Jólagleði í íslenskutíma
Jólagleði í íslenskutíma

Í áfanganum ÍSLE3BF05 í FNV eru sálmar hluti af námsefni lærdómsaldar og þar á meðal er sálmurinn „Kvæðið af stallinum Kristí“ eða „Nóttin var sú ágæt ein“ eftir Einar Sigurðsson í Eydölum. Kvæðið birtist fyrst í Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar 1612 en síðar í Sálmabókinni 1945 en þá hafði Sigvaldi Kaldalóns samið lag við sálminn 1940. Þar sem komið var að lokum annar og mikill jólahugur kominn í nemendur fengu þeir í hendur verkefni í annarlok sem varð jólaverkefni, samvinnuverkefni í anda CLIM. Ein megin hugsun í því samvinnunámi er að: „Enginn getur allt en allir geta eitthvað“. Þennan anda greip hópurinn og lagðist á eitt við að undirbúa Jólaverkefni sem kynnt var í síðustu kennslustund annar. Hópurinn var leiddur áfram undir styrkri stjórn Írisar Helgu Aradóttur og Dagnýjar Gunnarsdóttur. Stofnuð var FB síða þar sem nemendur deildu hugmyndum sem síðar var kosið um og út frá því skipt í hópa. Afraksturinn var svo kynntur með metnaðarfullri dagskrá í síðustu kennslustund. Þar var meðal annars: skreyting á stofu, söngur hefðbundinna jólalaga Sálmabókar, myndaband með jólabakstri nemenda og viðtöl við nemendur skólans um jólahald og jólahefðir þeirra, Kahoot spurningakeppni um efni lokaprófs, frumsamin jólaþula eins nemanda, þakkir til kennara í bundnu máli og síðast en ekki síst jólasmákökur (bakaðar af nemendum), jólate, tónlist og spjall. Því miður var tíminn til að njóta veitinga og spjalls skammur þar sem dagskráin var efnismikil. Þarna fengu nemendur upp í hendurnar viðburðastjórnun og stóðu þeir sig með prýði. Þessi skemmtilega jólaþula er eftir einn nemanda hópsins, Sigrúnu Sigurjónsdóttur.

Jólaþula

Ketkrókur
Bjúgnakrækir
Sauðárkrókur
Hver er nú það?
Er hann jólasveinn?
Klókur, hreinn og beinn
og hrókur alls fagnaðar.

 

Jólakötturinn
á höttunum
eftir börnunum
Átt þú jólaflík?
sem engri er lík?
Annars jólakötturinn
Í knattleik fer á eftir krökkunum.

 

Já, jólakisi
enginn aukvisi
þeysist um Nafirnar
eftir þeim sem ekki fá gjafirnar
læsir klónum í (Sauð)kræklinga og matar krókinn.