Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í 3. gr. reglugerðar nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku er kveðið á um að framhaldsskólar skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Í greininni er kveðið á um að:

  1. unnið sé í nánu samstarfi við þann grunnskóla hér á landi sem nemandi kemur frá, sé um slíkt að ræða,
  2. skóli safni upplýsingum um bakgrunn nemenda og aðstæður foreldra, til að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum þeirra sem best,
  3. gerð sé einstaklingsnámskrá sem taki mið af bakgrunni og málasvæði nemenda, tungumálafærni, kunnáttu og hæfni á öðrum námssviðum,
  4. skipulagt sé samráð milli starfsfólks og sérfræðinga innan skólans um málefni nemenda,
  5. nemendum sé tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf skólans,
  6. styrkt séu félagsleg tengsl og gagnkvæm félagsleg aðlögun milli erlendra nemenda og íslenskra til að rjúfa félagslega einangrun, sé hún til staðar,
  7. í upplýsingagjöf til nemenda og foreldra sé gerð grein fyrir helstu starfsháttum skóla, þjónustu, samstarfi og reglum,
  8. tryggt sé að upplýsingar um annan stuðning séu fyrir hendi, s.s. um heimanám og aðra aðstoð, túlkaþjónustu, samstarf við heimilin, foreldraviðtöl og -fundi, þjónustu í nærsamfélagi og samstarf við stofnanir utan skóla,
  9. tryggð sé upplýsingagjöf til nemenda og foreldra um starfsemi skólans utan lögbundinnar kennslu, s.s. um félags- og tómstundastarf og íþrótta- og æskulýðsstarf.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra kemur til móts við ofangreind ákvæði reglugerðar með eftirfarandi hætti, þar sem náms- og starfsráðgjafi skólans gegnir lykilhlutverki:

Gerð einstaklingsnámskrár fyrir nemendur

Þeir áfangar sem nemandi er skráður í eru valdir í samráði við hann. Til að lágmarka hættu á félagslegri einangrun er nemendum af erlendum uppruna blandað inn í almenna áfanga. Þeim er einnig boðið upp á að fá íslenskan „skólafélaga“ til að styrkja félagsleg tengsl og gagnkvæma félagslega aðlögun milli erlendra nemenda og íslenskra.

Skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans

Samstarf er á milli kennara sem kenna nemendum með annað móðurmál en íslensku. Náms- og starfsráðgjafi miðlar upplýsingum til viðkomandi kennara.