Nýir lögfræðiáfangar í boði í fjarnámi

Auglýsing fyrir lögfræðiáfanga
Auglýsing fyrir lögfræðiáfanga

Hefur þú áhuga á lögfræði? Viltu undirbúa þig fyrir frekara nám á háskólastigi? Á haustönn 2021 verða í boði tveir nýir lögfræðiáfangar í fjarnámi.

Í áfanganum LÖGF2LÖ05 - Inngangur að lögfræði verður lögfræði sem fræðigrein kynnt. Nemendur munu þjálfast í að lesa lög og greina réttarstöðu aðila og réttaráhrif laga. Markmið áfangans er að veita nemendum góða innsýn í aðferðafræði lögfræðinnar og er ætlað að hafa hagnýtt gildi til að veita nemendum þá grundvallarfærni og þekkingu sem þörf er á til þess að geta lesið og túlkað lög. Áfanginn hentar vel þeim nemendum sem stefna á áframhaldandi nám í lögfræði og nýtist sem val á 2. þrepi.

Í áfanganum LÖGF3LM05 - Lýðræði og mannréttindi verða mannréttindi sem birtast m.a. í stjórnarskrá Íslands skoðuð m.t.t. umræðu í nútímanum um mannréttindi og meint brot á þeim gagnvart ýmsum hópum og einstaklingum á Íslandi. Áhersla er á að tengja námsefnið reynsluheimi nemanda, auka víðsýni hans og rökhugsun og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Undanfari LÖGF3LM05 er að hafa lokið 2. þreps áfanga í félagsfræði eða félagsvísindum. Áfanginn nýtist sem val á 3. þrepi.