1. Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og þar með viðveru og virkni í kennslustundum. Þeir eiga að fylgjast með stöðu sinni í Innu og skulu þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn..
  2. Kennari merkir við í upphafi kennslustundar. Komi nemandi eftir að nafnakalli er lokið telst hann koma of seint. Nemandi telst fjarverandi úr kennslustund ef hann kemur eftir að 10 mínútur eru liðnar af kennslustundinni. Sé nemandi fjarverandi í 40 mínútna kennslustund hlýtur hann 1 fjarvistarstig. Komi nemandi of seint í kennslustund hlýtur hann ½ fjarvistarstig og fari nemandi úr kennslustund án leyfis áður en henni lýkur hlýtur hann 1 fjarvistarstig. Kennara er heimilt að gefa nemanda fjarvist í kennslustund ef nemandi er óvirkur í kennslustundinni og tekur ekki tilsögn frá kennara.
  3. Reglulega er yfirlit yfir skólasókn sent í tölvupósti til nemenda og forráðamanna þeirra sem eru yngri en 18 ára. Yfirlitið gildir sem áminning til nemenda ef viðvera í einstökum áföngum uppfyllir ekki lágmarkskröfu um skólasókn samkvæmt skráningu í Innu.
  4. Svigrúm vegna fjarvista miðast við 80% mætingu á önninni eða sem samsvarar þremur vikum í hverjum fimm eininga áfanga. Ef nemandi er fjarverandi meira en 20% í áfanga jafngildir það úrsögn úr áfanganum. Innan þessa svigrúms falla veikindi, læknisheimsóknir og aðrar tilfallandi fjarvistir.
  5. Veikindi eða önnur forföll ber að tilkynna samdægurs í gegnum Innu eða á skrifstofu skólans í síma 455 8000. Forráðamenn þurfa að tilkynna veikindi nemenda undir sjálfræðisaldri og gera það í gegnum sína Innu.
  6. Einkunn er gefin fyrir skólasókn út frá raunmætingu og birtist hún í námsferli nemenda og á brautskráningarskírteini. Skólasóknareinkunn ræðst af skólasókn samkvæmt meðfylgjandi töflu. Nemandi í fullu námi (30 einingar eða meira) sem nær 8 eða 10 í skólasóknareinkunn fær 1 einingu sem er færð inn á námsferil hans í lok annar. Nemandi getur fengið að hámarki 6 einingar fyrir skólasókn.
    Tafla yfir skólasóknareinkunn:
    • Frá 96% upp í 100% gefur einkunnina 10.
    • Frá 92% upp að 96% gefur einkunnina 8.
    • Frá 88% upp að 92% gefur einkunnina 6.
    • Frá 84% upp að 88% gefur einkunnina 4.
    • Frá 80% upp að 84% gefur einkunnina 2.
    • Skólasókn undir 80% gefur einkunnina 0.

Reglur um niðurfellingu fjarvista 

Skólastjórnendur geta heimilað að fjarvistir séu felldar niður að fullu eða nokkru leyti þegar nemendur hafa verið fjarverandi í eftirfarandi tilvikum:

  1. Vegna námsferða á vegum skólans.
  2. Vegna tiltekinna starfa í stjórn nemendafélags FNV að fengnu leyfi skólastjórnenda.
  3. Vegna keppnisferða á vegum skólans.
  4. Vegna vinnu við undirbúning og framkvæmd stórviðburða á vegum nemendafélags FNV að undanfengnu leyfi skólastjórnenda.
  5. Vegna þátttöku í eða undirbúnings fyrir íþróttakeppni á vegum landsliðs eða íþróttafélags. Liggja þarf fyrir staðfesting á slíkri þátttöku frá viðkomandi sérsambandi eða íþróttafélagi.
  6. Þegar appelsínugul viðvörun er í gildi er nemendum í sjálfsvald sett hvort þeir mæta í skólann eða kjósa að vera heima.

Reglur um frávik frá skólasóknarreglu

Nemendur geta sótt um frávik frá skólasóknarreglu í byrjun annar. Umsókn þarf að vera rökstudd. Um frávik frá skólasóknarreglu gildir:

  1. Að jafnaði skal við það miðað að nemandi, sem fær frávik frá skólasóknarreglu, sé orðinn 20 ára eða eldri, hafi stundað nám með góðum árangri og tilgreini í umsókn sinni ástæður þess að hann geti ekki haldið áfram námi án þess að sleppa einhverjum kennslustundum.
  2. Nemendur sem hafa fengið samþykkt frávik frá skólasóknarreglu geta þurft að mæta í allar kennslustundir í sumum áföngum, einkum í verklegum og próflausum áföngum sem ekki er hægt að ljúka nema með reglulegri tímasókn.
  3. Skólinn gerir þá kröfu að nemandi með frávik frá skólasóknarreglu geti sótt allverulegan hluta kennslustunda. Nemandinn á ekki rétt á kennslu eða leiðsögn utan kennslustunda umfram aðra nemendur.
  4. Nemendur geta ekki stundað nám í 1. þreps áföngum í kjarnagreinum (dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði) með frávik frá skólasóknarreglu.
  5. Hafi nemandi fallið í einhverjum áföngum á fyrri önn í skóla getur hann ekki fengið frávik frá skólasóknarreglu í fleiri einingum en hann lauk með fullnægjandi árangri á þeirri önn.
  6. Endurnýja þarf umsókn um frávik frá skólasóknarreglu í upphafi hverrar annar. Það gerir nemandi með því að fylla út eyðublað sem fæst á skrifstofu skólans. Umsóknin er afgreidd í samráði við kennara í lok annarrar kennsluviku.
  7. Þess er vænst að nemendur í fullu námi hafi samráð við skólastjórnendur eða námsráðgjafa áður en umsókn þeirra um frávik frá skólasóknarreglu er afgreidd.
  8. Nemandi með frávik frá skólasóknarreglu fær hvorki skólasóknareinkunn né einingar fyrir skólasókn.

Meðferð og úrlausn mála, viðurlög

Umsjónarmaður skólasóknar sendir yfirlit um ástundun til nemanda í tölvupósti reglulega. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá afrit af tölvupóstum. Yfirlitið gildir sem áminning til nemenda ef viðvera í einstökum áföngum uppfyllir ekki lágmarkskröfu um skólasókn samkvæmt skráningu í Innu.

Nemandi er skráður úr áfanga ef fjarvistir fara yfir hámark leyfilegra fjarvista. Nemandi fær senda tilkynningu þess efnis í tölvupósti þar sem fram kemur að hann hafi þrjá virka daga til að andmæla úrsögninni. Andmælum skal skilað skriflega til aðstoðarskólameistara.

Nýti nemandi sér andmælarétt skal hann mæta í alla tíma á meðan á andmælaferlinu stendur. Ef fullnægjandi skýringar liggja fyrir getur nemandinn fengið heimild til áframhaldandi setu í áfanganum með ströngum skilyrðum um mætingar til loka annar. Skólastjórnendur í samráði við kennara og stoðteymi taka endanlega ákvörðun um brottvikningu úr áfanga að teknu tilliti til aðstæðna og ástundar í áfanganum. Nemandi (og forráðamenn ef við á) fá niðurstöðu senda í tölvupósti.

Undanþága frá þessum reglum er yfirleitt ekki veitt og þá einungis af skólameistara eða aðstoðarskólameistara.

Skólinn minnir nemendur og/eða forráðamenn þeirra á að fylgjast vel með í Innu en þar koma allar skráningar fram á skólasókn nemenda.

Sjá nánar í reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum.

Sauðárkróki, 5. janúar 2026
Selma Barðdal Reynisdóttir, skólameistari