjum kennslustundum.
 2. Nemendur sem hafa fengið samþykkt frávik frá skólasóknarreglu geta þurft að mæta í allar kennslustundir í sumum áföngum, einkum í verklegum og próflausum áföngum sem ekki er hægt að ljúka nema með reglulegri tímasókn.
 3. Skólinn gerir þá kröfu að nemandi með frávik frá skólasóknarreglu geti sótt allverulegan hluta kennslustunda. Nemandinn á ekki rétt á kennslu eða leiðsögn utan kennslustunda umfram aðra nemendur.
 4. Nemendur geta ekki stundað nám í 1. þreps áföngum í kjarnagreinum (dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði) með frávik frá skólasóknarreglu.
 5. Hafi nemandi fallið í einhverjum áföngum á fyrri önn í skóla getur hann ekki fengið frávik frá skólasóknarreglu í fleiri einingum en hann lauk með fullnægjandi árangri á þeirri önn.
 6. Endurnýja þarf umsókn um frávik frá skólasóknarreglu í upphafi hverrar annar. Það gerir nemandi með því að fylla út eyðublað sem fæst á skrifstofu skólans. Umsóknin er afgreidd í samráði við kennara í lok annarrar kennsluviku.
 7. Þess er vænst að nemendur í fullu námi hafi samráð við skólastjórnendur eða námsráðgjafa áður en umsókn þeirra um frávik frá skólasóknarreglu er afgreidd.
 8. Nemandi með frávik frá skólasóknarreglu fær hvorki skólasóknareinkunn né einingar fyrir skólasókn.

Hámarksfjöldi fjarvista í áföngum:

Í áfanga sem kenndur er 1 kennslustund á viku: Tvö skipti fjarverandi eða 2 kennslustundir (4 stig).
Í áfanga sem kenndur er 2 kennslustundir á viku: Tvö skipti fjarverandi eða 4 kennslustundir (8 stig)
Í áfanga sem kenndur er 4 kennslustundir á viku: Þrjú skipti fjarverandi eða 6 kennslustundir (12 stig).
Í áfanga sem kenndur er 5 kennslustundir í viku: Fimm skipti fjarverand eða 10 kennslustundir (20 stig).
Í áfanga sem kenndur er sex kennslustundir á viku: Sex skipti fjarverandi eða 12 kennslustundir (24 stig).

Komi nemandi tvisvar sinnum of seint jafngildir það einni fjarvist eða 2 stigum.

Skólinn minnir nemendur og/eða forráðamenn þeirra á að fylgjast vel með í Innu en þar koma allar skráningar fram á skólasókn nemenda.

Sauðárkróki 10. janúar 2018,

Skólameistari.

Reglur um námsmat

Námsmati er ætlað að meta hvernig nemanda hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið hvers áfanga. Í kennsluáætlunum kemur fram hvernig námsmati er háttað, en það breytilegt eftir eðli áfanga. Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvær slíkar einkunnir á lokaprófsskírteini. Þessir áfangar gefa ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra.

 1. Önninni er skipt í tvo hluta þar sem vægi fyrri hluta getur verið á bilinu 30-60% af áfanganum og skal námsmat fara fram í hvorum hluta um sig.

2. Námsmati í fyrri hluta skal lokið með símati sem getur samanstaðið af verkefnum, tímasókn og tímaprófum sem dreift er yfir fyrri hluta annar. Ekki er gert ráð fyrir prófdögum í lok fyrri hluta annar.

3. Námsmati í seinni hluta skal lokið með símati og/eða lokaprófi sem nær til námsefnis seinni hluta áfangans.

4. Einkunn á miðönn er lokaeinkunn úr skilgreindum hluta námsefnis eins og fram kemur í námsáætlun áfangans. Ekki er hægt að endurtaka þann hluta námsefnis.

5. Einkunn á miðönn er aldrei falleinkunn, nemendur geta haldið áfram í áfanganum þó að þeir nái ekki 4,5 úr námsefni fyrri hluta.

6. Sé vægi prófs 40% eða meira af heildareinkunn í áfanga þarf nemandi að fá prófseinkunn að lágmarki 4,5 til að standast áfangann. Sé prófseinkunn lægri en 4,5 gildir sú einkunn sem lokaeinkunn í áfanganum.

7. Sé vægi prófs minna en 40% af heildareinkunn í áfanga gildir prófseinkunn sem hlutfall af heildareinkunn án skilyrða um lágmarkseinkunn sem getið er í lið 6.

8. Í fyrstu kennslustund eftir að niðurstöður miðannarmats liggja fyrir skal kennari ræða einslega við hvern nemanda um stöðu hans.

9. Í lok annar er lagt fyrir 90 mínútna lokapróf fyrir bæði dagskólanemendur og fjarnemendur, enda sé ekki um próflausan símatsáfanga að ræða.

Aðeins nemendur með greiningu geta fengið lengri próftíma. Þeir þurfa að sækja sérstaklega um lengri próftíma hjá námsráðgjafa.

10. Þessar reglur skal kennari kynna nemendum sínum í upphafi annar og reglur um námsmat sem gilda um áfangann.

11. Skipulag þetta gildir frá upphafi vorannar 2012.

Sauðárkróki 22.12.2011,

Skólameistari.

Reglur um próf og próftöku

Almennar prófreglur

1.Nemendur skulu mæta tímanlega til prófs. Á göngum Bóknámshúss er tilkynnt á töflum hvar próf fara fram.

2.Próftími er 90 mínútur.

3.Nemendur mega ekki yfirgefa prófstofu fyrr en 45 mínútur eru liðnar af próftímanum.

4.Geti nemandi ekki mætt til prófs vegna veikinda, skal hann tilkynna það áður en próf hefst og skila læknisvottorði eins fljótt og mögulegt er.

5.Nemendum er óheimilt að hafa töskur með sér í próf, sama gildir um síma, lófatölvur og önnur slík tæki, líka þó slökkt sé á þeim. Yfirsetumenn munu skoða í pennaveski og fletta leyfilegum hjálpargögnum.

6. Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi eða verkefni sem gildir til lokaeinkunnar, varðar það ógildingu prófs eða verkefnis.

Frávik frá prófreglum

Fatlaðir og langveikir nemendur, nemendur með lestrar- og skriftarörðugleika og/eða aðra staðfesta skynjunarörðugleika geta sótt um frávik frá hefðbundnu námsmati. Um er m.a. að ræða sérstaka samsetningu prófa, lengri próftíma, sérhönnuð próf, notkun hjálpargagna, aðstoð í prófum, munnleg próf o.fl.. Nemandi skal sækja um slík frávik til námsráðgjafa sem kemur umsókninni áfram til prófstjóra.

Reglur um gjaldtöku vegna prófa nemenda utan FNV

 1. Nemendur greiða ekki fyrir próftöku í áföngum sem eru á vegum skóla innan Fjarmenntaskólans.
 2. Nemendur sem taka próf á sama tíma og próf eru haldin í FNV greiða ekki fyrir próftöku.
 3. Nemendur sem ekki uppfylla skilyrði í greinum nr. 1 og 2 greiða kr. 2.000 fyrir hvert próf. Prófgjald skal greitt áður en próftaka hefst.

Um birtingu einkunna

Óheimilt er að birta einkunnir einstakra nemenda undir nafni, kennitölu eða öðru skráningarauðkenni sem hægt er að persónugreina nema fyrir liggi skrifleg heimild viðkomandi nemenda.

Varðveisla prófúrlausna

Skólar skulu varðveita allar prófúrlausnir í eitt ár. Að þeim tíma liðnum ber skólameistari ábyrgð á að eyða öllum skriflegum prófúrlausnum. Próftaki getur fengið að sjá prófúrlausn sína ef hann leggur fram beiðni um það innan árs frá því að niðurstöður prófs voru birtar. Einnig getur hann fengið ljósrit af prófúrlausn sinni ef hann óskar þess gegn greiðslu gjalds skv. gjaldskrá skólans. Þeir sem þess óska geta fengið afhent eintök af prófverkefnum skólans eftir að próf í viðkomandi grein hefur verið þreytt.

Próftafla

Prófatímabil haustannar er í desember og á vorönn í maí. Fjórum vikum fyrir annarlok er gefin út próftafla og hún birt á heimasíðu skólans.

Verklagsreglur í kennslustundum

1. Kennari er verkstjóri í kennslustundum og stjórnar því sem þar fer fram.

2. Það er réttur kennara og nemenda að vinnufriður ríki í kennslustundum.

3. Kennara er heimilt að aðskilja nemendur sem trufla kennslu.

4. Notkun raftækja í kennslustundum er óheimil nema í tengslum við úrvinnslu verkefna í samráði við kennara.

5. Kennara er heimilt að vísa nemanda, sem truflar kennslu eða óhlýðnast kennara, úr kennslustund. Hann skal tilkynna stjórnendum um brottvísunina að lokinni kennslustund. Nemanda skal vísað á fund skólastjórnenda svo fljótt sem auðið er.

6. Kennara er heimilt að neita nemanda, sem vísað hefur verið úr kennslustund, um að sækja tíma í viðkomandi áfanga þar til hann hefur gert hreint fyrir sínum dyrum gagnvart stjórnendum og viðkomandi kennara.

7. Heimilt er að víkja nemanda úr skóla sem truflar ítrekað vinnufrið í kennslustundum.

Reglur um umgengni í tölvustofum

1. Allir nemendur FNV hafa aðgang að tölvustofum og bókasafni til æfinga- og verkefnavinnu.

2. Tölvuver og bókasafn eru vinnustaðir. Stranglega er bannað að afrita forrit/leiki inn á tölvur skólans, breyta uppsetningu skjámynda og aðgangi að tækjum og forritum.

3. Öll neysla fastrar og fljótandi fæðu er stranglega bönnuð í tölvustofu og á bókasafni.

4. Nemendur skulu virða tímatöflu og víkja úr stofu í lok kennslustundar svo ræstingafólk komist að.

5. Ganga skal vel um stofu og bókasafn, búnað og bækur og skilja ekki eftir rusl.

Reglur um notkun á skólaneti FNV

Með notendanafni og lykilorði hafa allir nemendur aðgang að skólaneti FNV. Tölvubúnaður skólans er eign hans og ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annarra þátta sem samrýmast markmiðum skólans.

1. Nemendur, sem eru að vinna verkefni vegna náms, hafa forgang að tölvum skólans.

2. Virða ber friðhelgi notenda.

3. Handhafi notendanafns er ábyrgur fyrir notkun þess.

4. Skólinn áskilur sér fullan rétt til að meðhöndla gögn með notendanúmerum, fara yfir, skoða og eyða efni á gagnasvæðum.

5. Fylli nemandi heimasvæðið sitt getur kerfisstjóri eytt gögnum án fyrirvara.

6. Gögnum á heimasvæði nemanda er eytt í lok hvers skólaárs.

7. Innbrot eða tilraun til innbrots í tölvukerfi verður kært til lögreglu.

Óheimilt er að:

8. lána öðrum netfang og lykilorð,

9. nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra,

10. sækja, senda, geyma eða nota á neti skólans forrit sem hægt er að nota til innbrota eða annarra skemmdarverka,

11. breyta vinnuumhverfi á tölvum skólans,

12. breyta, afrita eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn í eigu skólans,

13. setja inn á eigið svæði og almenn gagnasvæði, hugbúnað án samþykkis kerfisstjóra.

Brot á þessum reglum geta leitt til lokunar á aðgangi að tölvukerfi skólans eða fyrirvaralausrar brottvísunar úr skóla sé um alvarlegt brot að ræða.

Reglur um samkomuhald á vegum skólans

1. Samkomur í nafni skólans og / eða nemendafélags skólans eru haldnar á ábyrgð og undir umsjón skólameistara og eru ýmist aðeins ætlaðar fyrir nemendur, kennara og gesti eða almenning. Skólameistari tilnefnir umsjónarmann yfir samkomunni og skal umsjónarmaður vera á samkomunni þar til henni lýkur.

2. Aðgöngumiðar á skólaböll eru eingöngu seldir skráðum nemendum skólans, en leyfilegt er að bjóða einum gesti. Sala aðgöngumiða fer einungis fram í FNV.

3. Öll varsla og meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er óheimil.

4. Samkomugestum, sem eru undir áhrifum áfengis, skal vísað af samkomunni eftir að nafn viðkomandi hefur verið skráð.

5. Leiki grunur á meðferð fíkniefna skal það tilkynnt til lögreglu án tafar.

6. Áfengi, sem tekið er af samkomugestum, skal afhent eftirlitsmönnum og nafn handhafa þess skráð. Áfengið skal afhent skólastjórnendum sem kalla viðkomandi handhafa áfengisins á sinn fund næsta virka dag.

7. Á samkomum á vegum FNV skulu vera a.m.k. tveir eftirlitsmenn þar af annar úr hópi starfsmanna skólans sem skólameistari tilnefnir. Þeim er ætlað að fylgjast með framkvæmd samkomuhaldsins og skila skýrslu til skólameistara þar að lútandi. Í skýrslu eftirlitsmanna til skólameistara skal eftirfarandi tilgreint eftir því sem við verður komið:

a. Fjöldi samkomugesta.
b. Framkvæmd dyravörslu.
c. Nöfn þeirra sem brjóta reglur.
d. Nöfn annarra sem dyraverðir hafa afskipti af.
e. Stutt lýsing á samkomuhaldinu.

Þegar dansleikir eru haldnir skal nemendum sem yfirgefa samkomustaðinn ekki hleypt inn aftur, nema með sérstöku leyfi dyravarða eða eftirlitsmanna.

8. Gestir á samkomum FNV eru á ábyrgð gestgjafa.

9. Gerist nemandi brotlegur við þessar reglur getur það varðað brottrekstur úr skóla.

Sauðárkróki 3. desember 2015,

Skólameistari

Reglur um ferðalög nemenda á vegum skólans

1. Fararstjórn fyrir sérhverja ferð sem nemendur fara í nafni skólans skal skipuð tveimur nemendum og einum til tveimur kennurum eftir fjölda ferðalanga. Fararstjórn ákvarðar hvenær hætt skal við ferð vegna agabrota og tímasetur farartíma. Rísi ágreiningur skal leitast við að jafna hann.

2. Fararstjórn skal halda fund með öllum þeim sem í skólaferðalag fara og kynna þær reglur sem hún setur og þau skilyrði sem allir verða að uppfylla í ferðinni. Allir nemendur verða þess utan að uppfylla þær reglur sem gestgjafar skólans kunna að setja og skal fararstjórn leita eftir upplýsingum um þær áður en ferð er farin.

3. Nemendur skulu hafa næði til svefns á þeim tíma sem fararstjórn ákveður.

4. Nemendur skulu skipa sérstaka siðanefnd úr sínum hópi og skulu nemendur hlíta fyrirmælum hennar í öllu sem varðar framkomu og fyrirkomulag ferðar. Siðanefnd skal vera fararstjórn til aðstoðar og vera milligönguaðili milli fararstjórnar og aðila sem brotlegir kunna að vera.

5. Við móttöku á nemendum frá öðrum skólum skulu þessar reglur gilda eins og þær geta við átt.

6. Reglur þessar gilda frá og með 8. desember 2015.

Reglur um ferðalög brautskráningarnema

1. Brautskráningarnemar teljast þeir nemendur sem ljúka námi á skilgreindri námsbraut við skólann og hafa náð 18 ára aldri.

2. Þeir nemendur eru gjaldgengir í brautskráningarferð sem brautskrást innan sex mánaða frá fyrirhugaðri ferð. (Brautskráning um jól- Brautskráning að vori / ferð að vori- Brautskráning um jól).

3. Brautskráningarnemar skipa stjórn úr sínum hópi. Hún skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera.

4. Nemendur geta bæst í hópinn eftir að fjáröflun er hafin, en ekki eftir að gengið hefur verið frá pöntun á ferð.

5. Mökum er heimil þátttaka gegn því að þeir greiði ferðina fullu verði.

6. Nemandi fær hluta af fjáröflun í hlutfalli við þátttöku í einstökum viðburðum.

7. Allir fjármunir sem aflað er í nafni brautskráningarnema teljast eign hópsins. Ekki er hægt að gera kröfu í hluta þeirra fjármuna þó hætt sé við þátttöku.

8. Listi yfir þátttakendur skal berast skólameistara innan þriggja vikna frá fyrsta fundi hópsins.

9. Bera skal alla fjáröflun undir skólameistara fyrirfram.

10. Halda skal bókhald um fjáröflun í nafni hópsins. Skólameistari hefur fullan aðgang að bókhaldinu hvenær sem er.

Reglur um rafræna vöktun í húsnæði og á lóðum FNV

Ábyrgðaraðili – Tilgangur – Staðsetning

Vegna öryggis- og eignavörslu starfrækir Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra rafræna vöktun með myndavélum og upptökubúnaði á eftirtöldum stöðum:
a. Utanhúss við aðalinngang Bóknámshúss
b. Í anddyri aðalinngangs Bóknámshúss
c. Utandyra við austurinngang Bóknámshúss
d. Utandyra við vesturinngang Hátæknimenntaseturs
e. Utandyra við austurinngang Hátæknimenntaseturs
f. Utandyra í sundinu á milli nýbyggingar og eldra húss Hátæknimenntaseturs

Óheimilt er að nota upplýsingar sem safnað er með rafrænni vöktun í verkstjórnarskyni, til að fylgjast með mætingum eða vinnuskilum starfsfólks. Vöktun með leynd í húsnæði eða á lóðum FNV er með öllu óheimil.

Tækjabúnaður - Vinnsla – Afhending - Eyðing upplýsinga

Stafrænn búnaður er notaður við rafræna vöktun á FNV. Myndavélar tengjast um tölvunet FNV. Upptökur fara eingöngu fram þegar hreyfing er á hinu vaktaða svæði. Umsjónarmaður fasteigna og skólameistari hafa umsjón með vinnslu og eyðingu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.

Tengill ehf, stýrir aðgangi að eftirlitsmyndavélum með sama hætti og að tölvukerfum FNV. Upplýsingar sem verða til með rafrænni vöktun skal ekki varðveita lengur en málefnaleg ástæða er til og aldrei lengur en í 30 daga.

Skólameistari eða staðgengill hans tekur ákvörðun um afhendingu gagna sem aflað er með rafrænni vöktun samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu ef um slys eða meintan refsiverðan verknað er að ræða. Að öðru leyti er efni sem verður til við rafræna vöktun ekki unnið frekar eða afhent öðrum nema samkvæmt dómsúrskurði. Halda skal skrá um afhent efni úr eftirlitskerfinu.

Heimavistarreglur

1. Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er heimili nemenda og skulu þeir njóta þar heimilisfriðar. Markmið þessara heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og vera til leiðsagnar ef heimilisfriðnum er stefnt í hættu.

2. Skólameistari fer með yfirstjórn heimavistar og vistarstjóri í umboði hans. Vistarbúum ber að fara að fyrirmælum þeirra í öllu sem varðar umgengni á heimavist og virða heimavistarreglur í hvívetna. Allir vistarbúar eru skyldugir til að sækja vistarfundi sem skólameistari, vistarstjóri eða heimavistarráð boða. Heimavistarstjórn skal halda gerðabók um störf sín.

3. Skólameistari og vistarstjóri eiga aðgang að herbergjum vistarbúa hvenær sem er til eftirlits. Þeir skulu gæta tillitssemi og nærgætni. Öryggis- / eftirlitsmyndavélar eru staðsettar á eftirtöldum stöðum: Ein vél er við aðalinngang heimvistarinnar, ein í anddyri og ein myndvél utanhúss við aðalinngang. Þá eru myndavélar á göngum heimavistar. Tilgangur vöktunarinnar er að tryggja öryggi og næði íbúa vistarinnar og gesta þeirra. Ekki er um hljóðupptökur að ræða.

Íbúar heimavistar eiga rétt á að fá vitneskju um:

a.         hvaða upplýsingar um þá er eða hefur verið unnið með,
b.         tilgang öryggis-/eftirlitsmyndavéla,
c.         hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um þá,
d.         hvaðan upplýsingarnar koma,
e.         hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar - (Sbr. lög nr. 77/ 2000),
f.          að vöktun fer fram allan sólarhringinn á starfstíma skólans,
g.         að upptökur af vöktun eru geymdar í 30 daga áður en þeim er eytt.

Viðeigandi merkingar um eftirlits-/öryggismyndavélar eru á útihurðum og í aðalanddyri heimavistar.

Íbúar á heimavist skulu kynna sér reglur um öryggis- /eftirlitsmyndavélar.

4. Heimavistarstjórn skipa: Skólameistari, vistarstjóri og sex trúnaðarmenn nemenda kosnir af nemendum í septembermánuði ár hvert og forstöðumaður mötuneytis þegar málefni mötuneytis eru á dagskrá. Heimavistarráð er skipað sömu aðilum öðrum en skólameistara. Við kosningu trúnaðarmanna í heimavistarstjórn skal þess gætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Starfstími fulltrúa nemenda hefst þegar að kosningu lokinni og lýkur við lok skólaárs. Hafi nemandi fengið áminningu vegna brota á reglum heimavistar telst hann ekki kjörgengur til trúnaðarstarfa á heimavist. Heimavistarstjórn kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á önn.

5. Hver vistarbúi skal annast ræstingu á herbergi sínu, sturtuklefa og salerni. Herbergi skulu þrifin minnst einu sinni í viku. Vistarstjóri fylgist vikulega með að þessar reglur sú vitar. Séu íbúar ekki við á skoðunartíma hefur vistarstjóri heimild til að skoða herbergið án þeirra nærveru. Vistarstjóri getur ákveðið nánar um frekari ræstingu á heimavistarhúsnæðinu á kostnað nemanda ef ræsting er ekki talin viðunandi að hans mati. Vistarbúum er óheimilt að ganga um heimavistina á útiskóm.

6. Nemendum er skylt að halda umhverfi vistarinnar hreinu. Vistarstjóri getur gert nemendum að hreinsa lóðina eftir þörfum eða laga til innan vistar.

7. Hver nemandi er ábyrgur fyrir að herbergi það, sem hann gistir, sé í sama horfi í annarlok og í annarbyrjun. Nemendur eru bótaskyldir fyrir skemmdum, sem þeir kunna að valda og skulu þeir greiða tryggingargjald að upphæð kr. 10.000-, sem þeir fá endurgreitt í annarlok, ef engar skemmdir eru eða vanþrif, sbr. 5 grein.

8. Skemmdir á húsum eða munum heimavistar skal tilkynna vistarstjóra. Verði nemandi uppvís að þjófnaði á eigum eða munum vistarbúa eða starfsmanna skólans, ber að vísa honum af vist.

9. Nemendur eru ábyrgir fyrir öllum eigum sínum. Nemendur skulu læsa dyrum að herbergjum sínum fari þeir frá. Skólinn tryggir hvorki skófatnað nemenda né annan fatnað.

10. Vistarbúar skulu ávallt gæta þess að valda ekki öðrum ónæði, s.s. með ærslum eða hávaða frá hljómflutningstækjum, útvarpi, sjónvarpi, tölvu né á nokkurn annan hátt. Eftir kl. 22:00 á að vera næði til heimanáms. Frá miðnætti til klukkan 07:00 skal vera alger næturró, heimsóknir nemenda innan vistar eru óheimilar á þessum tíma án sérstaks leyfis vistarstjóra og gilda sömu ákvæði og um næturgesti.

11. Ætli ósjálfráða nemandi að vera fjarverandi um nætursakir þarf forráðamaður að gefa leyfi fyrir því. Sjálfráða vistarbúar skulu tilkynna vistarstjóra eða næturverði með fyrirvara ætli þeir sér að vera fjarverandi um nætursakir.

12. Gestir á heimavist skulu fara eftir þessum heimavistarreglum og er hver vistarbúi ábyrgur fyrir sínum gesti. Ber honum að upplýsa viðkomandi um tilvist öryggis-/eftirlitsmyndavéla á heimavistinni og reglur sem um þær gilda sbr. 3. grein. Engar heimsóknir eru leyfðar eftir kl. 24:00 og þá skulu aðrir gestir en næturgestir hafa yfirgefið heimavistina. Sæki íbúi um leyfi til að hafa næturgest getur vistarstjóri heimilað það. Um slíkt leyfi skal sækja til vistarvarðar fyrir kl. 22:00 sama dag. Leyfi herbergisfélaga verður að liggja fyrir áður en slíkt er heimilað og forráðamanna ef nemandi er ekki sjálfráða. Íbúar á Sauðárkróki fá ekki leyfi til gistingar á heimavist. Skólameistari getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði.

13. Nemandi á heimavist getur fyrirgert rétti sínum til dvalar á heimavist með slakri skólasókn eða vanrækslu í námi. Vistarstjóri fylgist með viðveru nemenda og gerir ráðstafanir ef ástæða er til.

14. Reykingar eru bannaðar í heimavistarhúsnæði og á lóð heimavistarinnar samkvæmt landslögum. Sama gildir um aðra tóbaksnotkun og rafsígarettur.

15. Neysla og geymsla áfengis eða umbúða þess er bönnuð í húsakynnum heimavistar og á lóð hennar. Sama gildir um önnur vímuefni. Þá er nemanda óheimilt að dvelja á heimvistinni undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

16. Vistun gæludýra á heimavist er bönnuð. Þó getur heimavistarstjórn veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

17. Brot á sérhverri grein þessara reglna varðar áminningu eða brottrekstur.

18. Íbúar á heimavist bera sjálfir kostnað af nettengingu á herbergjum sínum. Óskum um nettengingu skal komið til umsjónarmanns fasteigna í upphafi annar.

19. Vistarbúar skulu hafa reglur heimavistar uppi við á herbergjum sínum. Brjóti ósjálfráða nemandi þessar reglur ber skólanum að gera forráðamanni viðvart um eðli brotsins og viðurlög. Reglur þessar gilda frá og með útgáfudegi.

Sauðárkróki 17. ágúst 2016,

Ingileif Oddsdóttir, skólameistari.

Reglur þvottahúss heimavistar

1. Þvottahús er starfrækt við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

2. Vistarstjóri fer með stjórn þvottahússins og sér um allan þvott sem berst þangað. Heimavistarstjórn er heimilt að setja sérreglur um þvottahúsið ef svo ber undir.

3. Nemendum er úthlutað ákveðnum þvottadögum 4 daga vikunnar og raðast þeir niður á herbergin.

4. Merkja skal allan þvott vel með þvottanúmeri sem hver nemandi fær þegar hann kemur með þvott sinn í þvottahús.

5. Engin ábyrgð er tekin á ómerktum eða illa merktum þvotti.

6. Allir sokkar og öll nærföt skulu vera í þvottaskjóðum. Æskilegt er að ljós og dökkur þvottur sé ekki settur saman.

7. Allur óskilaþvottur er gefinn til Rauða kross Íslands í lok skólaárs.

8. Ef þvottur skemmist eða augljóslega týnist í þvottahúsi, meta stjórnendur skólans hverju sinni hvort hann skuli bættur og þá með hvaða hætti.

9. Íbúar þurfa að afhenda þvott kvöldið fyrir þvottadag eða fyrir kl. 09:00 á þvottadag. 

10. Nánari tilkynningar frá vistarstjóra eru hengdar upp á vistinni.

Sauðárkróki 19. maí 2014,

Ingileif Oddsdóttir, skólameistari

Reglur um nám grunnskólanema við FNV

1. Grunnskólanemar sem náð hafa einkunninni B, B+ eða A eða jafngildi þeirra í einstökum kjarnagreinum þ.e. dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði geta skráð sig til fjarnáms við FNV í viðkomandi námsgrein eða námsgreinum á meðan þeir eru enn nemendur í grunnskóla. Árangur nemandans skal staðfestur af skólastjórnanda viðkomandi grunnskóla og samþykki foreldra þarf að liggja fyrir. Hafi nemandinn stundað nám í öðrum námsgreinum í grunnskóla og uppfyllir ákvæði um lágmarksárangur er honum heimilt að stunda nám í viðkomandi námsgrein, sé hún kennd við FNV.

2. Undantekning frá þessu er nám í upplýsingatækni og iðnkynningu fyrir grunnskólanema. Í þeim greinum er ekki gerð krafa um undanfara.

3. Þeir nemendur sem uppfylla ofangreind skilyrði eiga rétt á að hefja nám á öðru þrepi. Kjósi þeir, hins vegar, að stunda nám á 1. þrepi þá er það heimilt.

4. Þessi valkostur er hugsaður fyrir duglega nemendur sem vilja nýta sér sveigjanleika áfangakerfisins og flýta námi sínu í framhaldsskóla. Einingarnar, sem nemandinn öðlast með þessum hætti, verða metnar í námferil nemandans við FNV og öðlast hann þannig rétt til þess að innrita sig í framhaldsáfanga í viðkomandi grein eða greinum þegar hann hefur nám í FNV.

Sauðárkróki 24.11.2015

Reglur um nemendur í dreifnámi við FNV

 1. Nemendur, sem stunda nám í fjórum áföngum eða fleiri í dreifnámi, greiða fyrir það gjald að upphæð kr. 30.000 á önn. Þessum nemendum er jafnframt skylt að sækja námslotur á Sauðárkróki skv. skóladagatali FNV.
 2. Dreifnámsgjaldið er greitt fyrir þjónustu sem nemandinn fær af hendi FNV og nær m.a. til þjónustu umsjónarmanns, gistingar á heimavist og fæðiskostnaðar í námslotum.
 3. Nemendum í dreifnámi er heimilt að óska eftir dvöl á heimavist skólans á öðrum tímum en í námslotum.
 4. Ef nemendur fá að koma á öðrum tímum og dvelja á heimavistinni greiða þeir fyrir fæði eins og aðrir nemendur á vistinni.
 5. Óski nemandi eftir því að koma á öðrum tímum en í námslotum þarf ósk þess efnis að berast frá umsjónarmanni dreifnáms til heimavistarstjóra.
 6. Óski nemandi eftir því að gista á heimavistinni á öðrum tímum en í námslotum skal hann greiða húsaleigu kr. 2.000 fyrir sólarhringinn. Nemandi sem er yngri en 18 ára þarf að hafa leyfi forráðamanns eða foreldris ef hann vill gista á heimavistinni yfir helgi.
 7. Nemendur sem gista á heimavistinni þurfa að leggja til allan rúmfatnað.
 8. Nemendur sjá sjálfir um þrif og frágang á herbergjum og salernum.
 9. Nemendur skulu hafa skilað af sér herbergi sínu í síðasta lagi kl. 16:00 á lokadegi námslotu.

Reglur um fjarnám við FNV

 1. Innritun fyrir fjarnám fer aðeins fram rafrænt. Sjá leiðbeiningar á www.fnv.is.
 2. Fjarnemi skal hafa aðgang að tölvu, því námið fer að mestu fram með tölvusamskiptum við kennara og gegnum samskiptaumhverfið Moodle.
 3. Við upphaf náms gerir viðkomandi kennari, nemanda grein fyrir tilhögun námsins og verkefnaskilum.
 4. Námstími í fjarnámi er sá sami og hjá nemendum dagskóla, nema hvað það hefst viku síðar.
 5. Námsmat er ýmist í formi símats eða blöndu af símati og prófi sem fram fer innan almenns prófatíma skólans. Skráning í áfanga er jafnframt skráning í próf sé því til að dreifa. Fjarnemandi tekur sömu próf og aðrir nemendur, nema annað sé tekið fram.
 6. Nemendur geta óskað eftir að taka próf í heimabyggð sinni, oftast þeim grunnskóla, framhaldsskóla eða fjarnámsstöð sem næst er. Próf eru þá send á prófstaði og lausnir sendar til baka til kennara, sem fara yfir þær og gefa einkunnir. Fjarnemandi þarf að tilkynna viðurkenndan prófstað til fjarnámsstjóra a.m.k. 2 vikum áður en próf hefjast.
 7. Nemandi ber sjálfur ábyrgð á að ganga frá staðfestingu á fjarnámi og skila til kennara áfangans eða ritara skólans í síðasta lagi tveimur vikum eftir að skólastarf hefst.
 8. Nemandi yngri en 18 ára þarf samþykki forráðamanns fyrir fjarnámi í FNV.