Hvað er áfall?

Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið áfall m.a. slys, tjón, mótlæti, þungbær reynsla eða sjúkdómur.

Áföll í skólum

Dauðsföll og slys gera ekki boð á undan sér og því er fólk misvel í stakk búið að taka á áföllum og vinna úr þeim. Oft kemur það í hlut kennara/starfsmanna að tilkynna nemendum og samstarfsfólki um slíka hluti og því er gott að hafa einhvern ramma til að styðjast við þegar slíkt ber að höndum.

Til áfalla teljast:

  1. Alvarleg slys (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
  2. Alvarleg veikindi (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
  3. Langvinnir sjúkdómar (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
  4. Andlát (nemanda, aðstandenda þeirra, starfsfólks eða maka starfsfólks).
  5. Náttúruhamfarir.
  6. Alvarlegt slys eða hópslys í samfélaginu.
  7. Bruni í skólahúsnæði.

Taka þarf tillit til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð eru ákveðin. Lítið teymi starfsmanna og utanaðkomandi fagaðila, t.d. sálfræðings eða prests, er skipað þegar vinna þarf mál.

Áfallahjálp í skólum

Það skiptir miklu máli að kennarar/starfsmenn sem veita áfallahjálp séu rólegir og gefi sér nægan tíma.

Mikilvægt er að sá sem verður fyrir áfalli finni að hann er öruggur og geti treyst þeim sem eru hjá honum og að farið sé á afvikinn stað svo að viðkomandi verði ekki fyrir truflun. Sá sem fyrir áfalli verður að finna fyrir hlýju, vinsemd, nærveru og að hann sé hughreystur. Honum er nauðsyn að fá að tjá sig til að koma skipulagi á tilfinningar sínar og hugsun.

Ef slys hefur borið að höndum í skóla hefur það forgang að veita líkamlega skyndihjálp.

Í sálrænni skyndihjálp er ekki gert ráð fyrir að allir sem lifa stórslys eða hamfarir af þrói með sér alvarleg, sálræn vandamál eða eigi í erfiðleikum til langs tíma. Gert er ráð fyrir að fólk sýni margvísleg viðbrögð (líkamleg, sálræn, eða breytta hegðun) fyrst eftir áfallið. Sum þessara viðbragða geta valdið svo miklu uppnámi að það trufli gagnleg varnarviðbrögð og þá getur stuðningur frá hjálparstarfsmanni, sem sýnir samkennd og umhyggju, reynst hjálplegur.

Meginmarkmið sálrænnar skyndihjálpar:

  • Að mynda tengsl með því að sýna samkennd án þess að vera ágeng(ur) eða uppáþrengjandi.
  • Að auka öryggi, bæði á líðandi stundu og til frambúðar, hughreysta og stuðla að líkamlegri og tilfinningalegri öryggiskennd.
  • Að róa og leiðbeina þeim sem eru í miklu tilfinningalegu uppnámi eða örvilnaðir.
  • Að aðstoða fólk við að gera sér grein fyrir þörfum sínum og áhyggjum og afla viðeigandi upplýsinga.
  • Að veita hagnýta aðstoð og upplýsingar.
  • Að koma fólki í samband við félagslegt stuðningsnet einst fljótt og unnt er, þ.m.t. við fjölskyldu, vini, nágranna eða annan samfélagslegan stuðning.
  • Að styrkja og styðja jákvæð bjargráð og leggja áherslu á styrkleika fólks.
  • Að hvetja fullorðna, börn og fjölskyldur til að taka virkan þátt í bata sínum.
  • Að fræða um streitu- og varnarviðbrögð; sem kann að nýtast til að takast á við sálræn áhrif áfalls.
  • Að veita upplýsingar um hve lengi sálræn skyndihjálp stendur til boða, koma fólki í samband við viðeigandi þjónustu og veita upplýsingar um þá þjónustu sem er til staðar, ef þörf er á í framtíðinni.
  • Mat á hugsanlegum áhættuþáttum og þörf fyrir áframhaldandi sálrænan stuðning eða meðferð.

Áfallaráð

Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsmenn skólans. Mikilvægt er að þeir sem veljast í áfallaráð geti unnið undir miklu álagi og séu vel undir það búnir að mæta fólki sem er hrætt, hnuggið eða sorgmætt.

Skipan áfallaráðs í FNV:

  • Skólameistari: Ingileif Oddsdóttir s. 866-3698.
  • Aðstoðarskólameistari: Þorkell V. Þorsteinsson s. 894-7484.
  • Áfangastjóri: Kristján Bjarni Halldórsson s. 691-4999.
  • Námsráðgjafi:
  • Félagsráðgjafi: Aðalbjörg Hallmundsdóttir s. 821-0147.
  • Skólafulltrúi: Margrét Helga Hallsdóttir s. 866-0679.
  • Verkefnisstjóri félagsmála nemenda: Eva Óskarsdóttir s. 846-1292.
  • Heimavistarstjóri: Svanhvít Gróa Guðnadóttir s. 869-6912.

Áfallaráð á einnig að geta leitað til eftirtalinna aðila:

  • Læknir / hjúkrunarfræðingur skólans
  • Prestur
  • Formaður nemendafélags

Verkaskipting:

  1. Skólameistari er formaður ráðsins og kallar áfallaráðið saman þegar þörf krefur. Í fjarveru skólameistara gegnir aðstoðarskólameistari þessu hlutverki. Skólameistari er yfirleitt sá aðili innan skólans sem fyrst er haft samband við vegna válegra tíðinda og hann hefur þá yfirsýn sem til þarf. Hann getur tekið ákvarðanir strax. Hann hefur samband við hlutaðeigandi innan skólans í þeirri röð sem nauðsynlegt er að veita upplýsingar hverju sinni. Hann sér að jafnaði um samskipti við fjölmiðla. Áfallaráð getur falið fulltrúa kennara að sjá um samskipti við fjölmiðla í sérstökum málum.
  2. Náms- og starfsráðgjafi og félagsráðgjafi eru þeir starfsmenn innan skólans sem hafa sérfræðiþekkingu á viðbrögðum fólks við válegum tíðindum. Þeir eru tengiliðir við sálfræðing, prest eða fulltrúa lífsskoðunarfélags. Þeir hafa umsjón með viðbragðs- og áfallahjálparmöppum og öflun fræðsluefnis. Þeirra hlutverk er fyrst og fremst að skipuleggja sálræna skyndihjálp við þann / eða þá sem fyrir áfalli verða. Mikilvægt er að þessi skipulagning sé þannig að sá sem fyrir áfalli verður fái strax þá aðstoð og aðhlynningu sem nauðsynleg er.
  3. Skólafulltrúi er vanur að miðla og taka við upplýsingum. Með vitneskju sinni um eitthvað alvarlegt getur skólafulltrúi t.d. haft samband við námsráðgjafa/félagsráðgjafa sem þegar hefur skipulagt viðbrögð í slíkum málum. Nemandinn er síðan tekinn út úr tíma, honum tilkynnt um atburðinn og hlúð að honum eins og hægt er.
  4. Verkefnisstjóri félagsmála nemenda og heimavistarstjóri eru þeir starfsmenn skólans sem hafa oft betra aðgengi að nemendum en aðrir starfsmenn. Þeir eru námsráðgjafa og félagsráðgjafa innan handar með kortlagningu á vinahópi. Nauðsynlegt er að nánustu vinir fái aðstoð, svo og að aðstandendur þeirra fái vitneskju um atburðinn þannig að nemendur geti fengið stuðning þegar heim er komið.

Hlutverk áfallaráðs Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Hlutverk áfallaráðs FNV er að

  1. skilgreina mögulegar aðstæður/hættur sem geta skapast í FNV.
  2. útbúa og hafa tiltæka áætlun um viðbrögð og kynna starfsmönnum og nemendum skólans áætlunina.
  3. búa til og viðhalda vinnuáætlun svo bregðast megi við ef bráðaveikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir gerast sem kunna að valda áföllum og/eða sorgarviðbrögðum.
  4. meta í hvaða tilfellum eða aðstæðum þurfi að grípa til áfallaáætlunar.
  5. sjá um verkstjórn ef áföll eða slys verða eða ef válegir atburðir gerast.
  6. standa að og skipuleggja fræðslu um áfallahjálp fyrir starfsfólk skólans og tryggja að kennarar eða annað starfsfólk fái stuðning og aðstoð í erfiðum málum sem þeim kunna að standa frammi fyrir.

Fastir fundir áfallaráðs eru í lok ágúst/september ár hvert. Farið er yfir áætlanir, gagnabanka, hugmyndir um fræðslu, farið yfir starfsmannalista og aðstandendur og síðasta skólaár gert upp. Aðrir fundir eru boðaðir þegar tilefni er til en ráðið hittist a.m.k. einu sinni á hvorri önn.

Áfallaráð setur saman viðbragðs- og áfallamöppu FNV og uppfærir hana eftir þörfum. Í möppunni má finna viðbragðs- og áfallaáætlun skólans og ítarefni við hana, t.d. lesefni um viðbrögð við sorg og áföllum í lífi nemenda. Mappan er geymd á eftirfarandi stöðum í húsnæði skólans:

  1. á skrifstofu skólans
  2. á skrifstofu skólameistara
  3. á skrifstofu aðstoðarskólameistara
  4. á skrifstofu náms- og starfráðgjafa
  5. á skrifstofu félagsráðgjafa
  6. á skrifstofu heimavistarstjóra
  7. á skrifstofu áfangastjóra

Auk þess er mappa með fundargerðum áfallaráðs og frekari gögnum geymd á skrifstofu skólameistara.

Viðbrögð skólans við alvarlegu slysi eða dauða nemanda sem er í skólanum eða starfsmanns í starfi.

Fyrstu viðbrögð
  1. Atburðarás fer af stað. Hefjist handa! Erfitt getur reynst að leiðrétta sögusagnir ef ekki er gripið strax inn í atburðarásina.
  2. Fáið staðfestingu á andláti eða slysi hjá aðstandendum, lögreglu eða sjúkrahúsi.
  3. Kallið áfallaráð skólans saman. Fyrsti fundur ætti að vera stuttur, þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar.
    1. Skólameistari tilkynnir starfsmönnum hvað gerst hefur, á fundi eða símleiðis og hvernig skólinn hyggst taka á málum. Ef atburðurinn á sér stað utan hefðbundins skólatíma má tilkynna um áfallið með tölvupósti eftir að aðstandendur hafa gefið leyfi til þess. Bera skal allar aðgerðir skólans undir viðkomandi aðstandendur, forráðamenn eða talsmenn þeirra, til samþykkis og hafa þá með í ráðum frá upphafi.
    2. Skólameistari/námsráðgjafi/félagsráðgjafi tilkynna kennurum andlátið strax í þeim áföngum sem nemandinn tilheyrir.
    3. Hlúð er að nemendum eins og hægt er með aðstoð hjúkrunarfræðings, námsráðgjafa, félagsrágjafa og/eða sálfræðings.
  4. Segið nemendum skólans frá atburðinum. Segja má nemendum skólans frá atburðum í skólastofum, aðeins þarf að gæta að því að þeir fái fregnina samtímis. Gæta skal þess að náin skyldmenni hins látna sem eru við nám eða störf við skólann fái fregnina sérstaklega, ekki yfir hópinn.
    Æskilegt er að leyfa nemendum að ræða um atburðinn og líðan sína.
  5. Sé um dauðsfall að ræða:
    1. Umsjónarmaður fasteigna sér um að flaggað sé í hálfa stöng að tilkynningu lokinni.
    2. Skólafulltrúi skólans sér um að viðkomandi sé strax tekinn út af hópalistum í Innu.
    3. Skólafulltrúi setur fram dúkað borð og kveikir á kerti. Hann lokar heimasvæði viðkomandi í Innu samdægurs.
    4. Sé um sjálfsvíg að ræða skal bera allar aðgerðir skólans undir viðkomandi aðstandendur eða forráðamenn til samþykkis eða talsmenn þeirra, t.d. prest eða sálfræðing, og hafa þá með í ráðum frá upphafi. Í slíkum tilvikum er enn mikilvægara en ella að gæta vel að þessu. Starfsmenn ættu að hafa í huga að leita ráðgjafar um hvernig best sé að styðja við nemendur, foreldra og sjálfa sig þegar slíkt áfall ber að höndum.
  6. Í lok skóladagsins koma starfsmenn skólans saman með áfallaráði. Farið er yfir nöfn þeirra sem tengjast atburðinum s.s. ættingja og vini. Aðgerðir næstu daga ræddar.
Viðbrögð næstu daga
  1. Hlúð að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálfræðing, prest, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s. frv.
  2. Hafi nemandi eða starfsmaður látist, er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá prests. Skólafulltrúi sér um að minningabók liggi frammi. Bókin liggur frammi í þrjá virka daga.
  3. Umsjónarmaður fasteigna sér um að flaggað sé á jarðarfarardag.
  4. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefið gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Bjóðið upp á hópvinnu eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á.
Alvarleg slys í skóla
  1. Sá starfsmaður sem kemur fyrstur að slysi í skóla sendir einhvern nærstaddan strax til skólameistara til að tilkynna slysið. Starfsmaðurinn reynir að halda nemendum frá slysstað og veitir þá aðstoð sem þörf er á. Hann kallar á hjálp. Símanúmer á skrifstofu/stjórnendagangi eru:
    • 455 8000 - Almenn skrifstofa skólans
    • 455 8001 - Skólameistari
    • 455 8002 - Aðstoðarskólameistari
    • 455 8003 - Áfangastjóri
    • 455 8005 - Námsráðgjafi
    • 455 8064 - Félagsráðgjafi
  2. Hringið í 112 fyrr en síðar – þar er hægt að fá leiðbeiningar og góð ráð og hjálp við að meta hvað réttast sé að gera.
  3. Skiptið verkum. Nóg er að 2-3 aðilar veiti skyndihjálp og meti veikindin. Öðrum þarf að beina frá staðnum til að skapa vinnufrið og ró. Gott er að virkja starfsmenn sem koma að í þetta hlutverk. Þeir geta spjallað við nemendur og samstarfsmenn, gefið upplýsingar, fylgst með viðbrögðum o.s.frv.
  4. Skólameistari biður viðkomandi starfsmann að skrá niður vitni að slysinu.
  5. Skólameistari lætur starfsfólk vita og kennarar tilkynna nemendum um slysið. Aðrar aðgerðir sbr. liði nr. 4 - 6 í kaflanum um fyrstu viðbrögð.
  6. Námsráðgjafi / félagsráðgjafi sér um tengsl við aðstandendur og/eða sjúkrahús eftir atvikum eins fljótt og unnt er.
  7. Áfallaráð fundar í kjölfar atviks og ákveður hvernig unnið skuli úr stöðunni.
  8. Áfallaráð kallar til aðra fagaðila eftir þörfum.
  9. Starfsfólki og nemendum er greint frá slysinu eins fljótt og hægt er.
  10. Huga að áfallahjálp ef einhverjir nemendur hafa orðið vitni að slysinu.
  11. Aðilar úr áfallaráði ræða við nemendur sem tengjast málinu.
  12. Skólastjórnendur gæta þess að enginn fari heim úr skólanum með rangar eða misvísandi upplýsingar um neinn þátt málsins. Í því sambandi gæti þurft að senda tölvupóst til nemenda og forráðamanna með helstu upplýsingum eða hringja.
  13. Forráðamenn beðnir um að huga að sínum börnum eftir skóla.
  14. Ef um alvarlegt slys er að ræða er haldinn fundur með kennurum og starfsfólki skóla þar sem farið er yfir staðreyndir málsins.

Sauðárkróki 19. september 2022

Ingileif Oddsdóttir Skólameistari.