Frá skólafundi í febrúar 2020
Frá skólafundi í febrúar 2020

Á vorönn 2021 var haldinn skólafundur meðal nemenda FNV. Beðið var um álit þeirra á þrem málefnum. Nemendum var skipt í hópa og innan þeirra ræddu þeir eftirfarandi atriði:

  • Hvað getum við sem nemendur FNV gert til að kynna FNV út á við?
  • Hvað getum við tekið jákvætt út úr námi í Covid?
  • Hvað má betur fara í FNV?

Góð þátttaka var á fundinum og margt áhugavert kom fram.

Mikil gróska er í hugmyndum nemenda um kynningarmál. Það sést vel að þeirra kynslóð telur samfélagsmiðla vera sterkustu auglýsinga leiðina. Mikill meirihluti mælti með því að skólinn yrði virkari í auglýsingum á helstu samfélagsmiðlum. Það kom sterkt fram mikilvægi þess að nemendur sjálfir gæfu jákvæða mynd af skólanum sínum og þau ættu að tala jákvætt og af væntumþykju um hann. Þau telja nauðsynlegt að skólinn sé með talsmenn sem fara inn í grunnskólana og kynni það starf sem fer fram í FNV, bæði nám og félagslíf.

Ljóst er að nemendur gera sér grein fyrir því að samfélagið er orðið fjölþjóðlegt, nefna þau mikilvægi þess að tekið tillit til þessa við kynningar.

Fram kom að gera ætti hátt undir höfði sérstöðu skólans varðandi námsframboð og fjölbreytileika, t.d. hestabrautin, kvikmyndabrautin og akademíurnar.

Þegar þau fengu að láta ljós sitt skína varðandi það hvað þau gætu tekið jákvætt úr úr námi í covid sást að þau voru mjög meðvituð um að þau stunduðu nám á fordæmalausum tímum við fordæmalausar aðstæður. Margt áhugavert sést þegar skoðað er það sem snýr að þeim sjálfum og þeirra upplifunum. Þar má nefna að sumir töldu að námið hefði verið léttara, stress og álag minna, friðurinn til að stunda námið hafi verið meiri, meira frelsi í kennslustundum og mörg þeirra töldu að einkunnir hefðu verið hærri á Covid önnum, þar sem heimapróf voru lögð fyrir. Samt sem áður kemur fram að þeim þótti gott að koma í skólann aftur þar sem auðveldara var að stunda námið með persónulega nærveru kennara. Einnig kom fram að félagslegi þátturinn skiptir gríðarlega miklu máli í lífi framhaldsskólanemans.

Nemendurnir greindu sjálfir frá því að við þessar aðstæður þjálfuðust þeir m.a í sjálfsaga. Þar nefna þau að mætingar þeirra hefðu verið betri í Teams kennslustundum samhliða því að þau töldu sig hafa meira svigrúm utan námsins til þess að stunda vinnu með skóla.

Þar sem mikilvægt er að fylgjast með vilja nemenda um starf skólans voru þau beðin um að benda á það sem betur mætti fara í FNV. Miðað við svör þeirra voru það aðallega þrír meginþættir sem stóðu upp úr, þ.e. aðbúnaður og hollustuhættir, nám og námsþátttaka og félagslíf.

Varðandi aðbúnað og hollustuhætti komu þau mikið inn á fæði og aðgengi að fæði, sjá til dæmis fyrir sér að fá morgunmat í skólanum og lengra hádegishlé. Hvað aðbúnað varðar tala nemendur um vöntun á plássi í verknámshúsi, bætingu í aðgengi fyrir fatlaða sérstaklega í verknámi og bættan húsbúnað í skólastofum. Nemendur hafa fundið fyrir því á Covid tímum að sjoppa skólans hefur verið lokuð og sakna þau hennar mikið, komið hefur þá í ljós að þau telja hina ýmsu sjálfsala þarfa í byggingum skólans. Einnig óska þau eftir dömubindum og túrtöppum inn á salerni skólans.

Varðandi nám og námsþátttöku óska þau eftir að upphafi skóladagsins yrði seinkað á morgnana og þau kjósa að geta haft stundatöfluna sína eins þétta og kostur er. Þau kalla eftir meiri heimanámsaðstoð og aukinni hópavinnu og blöndun milli nemendahópsins. Einnig kjósa þau að hafa aðgang að kennslustundum í auknum mæli á Teams eins og var í Covid kennslu.

Því til viðbótar komu fram athugasemdir um að það vanti nýjar vélar fyrir vélstjórn og að hver og einn nemandi í verknámi fái sitt eigið verkfærasett. Nemendur óskuðu einnig eftir því að skoðað yrði að þeir sem stunduðu íþróttir utan skóla gætu fengið þá iðkun metna í stað hefðbundinna íþróttatíma.

Varðandi félagslífið telja þau það sem fyrir sé gott en óska samt eftir meiri klúbba starfsemi og að á hefðbundnum kennsludögum sé meira uppbrot með t.d. leikjum á göngum skólans í frímínútum/pásum og ör-uppákomum.