Skipurit, saga og sýn skólans

Skipurit FNV

Skipurit FNV

Saga FNV

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var stofnaður árið 1979 og settur í fyrsta sinn 22. september það sama ár, þá undir heitinu Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Fram að þeim tíma hafði verið starfræktur Iðnskóli á Sauðárkróki frá árinu 1946 og framhaldsdeild við Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki frá árinu 1977. Stofnendur skólans voru sveitarfélög á Norðurlandi vestra ásamt ríkissjóði. Jón F. Hjartarson var ráðinn skólameistari og gegndi hann því starfi til haustannar 2011 þegar hann lét af störfum. Við starfi hans tók Ingileif Oddsdóttir, núverandi skólameistari.

Skólinn er framhaldsskóli með áfangakerfi og er upptökusvæði hans fyrst og fremst Norðurland vestra. Skólinn býður fram bóknám, verknám, starfsnám og heimavistarþjónustu. Hann leitast við að bjóða upp á menntun í takt við kröfur tímans og vera leiðandi á sínu sviði. Nemendum hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi og hafa þeir verið um 500 talsins að jafnaði undanfarin ár.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hefur lagt áherslu á að uppfæra tækjabúnað og þekkingu með því markmiði að vera leiðandi á meðal menntastofnana við innleiðingu nýjustu CNC hátækni í iðnmenntun. Sem dæmi um þessa viðleitni má nefna samstarf skólans við HAAS Automation sem vottar gæði námsins með skírteini sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.

Skólinn hefur ávallt boðið upp á ýmsar nýjungar í námi. Þar má m.a. nefna nám í kvikmyndagerð í samstarfi við Skottu kvikmyndafjelag Þá er skólinn í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Sveitarfélagið Skagafjörð um rekstur Fab Lab stofu, eins konar rafrænnar smiðju sem m.a. er ætlað að auðvelda frumkvöðlum að gera hugmynd að veruleika.

Skólinn hefur verið virkur þátttakandi í verkefnum á vegum Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Má þar nefna verkefni sem miðar að því að koma á námi í plastiðnum í samstarfi við skóla í Danmörku og Finnlandi sem og fyrirtæki í plastiðnaði á Íslandi. Loks er skólinn þátttakandi í samstarfsverkefni sex þjóða um tölvustýringar í iðnaði. Skólinn hefur frá árinu 2000 verið í samvinnu við Árskóla á Sauðárkróki um kynningu á iðnnámi fyrir grunnskólanema og hefur einnig boðið öðrum grunnskólanemendum á Norðurlandi vestra upp á slíka kynningu. Þessar kynningar hafa vakið verðskuldaða athygli og fékk skólinn Starfsmenntaverðlaunin árið 2006 fyrir þetta verkefni.

Sýn og staða

Hlutverk og markmið

Hlutverk framhaldsskóla er skilgreint í lögum um framhaldsskóla, nr. 92 frá 2008. Þar segir í 2. gr.:

„Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.“

Hlutverk FNV er kennsla á bóknámsbrautum til stúdentsprófs, framhaldsskólabrautum, iðn- og starfsnámsbrautum, starfsbraut og fjarkennsla um fjarfundabúnað, allt með áfanga- og fjölbrautasniði. Markmiðin með skólastarfinu eru m.a. að stuðla að alhliða þroska nemenda, búa þá undir störf og frekara nám, efla með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra býður fjölbreytt, framsækið og skapandi nám á verknáms-, starfsnáms- og bóknámsbrautum framhaldsskóla. Skólinn býr nemendur undir áframhaldandi nám, krefjandi störf, virka þátttöku í nútímaþjóðfélagi og leitast við að skila nemendum sínum frá sér sem víðsýnum, ábyrgum og sjálfstæðum einstaklingum.

Markmiðum sínum hyggst skólinn ná með því að:

  1. leitast við að ráða til starfa hæft og menntað fólk með áskilin starfsréttindi,
  2. hvetja starfsfólk sitt til að afla sér viðbótar- og endurmenntunar,
  3. leitast við að bjóða upp á endurmenntun starfsfólks í heimabyggð eftir því sem kostur er og aðstæður leyfa,
  4. bjóða kennurum og öðru starfsfólki upp á góða vinnuaðstöðu,
  5. bjóða nemendum upp á góða aðstöðu til heimanáms og verkefnavinnu,
  6. bjóða kennurum og nemendum upp á gott aðgengi að tölvum, tækjum og verkfærum sem eru í takt við kröfur tímans.

Gildi

Vinnusemi – virðing – vellíðan

Skólinn leitast á hverjum tíma við að skapa þær aðstæður innan skólans að þar ríki vinnusemi, gagnkvæm virðing starfsfólks og nemenda og vellíðan allra sem við skólann nema og starfa.

Vinnusemi

Nám er vinna og vinnan er grundvöllur náms. Í skólanum er lögð áhersla á að nemendur temji sér öguð og sjálfstæð vinnubrögð sem nýtast þeim í námi og starfi.

Virðing

Í skólanum er lögð áhersla á virðingu fyrir sérhverjum einstaklingi, samfélaginu og umhverfinu og leitast er við að sýna það í verki. Virðing felur í sér ábyrgð, traust, aga, metnað, heiðarleika, mannúð og jafnrétti. Hún stuðlar að lýðræðislegri hugsun, jákvæðari og betri samvinnu og um leið að góðum árangri í skólastarfi. Virðing bætir líðan og ánægju og vinnur gegn mismunun, fordómum, tortryggni og brottfalli.

Vellíðan

Grundvöllur árangurs í námi og vinnu er vellíðan sem byggir m.a. á sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum, viðhorfum þeirra og gildum. Einn grunnur vellíðunar er árangur í námi og starfi sem byggir ekki síst á vinnusemi og ánægju með vel unnið verk.

Sérstaða

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra leggur megin áherslu á að þjóna íbúum Norðurlands vestra. Það gerir hann með því að bjóða fjölbreytt nám sem tekur m.a. mið af kröfum um undirbúning fyrir háskólanám og kröfum samfélagsins um hagnýtt iðn- og starfsnám af ýmsu tagi. Sem dæmi um aðlögun að umhverfi skólans má nefna að í boði eru tvær námsbrautir í hestamennsku, námsbrautir í fisktækni, slátrun og plastiðnum.

Áhersla er lögð á að bjóða upp á nútímalegt og tæknivætt námsumhverfi sem endurspeglar þær færnikröfur sem gerðar eru til fólks á vinnumarkaði og í háskólanámi.

Framtíðarsýn

Eins og áður er fram komið er það er eitt megin hlutverk FNV að bjóða fjölbreytt bók-, iðn- og starfsnám í takt við þarfir íbúa og atvinnulífs á svæðinu. Í framtíðinni er horft til enn frekari sóknar á sviði matvælaframleiðslu, plastiðna, ferðamennsku og annarra þeirra sviða sem eftirspurn er eftir hverju sinni til viðbótar hefðbundnu námi til stúdentsprófs og námi í einstökum iðngreinum. Ekki er gert ráð fyrir að nám á öllum þessum sviðum verði í boði árlega, heldur verði boðið upp á nám í einstökum greinum á nokkurra anna eða ára fresti. Stefnt er að því að bjóða upp á margskonar starfsnám sem er sambland af fjarnámi og lotubundnu staðnámi og gera þátttakendum þannig kleift að stunda nám meðfram vinnu.

Til þess að mæta síbreytilegri eftirspurn, er nauðsynlegt að koma upp fjölnota húsnæði sem auðvelt er að breyta með mismunandi þarfir einstakra námsleiða í huga.