Það er stefna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að starfsfólk og nemendur sýni kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni og ofbeldi er undir engum kringumstæðum umborin í skólanum. Meðvirkni starfsfólks og nemenda í einelti er fordæmd. Ef grunur vaknar um einelti á meðal nemenda eða starfsfólks skal strax tekið á málum skv. verklagsreglum.

Einelti og ofbeldi er alvarlegt vandamál sem skólanum ber skylda til að taka á. Einelti og ofbeldi hafa víðtæk áhrif á þá sem fyrir því verða, bæði andlega og líkamlega.

Einelti getur einungis haft neikvæð og meiðandi áhrif á þann sem fyrir því verður.

Rannsóknir hafa sýnt að áhrif eineltis gætir alla ævi hjá þeim sem fyrir því verður. Nemendur og starfsfólk skólans eru því hvattir til að taka eindregna afstöðu gegn einelti og öllum birtingarmyndum ofbeldis.

Skilgreingar FNV innan þessara áætlunar styður við Reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti kynferðilegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
https://island.is/reglugerdir/nr/1009-2015

Skilgreiningar

Einelti
Síendurtekin hegðun, sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi.
Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi.
Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynferðislegt ofbeldi
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður. Einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis. Brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. Kafla almennra hegningalaga.
https://www.althingi.is/altext/stjt/1992.040.html
Önnur ótilhlýðileg háttsemi
Getur meðal annars falist í lítilsvirðandi framkomu, klámfenginni háttsemi eða snertingu sem þykir nærgöngul eða óviðeigandi.
Meintur þolandi/þolandi
Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilegri háttsemi.
Meintur gerandi/gerandi
Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilega háttsemi beinist að.

Það er hlutverk allra starfsmanna og nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega háttsemi í skólanum. Mikilvægt er að starfsfólk og nemendur sýni samkennd með náunganum og séu vakandi gagnvart allri slíkri skaðandi háttsemi.

Það er ekki alltaf auðvelt að koma auga á einelti, þar sem meintur þolandi segir oft ekki frá. Vanlíðunin getur verið þess valdandi að viðkomandi skammist sín og telji aðstæður sínar vera sér að kenna. Þess vegna er mikilvæt að allir viti hverjar birtingarmyndir eineltis eru.

Dæmi um athafnir sem flokkast geta undir einelti
  • Orð sem niðurlægja, háðsyrði, særandi orð
  • Rógburður, slúður, illt umtal
  • Hrekkir, háð, að beita skapsmunum
  • Sögusagnir til að grafa undan mannorði þolanda
  • Ásakanir varðandi frammistöðu í námi og starfi
  • Truflun á námi og störfum
  • Aukið vinnuálag, gera of miklar og ósanngjarnar kröfur
  • Tvöföld skilaboð, hundsun
  • Stöðug og óréttlát gagnrýni, hótanir
  • Smásmugulegt eftirlit og skerðing hlunninda án skýringa
  • Veita villandi upplýsingar eða halda þeim frá viðkomandi
  • Niðurlæging í viðurvist annarra
  • Útilokun frá félagslegum uppákomum
  • Niðrandi skírskotun til aldurs, kyns eða litarháttar
  • Skemmdarverk á eigum eða hlutum sem tilheyra nemanda/starfsmanni

Athugið að þessi listi er ekki tæmandi

Viðbragðsáætlun

Verði nemandi fyrir einelti, áreitni og /eða ofbeldi, eða hefur vitneskju um að slíkt sé viðhaft gagnvart öðrum nemanda skal hann upplýsa það til skólastjórnenda, námsráðgjafa eða félagsráðgjafa og /eða snúa sér til þess aðila sem hann treystir best innan skólans. Nemandi getur alltaf snúið sér til fyrrgreindra aðila með áhyggjur sínar og fengið aðstoð við að átta sig á því hvað um sé að ræða og fengið leiðbeiningar um næstu skref.

Einnig skulu kennarar eða annað starfsfólk snúa sér til skólastjórnenda, námsráðgjafa eða félagsráðgjafa hafi þeir grun eða vitneskju um að einelti, áreitni og/eða ofbeldi sé haft uppi innan skólans eða ef einstaka samstarfsmenn eða nemendur gætu verið beittir slíku og að það sé að hafa áhrif á nám þeirra, líðan eða aðra þætti daglegs lífs.

Nemendur yngri en 18 ára

Ef meintur þolandi og/eða gerandi er undir 18 ára aldri ber skólastjórnendum að hafa sambandi við forráðamenn, hvort sem um formlega eða óformlega málsmeðferð er að ræða.

Aðili sem verður var við kynferðislegt ofbeldi eða áreitni gagnvart barni yngra en 18 ára ber lagalega skyldu til að tilkynna grun sinn til barnaverndaryfirvalda, skv. 17. gr Barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þessi tilkynningaskylda gengur framar trúnaðarskyldu skólastarfsfólks.

Eigi brot sér stað innan skólans eða fái skólinn upplýsingar um að brotið hafi verið á barni er gert ráð fyrir að tilkynnt sé í nafni skólans. Skulu skólastjórnendur ávallt hafðir með í ráðum. Ávallt skal hafa samband við forráðamenn nemenda yngri en 18 ára og þeim gerð grein fyir tilkynningunni, nema ef meintur gerandi er forráðamaður viðkomandi.

Vinnuferli ef tilkynningar berast um grun um einelti, áreiti eða ofbeldi:
  1. Þegar upp kemur grunur um einelti, áreiti eða ofbeldi skal málið skráð af viðtakanda og skal sú skráning verða vinnuplagg til að halda utan um ferli málsins. Haldin er ferilskrá um málið.
  2. Við upphaf úrvinnslu áhyggjanna skal rætt við þá aðila sem málið viðkoma. Skal það gert með þeim hætti að sá sem tilkynnir áhyggjurnar skal greina skriflega eða munnlega frá því sem vekur grun hjá viðkomandi og þeim málsatvikum sem byggt er á. Næst skal rætt við meintan þolanda og upplifun hans könnuð. Séu fleiri aðilar sem gefið gætu upplýsingar um aðstæður skal rætt við viðkomandi í þeirri röð sem þau viðkoma málinu. Málið er kannað meðal annars með viðtölum við þá aðila sem eiga hlut að máli.
  3. Námsráðgjafi/félagsráðgjafi kallar saman starfshóp um einelti, áreitni og ofbeldi innan skólans. Þar skal greint frá þeim áhyggjum sem uppi eru ásamt því að gera grein fyrir þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það er hlutverk starfshópsins að taka afstöðu til áhyggjanna og ákveða næstu skref málsins. Hvort málið skuli unnið frekar eða lokað þar sem ekki er skilgreiningum fullnægt. Námsráðgjafi/félagsráðgjafi kalla saman starfshóp um einelti.
  4. Meti starfshópur að um einelti, áreiti eða ofbeldi sé að ræða, og að vinna skuli málið frekar skal hafa samband við forráðamenn séu þolandi eða meintur gerandi yngri en 18 ára. Þeir skulu upplýstir ásamt því að þeim er gerð grein fyrir næstu skrefum í vinnslu málsins. Haft er samband við forráðamenn ólögráða nemenda (gerenda og þolenda) eins og þurfa þykir.
  5. Starfshópurinn gerir tillögur, hverju sinni, um lausn málsins eftir að söfnun gagna er lokið. Skal sú lausn byggð á samráði þeirra aðila sem talið er að leyst geti í sameiningu uppkomnar aðstæður, má þar nefna kennara, annað starfsfólk, foreldra nemendur, aðra nemendur eða utanaðkomandi aðila. Telji starfshópurinn nauðsynlegt að beita viðurlögum vegna aðstæðnanna kemur það þeim hugmyndum til skólameistara ásamt skriflegum rökstuðningi. Starfshópur gerir tillögur að lausn málsins og getur annað starfsfólk, foreldrar og nemendur aðstoðað við lausn mála. Einnig getur verið þörf á utanaðkomandi aðstoð og er það metið hverju sinni. Leggi starfshópur til að viðurlögum verði beitt, kemur það þeim áleiðis til skólameistara. Sem dæmi um viðurlög má nefna áminningu, brottvikningu nemanda úr áfanga, breytingar á starfi, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi starfsmanns, eða brottvikning.
  6. Að fyrirfram ákveðnum tíma liðnum skal gert endurmat á aðstæðunum. Markmiðið skal vera að meta hvort árangur sé af íhlutuninni eða hvort beita þurfi öðrum ráðstöfunum til að bæta aðstæður viðkomandi þolanda og líðan hans innan skólans. Sýni eftirfylgni ekki fram á bættan hag þolanda gæti þurft að leita frekari aðstoðar við lausn málsins utan skólans. Kannað verður eftir ákveðinn tíma hvort málið er leyst. Ef svo er ekki getur þurft að leita aðstoðar aðila utan skólans við lausn málsins.

Sauðárkróki 19. september 2022

Ingileif Oddsdóttir Skólameistari.