Ásdís Ósk Elvarsdóttir
Ásdís Ósk Elvarsdóttir

Snemma á þessu ári var tilkynnt um val í landsliðshóp U-21 í hestaíþróttum. Gaman er að segja frá því að þrír af nemendum skólans voru valdir í liðið. Þessir nemedur eru þær systur Ásdís Ósk Elvarsdóttir og Viktoría Eik Elvarsdóttir sem brautskráðust af hestabraut skólans vorið 2018 og Guðmar Freyr Magnússon sem brautskráðist af hestabraut vorið 2019.

Sá landsliðshópur sem er virkur ár hvert verður í forvali þegar valdir eru keppendur fyrir Íslands hönd á heimsmeistara- og Norðurlandamótinu. Erum við afar stolt af þessum nemendum okkar.

Hér má sjá umfjöllun um Ásdísi Ósk Elvarsdóttur í Feyki:

Ásdís Ósk Elvarsdóttir, frá Syðra-Skörðugili, er að stíga sín fyrstu spor í Landsliði Ísland í hestaíþróttum en hún á mikilli velgengni að fagna á keppnisvöllum hérlendis frá blautu barnsbeini.

Ásdís Ósk er 21 árs gömul, keppir í flokki ungmenna og á HM sat hún Koltinnu frá Varmalæk. Koltinna er í helmingseigu ræktandans Björns Sveinssonar frá Varmalæk og Ásdísar Óskar og hafa þær náð afbragðs góðum árangri saman í keppnum hérlendis og nú í Berlín.

Urðu þær stöllur í öðru sæti í tölti í flokki ungmenna og í þriðja til fimmta sæti í fjórgangi ungmenna, Ásdís Ósk og Koltinna urðu einnig í öðru sæti í samanlögðum árangri í fjórgangsgreinum.

„Það er ólýsanleg tilfinning, algjörlega geggjað,“ sagði Ásdís Ósk spurð um þá tilfinning að standa á palli á HM íslenska hestsins. „Stefnan var alltaf sett á pallinn og innst inni vissi ég alveg að ég ætti möguleika á því ef allt myndi ganga upp,“ segir Ásdís en Koltinnu hefur hún þjálfað í þrjú ár. „Hún er alveg einstök, með geðslag upp á tíu, alltaf tilbúin að leggja sig alla fram í öll verkefni, gangtegundir frábærar og auðvelt að gera þær enn betri því hún er alltaf eins og hugur manns.“

Heimild: Feykir