Nemendur geta sótt um mat á námi til áfangastjóra. Nám sem metið er annars staðar frá er auðkennt með stjörnu (*). Rökstuðningur og gögn þurfa að fylgja umsóknum um mat á námi.
Mat á námi er gjaldfrjálst fyrir nemendur í FNV. Nemendur utan FNV geta sótt um ráðgjöf við námsferilsáætlun m.t.t. fyrra náms, verð fyrir þá þjónustu er 10.000 kr., nánari upplýsingar fást á skrifstofu skólans.
A) Mat á námi úr öðrum framhaldsskólum
Ef nemandi hefur lokið áföngum í framhaldsskólum á Íslandi sem starfa skv. aðalnámskrá framhaldsskóla, er unnt að fá þá áfanga metna sem áfanga í FNV eða til eininga í FNV. Hvernig áfangarnir eru metnir ræðst af því í hvaða grein þeir eru, á hvaða þrepi og hver fjöldi eininga er. Suma áfanga er unnt að meta í stað áfanga sem kenndir eru í FNV en aðra er aðeins hægt að fá metna til eininga.
I. Áfangi metinn fyrir áfanga af áfangaframboði FNV:
Til að áfangi verði metinn í stað áfanga í FNV verður áfanginn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Áfanginn verður að taka fyrir sama eða sambærilegt efni og tekið er fyrir í þeim áfanga sem hann er metinn fyrir.
- Áfanginn verður að vera af sama eða hærra þrepi en áfanginn sem hann er metinn fyrir.
- Áfanginn verður að vera jafnmargar einingar eða fleiri en áfanginn sem hann er metinn fyrir.
- Áfanganum þarf að vera lokið með lágmarkseinkunn 5.
Ef þessi skilyrði eru uppfyllt er unnt að meta áfangann í stað áfanga í FNV og getur hann þá gengið inn í námsbrautir FNV með sama hætti og áfanginn í FNV gerir.
II. Áfangi metinn sem ótilgreint val.
Ef áfangi úr öðrum skóla er í grein sem ekki er kennd við FNV er unnt að meta hann sem ótilgreint val. Mat á slíku námi er skoðað í hverju tilfelli fyrir sig og er ekki metið einingu fyrir einingu heldur skoðað heildstætt. Einingum sem metnar eru á þennan hátt er aðeins hægt að ráðstafa í frjálst val.
B) Mat á námi úr erlendum skólum
Nemendur sem hafa lagt stund á nám í öðrum löndum vegna búsetu erlendis eða skiptináms geta fengið það að einhverju leyti metið. Miðað er við að námið sé á sambærilegu stigi og nám í FNV (t.d. seinni hluta high school í Bandaríkjunum eða gymnasium í Danmörku) en þó er tekið tillit til þess ef nemendur hafa verið í námi á yngri stigum sem teygir sig upp í framhaldsskólastigið. Það getur t.d. átt við um AP, IB eða Honors nám í Bandaríkjunum.
Ef gögn eru erlendis frá, þarf prófskírteini/námsferill að vera á upprunalegu tungumáli, stimplað af þeim skóla sem veitti það. Þýðing þarf að vera á prófskírteininu á íslensku eða ensku (þýtt af viðurkenndum aðila). Upplýsingar þurfa að vera um innihald og umfang námsins.
C) Mat á móðurmáli og undanþágur
Samkvæmt aðalnámskrá er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls. Áfangastjóri fer yfir hvort nemandi getið fengið móðurmál sitt metið til eininga. Námsráðgjafi aðstoðar nemendur við að finna stöðupróf í móðurmáli ef á þarf að halda.
Nemendur sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri, geta sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál. Nemendur sem fengið hafa undanþágu frá námi í Norðurlandamáli í grunnskóla, geta einnig fengið undanþágu frá Norðurlandamáli í framhaldsskóla. Þeir skulu þó taka aðra grein í staðinn.
D) Stöðumat
Nemendur sem hafa búið erlendis eða hafa verið í skiptinámi geta tekið stöðumat í tungumálum en í öðrum greinum er mikilvægt að nemendur framvísi gögnum sem sýna hvaða námi þeir hafa verið í (kennsluáætlunum, glósum, bókum o.s.frv.) og staðfestingu á að þeir hafi lokið náminu.
Hámarkseiningafjöldi sem nemendur geta fengið metið í stöðumati eru eftirfarandi eftir tungumálum:
- Norðurlandamál: 10 einingar
- Enska: 15 einingar
- Önnur tungumál: 20 einingar.
E) Raunfærnimat
Formlegt raunfærnimat er metið til eininga ef viðkomandi áfangi er hluti af braut FNV. Áfangar sem í raunfærnimats eru metnir inn í iðnnámi eða starfsnámi. Raunfærnimat er leið, fyrir þá sem stefna á sveinspróf, til að meta þá færni og þekkingu sem öðlast má á vinnumarkaði. Matið getur mögulega stytt nám og verið hvatning til að ljúka því. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og 3 ára staðfest starfsreynsla í viðkomandi grein. Að loknu raunfærnimati er hægt að halda áfram námi og ljúka sveinsprófi.
F) Mat á einingum í tónlist
Grunnpróf á hljóðfæri eða í söng er ásamt tónfræði/tónheyrn/tónlistarsögu metið til alls 5 eininga. Miðpróf á hljóðfæri eða í söng er metið allt að 10 einingum. Aðeins er unnt að fá miðpróf metið á eitt hljóðfæri eða söng. Framhaldsnám (að loknu miðprófi) er metið í hljóðfæraleik/söng, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Fullt nám á hljóðfæri í eina önn, að loknu miðprófi, getur verið metið sem 5 einingar í FNV.
G) Mat á landsliðsverkefni í íþróttum. Þjálfaranámskeið.
Landsliðsverkefni:
Nemendur sem hafa keppt/keppa fyrir landslið Íslands (yngri- og eldri flokka landslið) geta sótt um að fá landsliðsverkefni metin til eininga. Hver eining felur í sér 18-24 klst. vinnu. Aðeins er hægt að sækja um mat á verkefnum sem hafa verið unnin á viðkomandi almanaksári. Mögulegt er að fá að hámarki 4 einingar metnar fyrir landsliðsverkefni. Eftirfarandi upplýsingar og gögn þurfa að fylgja umsókn:
- Tilgreina hvert landsliðsverkefnið er og helstu dagsetningar.
- Staðfesting þjálfara og sérsambands á að viðkomandi hafi keppt fyrir hönd Íslands ásamt áætluðum tímafjölda sem verkefnið fól í sér, þ.e. bæði tímafjölda tengdum landsliðsæfingum og keppni.
Umsókn skal skila til deildarstjóra íþrótta sem metur umsóknina og skilar tillögu að mati til áfangastjóra.
Þjálfaranámskeið:
Þjálfarnámskeið ÍSÍ eða sérsambanda þeirra eru metin til eininga. Þjálfarastig 1 er metið sem 5 einingar í íþróttafræði og 2 einingar í íþróttagrein.
H) Skyndihjálp
Nemandi sem hefur lokið a.m.k. 12 klst. námskeiði í skyndihjálp frá viðurkenndum aðila getur fengið það metið í stað skyndihjálparáfanga á námsbraut sinni. Skírteinið þarf að vera í gildi á námstíma og skal því framvísað til áfangastjóra.
Öll frávik frá ofangreindum viðmiðunarreglum verður að sækja um til áfangastjóra.
Uppfært í nóvember 2023.