Námsmati er ætlað að meta hvernig nemanda hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið hvers áfanga. Í kennsluáætlunum kemur fram hvernig námsmati er háttað.

 1. Námsmat í FNV byggir á símati/leiðsagnarmati sem samanstendur m.a. af verkefnum og prófum þar sem nemandinn fær mat á stöðu sinni í einstökum námsþáttum sem skilgreindir eru í áfangalýsingu og kennsluáætlun. Námsmat skal fara fram jafnt og þétt yfir önnina og skal samanstanda af a.m.k. fimm matsþáttum í bóklegum greinum og þremur til fimm í verklegum greinum.
 2. Í kennsluáætlun áfanga skal gera grein fyrir námsmati, vægi og tímasetningum matsþátta og hvernig þeir eru metnir.
 3. Kennari getur sett þau skilyrði að nemandi þurfi að fá lágmarkseinkunn í tilteknum matsþáttum áfanga og skal það koma fram í kennsluáætlun hverju sinni. Lágmarksvægi slíkra námsþátta skal vera 20%. Nemandi skal eiga kost á endurtekningu ef hann nær ekki lágmarkseinkunn í fyrstu tilraun.
 4. Nemandinn sér stöðu sína eins og hún birtist í INNU á hverjum tíma.
 5. Vörður eru haldnar þrisvar á önn. Í fyrstu og annarri vörðu fær nemandinn upplýsingar um stöðu sína í einstökum áföngum í formi bókstafa og umsagnar. Þetta mat á frammistöðu hefur ekki áhrif á lokaeinkunn. Fyrirkomulag í vörðum nær ekki til fjarnema.
 6. Nemandi, sem hættir í áfanga á fyrstu þremur vikum annar, verður skráður úr áfanganum og fær þar með enga einkunn. Nemandi, sem hættir í áfanga eftir að þrjár vikur eru liðnar frá upphafi annar, verður skráður með úrsögn úr áfanganum. Þetta fyrirkomulag nær ekki til fjarnema.
 7. Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi eða verkefni sem gildir til lokaeinkunnar, varðar það ógildingu prófsins eða verkefnisins. Við ítrekuð brot á þessari reglu er heimilt að vísa nemandanum úr viðkomandi áfanga og eftir atvikum úr skóla.
  Andmælaréttur nemenda er 3 dagar.
  1. Ef nemandinn færir fram gild rök innan gefins tímafrests getur kennarinn látið niðurstöður prófsins eða verkefnisins gilda eða gefið nemandanum kost á endurtekningu.
  2. Komi upp ágreiningur um niðurstöðu kennarans getur nemandinn skotið máli sínu til viðkomandi deildarstjóra. Eigi deildarstjórinn hlut að máli skal því skotið til aðstoðarskólameistara.
 8. Áður en próf/verkefni er lagt fyrir nemendur skal tekið fram hvort um er að ræða skólapróf/skólaverkefni þar sem prófið/verkefnið er leyst í kennslustofu undir eftirliti kennara eða heimapróf/heimaverkefni þar sem nemandinn leysir prófið/verkefnið utan kennslustofu án yfirsetu kennara.
 9. Komi upp tæknivandamál í rafrænu prófi á að koma boðum þess efnis til kennara. Sé það ekki gert verður prófúrlausnin metin eins og henni var skilað. Gæta þarf tímanlega að því að tölva og tengingar séu í lagi.
 10. Nemanda er heimilt að brautskrást með einkunnina 4 á lokaönn ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en eina slíka einkunn á prófsskírteini. Þessi áfangi gefur ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra.
 11. Brautskráningarnemanda er heimilt að skila eða endurvinna verkefni skv. ákvörðun kennara í viðkomandi áfanga
 12. Skipulag þetta gildir frá 12. febrúar 2024.

Frávik frá námsmatsreglum

Fatlaðir og langveikir nemendur, nemendur með lestrar- og skriftarörðugleika og/eða aðra staðfesta skynjunarörðugleika geta sótt um frávik frá hefðbundnu námsmati. Um er m.a. að ræða sérstaka samsetningu prófa, lengri próftíma, sérhönnuð próf eða verkefni, notkun hjálpargagna, aðstoð í prófum, munnleg próf o.fl.. Nemandi skal sækja um slík frávik til námsráðgjafa sem kemur umsókninni áfram til stjórnenda.

Sauðárkróki 7.febrúar 2024

Skólameistari.