Reglur um rafræna vöktun í húsnæði og á lóðum FNV

Ábyrgðaraðili – Tilgangur – Staðsetning

Vegna öryggis- og eignavörslu starfrækir Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra rafræna vöktun með myndavélum og upptökubúnaði á eftirtöldum stöðum:

  1. Utanhúss við aðalinngang Bóknámshúss
  2. Í anddyri aðalinngangs Bóknámshúss
  3. Utandyra við austurinngang Bóknámshúss
  4. Utandyra við vesturinngang Verknámshúss
  5. Utandyra við austurinngang Verknámshúss
  6. Utandyra í sundinu á milli nýbyggingar og eldri byggingar Verknámshúss

Óheimilt er að nota upplýsingar sem safnað er með rafrænni vöktun í verkstjórnarskyni, til að fylgjast með mætingum eða vinnuskilum starfsfólks. Vöktun með leynd í húsnæði eða á lóðum FNV er með öllu óheimil.

Tækjabúnaður - Vinnsla – Afhending - Eyðing upplýsinga

Stafrænn búnaður er notaður við rafræna vöktun á FNV. Myndavélar tengjast um tölvunet FNV. Upptökur fara eingöngu fram þegar hreyfing er á hinu vaktaða svæði. Umsjónarmaður fasteigna og skólameistari hafa umsjón með vinnslu og eyðingu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.

Tengill ehf, stýrir aðgangi að eftirlitsmyndavélum með sama hætti og að tölvukerfum FNV. Upplýsingar sem verða til með rafrænni vöktun skal ekki varðveita lengur en málefnaleg ástæða er til og aldrei lengur en í 30 daga.

Skólameistari eða staðgengill hans tekur ákvörðun um afhendingu gagna sem aflað er með rafrænni vöktun samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu ef um slys eða meintan refsiverðan verknað er að ræða. Að öðru leyti er efni sem verður til við rafræna vöktun ekki unnið frekar eða afhent öðrum nema samkvæmt dómsúrskurði. Halda skal skrá um afhent efni úr eftirlitskerfinu.

4. janúar 2022,

Ingileif Oddsdóttir, skólameistari.