Aðbúnaður, stuðningur og þjónusta við nemendur

Námsráðgjöf

Námsráðgjafi starfar við skólann og er með skrifstofu í bóknámshúsi. Nemendur geta pantað viðtal hjá námsráðgjafa með því að hafa samband við skrifstofu eða beint við námsráðgjafa. Námsráðgjafi stendur vörð um velferð nemenda, styður þá og liðsinnir þeim í málum er varða nám þeirra og skólavist, framhaldsnám og starfsval. Námsráðgjafi er talsmaður nemenda gagnvart skólayfirvöldum. Námsráðgjafi heldur skrá um nemendur með sérþarfir og kemur ábendingum til kennara og stjórnenda þar að lútandi. Námsráðgjafi vísar málum áfram til sérfræðinga þegar ástæða er til.

Þjónusta sem nemendum stendur til boða hjá námsráðgjafa er eftirfarandi:

  • Leiðsögn í einkamálum er snerta skólavist þeirra og ráðgjöf um náms- og starfsval.
  • Leiðsögn í þeim í málum er varða nám þeirra og skólavist, framhaldsnám og starfsval.
  • Ráðgjöf vegna persónulegra vandamála s.s.
    • depurðar
    • samskiptavanda
    • námsleiða
    • prófkvíða
    • áfalla eða veikinda
    • breytinga á högum
    • lítils sjálfstrausts
    • til hvaða aðila nemendur geta leitað utan skólans.
  • Einstaklings- og hópráðgjöf sem miðar að því að aðstoða einstaklinga við að standast kröfur skólans og ná settu marki í námi.
  • Upplýsingagjöf um nám- og námsmöguleika, námsleiðir og störf.
  • Áhugasviðspróf.
  • Ráðgjöf um vinnubrögð í námi s.s.
    • námstækni
    • glósugerð
    • tímastjórnun/skipulagning
    • lestrartækni
    • undirbúning fyrir próf
    • heimanám.
  • Aðstoð í málefnum fatlaðra nemenda innan skólans í samvinnu við sérkennara.
  • Milliganga um aðstoð sérfræðinga fyrir nemendur með leshömlun og aðrar sérþarfir.
  • Aðstoð við nemendur með námsörðugleika sem vilja nýta sér:
    • hljóðbækur
    • sérúrræði á prófatíma
    • aðstoð við skipulagningu.

Innritun nýnema

Nemendur innrita sig í gegnum heimasíðu Menntagáttar (http://www.menntagatt.is) en er velkomið að koma til náms- og starfsráðgjafa og fá aðstoð við umsóknina. Náms- og starfsráðgjafi getur boðað nemendur ásamt forráðamönnum í móttökuviðtal.

Móttökuviðtal

Náms- og starfsráðgjafi býður móttökuviðtöl fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Möguleiki er á því að hafa túlk viðstaddan ef þess er talið þörf. Á þessum fundum er gerð grein fyrir helstu starfsháttum skólans, þjónustu, samstarfi og skólareglum. Einnig er gerð grein fyrir þeim stuðningi sem nemendum stendur til boða, bæði í formi náms- og starfsráðgjafar auk annars stuðnings og kynnt er sú starfsemi sem skólinn býður upp á utan lögbundinnar kennslu eins og það félags- og tómstundastarf sem nemendafélag skólans stendur fyrir. Þá er aflað upplýsinga um aðstæður nemanda til að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum hans. Þegar nemandinn kemur úr íslenskum grunnskóla óskar náms- og starfsráðgjafi samþykkis forráðamanna fyrir upplýsingaöflun þaðan. Áhersla er lögð á að allir sæki almenna áfanga til að styrkja tengsl milli allra þjóðernishópa.

Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í 3. gr. reglugerðar nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku er kveðið á um að framhaldsskólar skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Í greininni er kveðið á um að:

  1. unnið sé í nánu samstarfi við þann grunnskóla hér á landi sem nemandi kemur frá, sé um slíkt að ræða,
  2. skóli safni upplýsingum um bakgrunn nemenda og aðstæður foreldra, til að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum þeirra sem best,
  3. gerð sé einstaklingsnámskrá sem taki mið af bakgrunni og málasvæði nemenda, tungumálafærni, kunnáttu og hæfni á öðrum námssviðum,
  4. skipulagt sé samráð milli starfsfólks og sérfræðinga innan skólans um málefni nemenda,
  5. nemendum sé tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf skólans,
  6. styrkt séu félagsleg tengsl og gagnkvæm félagsleg aðlögun milli erlendra nemenda og íslenskra til að rjúfa félagslega einangrun, sé hún til staðar,
  7. í upplýsingagjöf til nemenda og foreldra sé gerð grein fyrir helstu starfsháttum skóla, þjónustu, samstarfi og reglum,
  8. tryggt sé að upplýsingar um annan stuðning séu fyrir hendi, s.s. um heimanám og aðra aðstoð, túlkaþjónustu, samstarf við heimilin, foreldraviðtöl og -fundi, þjónustu í nærsamfélagi og samstarf við stofnanir utan skóla,
  9. tryggð sé upplýsingagjöf til nemenda og foreldra um starfsemi skólans utan lögbundinnar kennslu, s.s. um félags- og tómstundastarf og íþrótta- og æskulýðsstarf.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra kemur til móts við ofangreind ákvæði reglugerðar með eftirfarandi hætti, þar sem náms- og starfsráðgjafi skólans gegnir lykilhlutverki:

Gerð einstaklingsnámskrár fyrir nemendur

Þeir áfangar sem nemandi er skráður í eru valdir í samráði við hann. Til að lágmarka hættu á félagslegri einangrun er nemendum af erlendum uppruna blandað inn í almenna áfanga. Þeim er einnig boðið upp á að fá íslenskan „skólafélaga“ til að styrkja félagsleg tengsl og gagnkvæma félagslega aðlögun milli erlendra nemenda og íslenskra.

Skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans

Samstarf er á milli kennara sem kenna nemendum með annað móðurmál en íslensku. Náms- og starfsráðgjafi miðlar upplýsingum til viðkomandi kennara.

Mat úr öðrum skólum og raunfærnimat

Áfangastjóri metur nám úr öðrum skólum til eininga eftir frumgögnum viðkomandi skóla og er það fellt að námskerfi FNV eftir því sem kostur er. Nám úr öðrum skólum er metið þannig að einkunn helst óbreytt eða er námunduð að næstu heilu tölu. Matshæft telst nám að loknu grunnskólaprófi sem hefur skilgreind markmið og lýkur með námsmati og fullnægjandi árangri. Þar er um að ræða allt viðurkennt nám á framhaldsskólastigi, nám sem veitir starfsréttindi, viðurkennd námskeið og hliðstætt nám erlendis. Metnir áfangar færast inn á námsferil nemandans og koma fram á einkunnablaði í lok hverrar annar.

Raunfærnimat staðfestir og metur raunverulega færni í skilgreindum verkum eða námsefni án tillits til þess hvernig eða hvar færninni var náð. Raunfærnimatið er unnið af fagaðilum í samvinnu við kennara skólans. Nemendur sem hafa farið í raunfærnimat og vilja ljúka iðnnámi í FNV gefst kostur á viðtali við náms- og starfsráðgjafa áður en nám hefst.

Umsjón með nemendum

Umsjónarkennarar hafa umsjón með skólasókn og námsástundun nýnema. Yfirumsjónarkennari hefur umsjón með skólasókn og ástundun annarra nemenda. Umsjónarkennarar eru með auglýsta viðtalstíma fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Hægt er að mæta í viðtal eða panta viðtal í síma 455 8000.

Heilsuvernd

Samningur er í gildi á milli FNV og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands um heilbrigðisþjónustu fyrir nemendur skólans. Nemendur FNV hafa aðgang að allri almennri þjónustu sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands veitir. Þeir nemendur sem vilja nýta sér þessa þjónustu geta haft samband við námsráðgjafa eða beint samband við heilsugæsluna.

Skrifstofa

Skrifstofa skólans veitir allar upplýsingar um skólann. Þar er hægt að fá kynningarrit, upplýsingar um nám, umsóknareyðublöð og fleira sem tengist starfsemi skólans. Á skrifstofu skólans fá nemendur vottorð til staðfestingar á skólavist sinni, auk þess sem skrifstofufólk sinnir margvíslegum störfum í daglegum rekstri skólans.

Heimavist

Við skólann er starfrækt heimavist sem staðsett er skammt frá bóknámshúsinu og þar er einnig mötuneyti skólans. Herbergin eru flest tveggja manna með salerni og sturtu, en nemendur geta kosið hvort þeir vilja búa einir í herbergi eða deila því með öðrum.

Þráðlaust skólanet er til staðar í anddyri skólans, en nemendur sjá sjálfir um að kaupa tölvuaðgang að herbergjum sínum.

Á heimavist eru 75 herbergi. Þau hafa öll verið endurnýjuð á undanförnum árum.

Nýnemar sækja um heimavist í gegnum Menntagátt (http://www.menntagatt.is/) um leið og þeir sækja um skólavist.

Eldri nemendur sækja um heimavist með því að skila inn umsóknarblaði til heimavistarstjóra fyrir hverja önn.

Heimavistarstjóri annast daglegt eftirlit með nemendum á heimavist og sér til þess að reglum heimavistar sé framfylgt.

Mötuneyti

Mötuneyti er á heimavist og er það rekið af Grettistaki ehf. Mötuneytið er opið alla virka daga á starfstíma skólans. Mötuneytisgjöld eru innheimt af skólanum.

Mötuneytið býður upp á hollan mat í samræmi við viðmið Lýðheilsustöðvar.

Bókasafn

Bókasafn FNV er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur, kennara og starfsfólk skólans . Allir nemendur eiga rétt á að njóta faglegrar bókasafns- og upplýsingaþjónustu á bókasafni skólans endurgjaldslaust og hafa jafnan aðgang að upplýsingum án tillits til félagslegrar stöðu og uppruna.

Bókasafnið styður nám, kennslu, félagslíf og þróunarstarf í skólanum. Safnið er búið bókum, tímaritum, myndefni og öðrum safnkosti sem tengist skólastarfi. Jafnframt er aðgangur að rafrænum gögnum innan skólans og á netinu, t.d. að vefbókum Snöru, www.snara.is og Landsaðgangi bókasafna að rafrænu efni, www.hvar.is. Boðið er upp á efni sem hvetur nemendur til stöðugrar þekkingarleitar í leik og starfi og bókmenntalesturs. Með því móti er stuðlað að heilbrigðu líferni og þroska.

Starfsmaður bókasafnsins veitir nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum virka upplýsingaþjónustu og stuðlar þannig að upplýsingalæsi og samþættingu sjálfstæðrar þekkingarleitar og kennslugreina.

Á bókasafninu er upplýsingum safnað saman, þær skipulagðar, metnar og notaðar. Opnunartími bókasafns er rúmur og vinnuaðstaðan góð bæði fyrir einstaklinga og hópa. Þar geta nemendur búið sig undir kennslustundir, unnið að verkefnum og ritgerðum eða nýtt upplýsingakost safnsins á annan hátt. Aðgangur er að 22 nettengdum tölvum á bókasafninu og prentari er til afnota fyrir nemendur í næsta rými.

 

Þráðlaust net, tölvuver og tölvukostur

Í skólanum er þráðlaust net sem bæði kennarar og nemendur hafa aðgang að. Nemendur nota sama notandanafn og aðgangsorð að netinu og þeir nota að INNU. Í bóknámshúsi er eitt tölvuver á fyrstu hæð og í verknámshúsi eru önnur tvö. Einnig eru tölvur á bókasafni. Nemendum er ekki skylt að eiga fartölvur.

Námsstjórnarkerfið Moodle

Í skólanum er notað námsstjórnarkerfið Moodle sem finna má á www.fnv.is. Þar má finna gögn sem kennarar telja nauðsynleg nemendum, m.a. verkefni, glósur og gagnvirk próf. Námsstjórnarkerfið er notað í sívaxandi mæli í öllu skólastarfi bæði af kennurum og nemendum.

Heimasíða skólans

Heimasíða skólans er mikilvægur upplýsingamiðill fyrir alla þá sem starfa og nema í FNV sem og fyrir aðra sem þurfa á upplýsingum um skólann að halda. Á heimasíðunni, sem er á slóðinni www.fnv.is, má meðal annars finna skólanámskrá með skólareglum og upplýsingar frá stjórnendum og fréttir af skólastarfinu. Heimasíðan er undir stjórn sérstaks umsjónarmanns og uppfærð reglulega.

INNA

Inna er miðlægur gagnagrunnur fyrir framhaldsskóla. Þar er nemendabókhald og aðgangur fyrir nemendur og forráðamenn þeirra að öllum upplýsingum sem lúta að námi og námsframvindu nemendanna. Inna er á slóðinni www.inna.is
Forráðamenn og nemendur geta fengið aðgang með því að smella á „gleymt lykilorð“ og fá þá sent lykilorð á það netfang sem skráð er á nemanda í Innu. Þessu lykilorði má svo breyta. Notandanafn og lykilorð Innu eru einnig notuð við innskráningu í tölvur skólans og inn á námstjórnarkerfið Moodle.

Upplýsingaskjárinn

Upplýsingaskjáir eru staðsettir á þremur stöðum í byggingum skólans, þ.e. í anddyri bóknámshúss, í anddyri heimavistar og á aðalgangi Hátæknimenntaseturs auk þess sem efni hans birtist á heimasíðu skólans. Á skjánum birtast upplýsingar frá stjórnendum og skrifstofu.