- Skólinn
- Skólanámskrá
- Skólinn
- Útgefið efni
- Foreldrar og forráðamenn
- Námið
- Þjónusta
- Fjarnám
- Innritun
Brúarnám sjúkraliða er 146 einingar og tekur að jafnaði 4 til 5 annir. Námið var sett á stofn í samvinnu Mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjölbrautaskóla sem mennta sjúkraliða og Sjúkraliðafélags Íslands. Því er ætlað að veita ófaglærðu fólki með langa starfsreynslu í umönnunarstörfum tækifæri til þess að öðlast starfsréttindi sjúkraliða. Námskrá, skipulag og hæfniviðmið eru eins og í hefðbundnu sjúkraliðanámi en brúarnemar sleppa við að taka 60 einingar í almennum greinum brautarinnar. Sá sem lokið hefur sjúkraliðanámi af brú með fullnægjandi árangri getur sótt um starfsleyfi sjúkraliða en þarf að bæta við sig námi í almennum greinum til að geta stundað framhalds‐ eða viðbótarnám.
Skilyrði til innritunar í nám á sjúkraliðabrú eru að umsækjendur hafi náð 23 ára aldri og hafi að lágmarki 5 ára starfsreynslu við umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra, séu starfandi við slíka umönnun og hafi meðmæli frá vinnuveitenda sínum.
Skipulag námsins tekur mið af hæfnikröfum sjúkraliða og þeim kröfum sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur um hæfniþrep áfanga og brauta. Skólum er frjálst að flétta saman bóknámi og vinnustaðanámi að loknum fyrsta áfanga í bóklegri og verklegri hjúkrun samkvæmt skólarnámskrá. Þannig getur vinnustaðanám farið fram á stofnunum samhliða bóknámi eða sem sérstök verkleg önn á námstíma.
Með námsmati er kannað að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér þau markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Námsmat skal vera fjölbreytt. Í upphafi hvers skólaárs skal nemendum kynnt kennsluáætlun og námsmarkmið svo og tilhögun námsmats hvers áfanga. Æskilegt er að í námsmati felist leiðsögn til nemenda um hvernig þeir geti með árangursríkum hætti hagað námi sínu. Hver skóli setur sér reglur um námsmat og birtir í skólanámskrá.
Starfsnám skiptist í vinnustaðanám og starfsþjálfun, hvort tveggja á heilbrigðisstofnun. Skólar gera samkomulag við heilbrigðisstofnanir um vinnustaðanám og starfsþjálfun með hæfniviðmið brautar að leiðarljósi. Æskilegt er að við hvern skóla sé stofnað fagráð í samvinnu við helstu samstarfsaðila skólans í sjúkraliðanámi. Tilgangur fagráðs er að vera samstarfsvettvangur skóla og heilbrigðisstofnana um vinnustaðanám. Vinnustaðanám er skipulagt sem 24 eininga nám á heilbrigðisstofnunum undir leiðsögn sjúkraliða og deildarstjóra viðkomandi deildar eða einingar. Tilgangur vinnustaðanáms er að nemendur öðlist hæfni til að takast á við margbreytilegar aðstæður á heilbrigðisstofnunum, verði færir um að axla ábyrgð og sýna sjálfstæði í starfi. Hverjum nemanda skal fylgja ferilbók þar sem gerð er grein fyrir þjálfun hans í vinnustaðanámi, verkefnum er lýst og mat lagt á hæfni og framvindu náms. Við upphaf vinnustaðanáms setur nemandi sér fagleg og persónuleg markmið sem verða leiðarljós í náminu og í samskiptum hans við skjólstæðinga, leiðbeinanda og starfsfólk. Nemandi og leiðbeinandi í vinnustaðanámi bera ábyrgð á skráningu ferilbókar sem er hluti af námsmati. Vinnustaðanám er skipulagt út frá hæfniviðmiðum brautar og skilgreindum hæfnikröfum sjúkraliðastarfsins. Stofnun sem gerir samning um vinnustaðanám nemenda skuldbindur sig til að fylgja þeim markmiðum. Kennslustjóri/fagstjóri skipuleggur verknámsáfanga í samvinnu við verknámskennara. Umsjónarkennarar verknámsáfanga fylgja nemendum eftir og meta, í samvinnu við leiðbeinendur á heilbrigðisstofnunum, hvort þeir hafi staðist verklegan áfanga. Starfsþjálfun fer fram á heilbrigðisstofnunum og stendur yfir í sextán vikur, sem samsvarar 27 einingum í námskrá. Að loknum fyrsta áfanga vinnustaðanáms er skólum frjálst að skipuleggja hluta af starfsþjálfun samkvæmt skólanámskrá. Markmið starfsþjálfunar er að nemandi þjálfist í störfum sjúkraliða, kynnist vaktaskipulagi deilda/stofnana og fái tækifæri til að bæta við sig þekkingu í ýmsum þáttum hjúkrunar. Við upphaf starfsþjálfunar setur nemandi sér markmið í samvinnu við deildarstjóra/yfirmann á viðkomandi deild. Starfsþjálfunin skal skipulögð út frá hæfnikröfum sjúkraliðastarfsins og út frá hæfniviðmiðum sjúkraliðabrautar. Hjúkrunardeildarstjóri eða staðgengill hans ásamt sjúkraliðanema fara yfir markmiðin að hverju starfsþjálfunartímabili loknu. Eftir hvert starfsþjálfunartímabil þarf nemandi að skila mati og umsögn frá hjúkrunardeildarstjóra eða staðgengli hans um það hvort hann hafi hafi náð markmiðum starfþjálfunar og staðist þær kröfur sem gerðar eru til nemanda í starfsþjálfun.
Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í hverri grein þar sem það á við.
Námsgrein | Skammstöfun | 1. þrep | 2. þrep | 3. þrep | |
---|---|---|---|---|---|
Heilbrigðisfræði | HBFR | 1HH05 | 5 | 0 | 0 |
Hjúkrun, grunnur | HJÚK | 1AG05 3ÖH05 2TV05 2HM05 3FG05 3LO03 | 5 | 10 | 13 |
Hjúkrun, grunnur, verkleg | HJVG | 1VG05 | 5 | 0 | 0 |
Líffæra og lífeðlisfræði | LÍOL | 2SS05 2IL05 | 0 | 10 | 0 |
Líkamsbeiting | LÍBE | 1HB01 | 1 | 0 | 0 |
Lyfjafræði | LYFJ | 2LS05 | 0 | 5 | 0 |
Næringarfræði | NÆRI | 1ON05 | 5 | 0 | 0 |
Sálfræði | SÁLF | 2LH05 3ÞS05 | 0 | 5 | 5 |
Siðfræði | SIÐF | 2SF05 | 0 | 5 | 0 |
Sjúkdómafræði | SJÚK | 2MS05 2GH05 | 0 | 10 | 0 |
Skyndihjálp | SKYN | 2SE01 | 0 | 1 | 0 |
Sýklafræði | SÝKL | 2SS05 | 0 | 5 | 0 |
Upplýsingalæsi, sjúkraskrár | UPPÆ | 1SR05 | 5 | 0 | 0 |
Starfsþjálfun sjúkraliðanema | STAF | 3ÞJ27 | 0 | 0 | 27 |
Vinnustaðanám sjúkraliða | VINN | 3ÖH08 2LS08 3GH08 | 0 | 8 | 16 |
Einingafjöldi | 146 | 26 | 59 | 61 |