Fjarnám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Lykilupplýsingar

Fjarnám hefst föstudaginn 23. ágúst og munu kennarar senda upplýsingar til nemenda varðandi námið.

Þeir nemendur sem voru á vorönn halda sínum aðgangsorðum, aðrir fá send aðgangsorð frá fnv@fnv.is. Ef þið sjáið ekki póstinn skoðið þá í ruslpóst hvort hann hafi lent þar.

Nemendur í fjarnámi fá aðgang að Microsoft Office pakkanum hjá skólanum og geta notað hann á meðan þeir eru skráðir í nám við skólann. Hér má finna upplýsingar frá tölvuþjónustu Tölvuþjónusta | Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (fnv.is)

Skólinn notar samskiptavefinn Moodle og þar eru sett inn verkefni, kennsluáætlanir og fleira sem nemendur þurfa að fylgjast vel með og skila verkefnum þar í gegn. Nauðsynlegt er að fylgjast daglega með þar.
Nemendur skrá sig sjálfir inn í sína áfanga á Moodle og þar þarf innritunarlykil.

Inna er skráningarkerfi framhaldsskóla, þar er hægt að fylgjast með einkunnum og fleiru. Þar er hins vegar farið inn með rafrænum skilríkjum.

Greiðsluseðlar verða sendir út til nemenda og birtast í heimabanka. Brýnt er að greiðsla berist á réttum tíma svo öruggt sé að halda plássi. Gjaldið hækkar um 1.500 krónur ef ekki er greitt á gjalddaga. Greiðsluseðlar nemenda undir 18 ára aldri eru sendir á forráðamenn.
Gjaldið er óafturkræft, en vinsamlega látið vita ef hætt hefur verið við nám svo hægt sé að afskrá greiðsluseðil.

Markmið

Markmiðið með því að bjóða upp á fjarnám er að gefa sem flestum kost á að stunda framhaldsnám óháð staðsetningu og tíma.

Námsfyrirkomulag

Fjarnám í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) er að mestu leyti nám á netinu og eru áfangar settir upp á Kennsluvefnum – moodle.

Boðið er upp á flest alla bóklega áfanga í fjarnámi. Fjarnemar geta uppfyllt einingar í íþróttum með því að taka aðra áfanga, vilji þeir útskrifast af einhverri þeirra námsbrauta sem í boði eru í skólanum.

Miðað er við að 30 einingar á önn samsvari fullu námi og bent er á að í nýrri námskrá samsvarar hver eining 18-24 klst. vinnu.

Námið er fyrst og fremst hugsað sem sjálfsnám undir handleiðslu kennara. Það krefst mikils aga og skipulagningar af hálfu nemenda og kennara. Sjálfsagi er mikilvægur þar sem fjarnám er að hluta til sjálfsnám og ekki er hægt að fá svör frá kennurum um leið og spurningar vakna. Það er því mikilvægt að lesa allar leiðbeiningar vel, hafa tímasetningar í heiðri og leysa öll verkefni, sem fyrir eru lögð. Vakni spurningar, sem ekki eru svör við í námsumhverfinu (kennsluvefnum), er hægt að senda fyrirspurn til kennara og ber honum að svara eigi síðar en annan virkan dag.

Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og því verður munur frá áfanga til áfanga hversu mikið lesefnið er, hvernig verkefnin verða, hvort og þá hversu mörg próf eru í áfanganum og annað sem við á. Kennari getur ákveðið að leggja námsefnið fyrir eins og hann telur best. Það getur verið kennslubók, kennsluefni á neti, eigið kennsluefni, myndbönd bæði eigin fyrirlestrar eða kynningar og af netinu, myndir eða annað sem hentar hverju sinni.

Samskipti

Samskipti við kennara fara fram á kennsluvefnum og tölvupósti. Á kennsluvefnum er að finna kennsluáætlanir, verkefni, próf og fleira, sem máli skiptir í náminu.

Fyrstu skrefin og gjaldskrá

Nemendur sækja um fjarnám á heimasíðu skólans. Kennsla í fjarnámi við FNV hefst á sama tíma og annað skólastarf nema annað sé tekið fram í skilaboðum til nemenda.

Greiðsluseðill er sendur í heimabanka nemanda, en til forráðamanns ef nemandi er undir 18 ára aldri.

Gjaldskrá: Innritunargjald er kr. 6.000 + 13.000 fyrir 1 áfanga, samtals 19.000, fyrir 2 áfanga kr. 32.000 og fyrir 3 áfanga eða fleiri kr. 45.000

Upplýsingabréf eru send til umsækjenda um það leyti sem kennslan hefst. Í bréfinu eru meðal annars upplýsingar um aðgangs- og lykilorð sem nemendur fá í upphafi náms. Fjarnemar skólans fá aðgang að Office-pakkanum á meðan nemandi er í skólanum.

Að vera í fjarnámi

Nemendur þurfa að:

 • hafa daglegan aðgang að nettengdri tölvu
 • gera sér grein fyrir því að fjarnám felur í sér aukna ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum.
 • hafa lágmarkskunnáttu í tölvunotkun, þ.m.t. ritvinnslu
 • hafa nokkra æfingu í að nota veraldarvefinn og í framhaldi af því að geta tileinkað sér að vinna á kennsluvefnum. Þar eru m.a. bókalistar, kennsluáætlanir, verkefni, gagnvirk próf og ítarefni allra áfanga, sem kenndir eru í fjarnámi hverju sinni.
 • hafa tíma til að stunda námið.
 • Nemendur þurfa að láta kennara og fjarnámsstjóra vita vilji þeir hætta í áfanga.
 • Eftir 3 vikur er ekki hægt að segja sig úr áfanga, áfanginn stendur eftir á Innu þó nemandinn hætti.

Verklagsreglur kennara

 • Kennari setur skýra kennsluáætlun á kennsluvefinn þar sem fram koma markmið, tímaáætlun, verkefni og námsmat áfangans.
 • Kennara ber að setja námsefni fram á aðgengilegan hátt og leitast við að útskýra það fyrir nemendum á eins skýran hátt og honum er unnt. Einnig skal hann vísa nemendum á hvar ítarefni er að finna, fari hann út fyrir námsefnið eins og það er í aðalkennslubók(um) áfangans.
 • Kennari á að meta frammistöðu nemenda fyrir skil á verkefnum með einkunnum og/eða skriflegum umsögnum, sem fela í sér leiðbeiningar og útskýringar.

Verklagsreglur fjarnema

 • Til að ná árangri í námi er mikilvægt að stunda námið jafnt og þétt og skila verkefnum og vera í tengslum við kennara. Fjarnám felur í sér aukna ábyrgð nemenda og krefst sjálfstæðari vinnubragða heldur en í dagskóla.
 • Nemanda ber að lesa kennsluáætlun ítarlega í upphafi.
 • Nemanda ber að fara inn á kennsluvefinn eins oft og kennarinn leggur til og helst daglega.
 • Nemandi á að virða þær reglur, sem kennari setur um verkefnaskil.
 • Nemandi á að láta kennara og fjarnámsstjóra vita ef hann ætlar að hætta námi í áfanganum.
 • Nemendur eru hvattir til að senda fyrirspurnir til kennara í tölvupósti eða í gegnum kennsluvefinn.
 • Til þess að nemandi hafi próftökurétt þá verður hann að teljast vera virkur við upphaf prófa þ.e. hafa staðið skil á verkefnavinnu áfangans eins og kennari leggur upp með.

Námsefni

Bókalista má nálgast á heimasíðu skólans.

Námstími og námsmat

Haustönn er frá miðjum ágúst fram að jólum. Vorönn er frá janúarbyrjun til maíloka.

Námsmat byggir á símati þar sem nemandinn fær mat á stöðu sinni í einstökum námsþáttum sem skilgreindir eru í kennsluáætlun. Það eru engin lokapróf.

Náms- og starfsráðgjöf

Fjarnemar hafa aðgang að námsráðgjafa skólans, Tinnu Dögg Gunnarsdóttur, hægt er að hafa samband í gegnum tölvupóst, tinna@fnv.is, eða í síma 455 8000

Ráðgjöf við val á áföngum og námsmat

Hægt er að fá ráðgjöf við val á áföngum og námsmat hjá fjarnámsstjóra, áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Fjarnámsnemendur sem óska eftir mati á fyrra námi skulu senda inn öll gögn sem varða nám þeirra í öðrum skólum til fjarnámsstjóra. Nemendur sem eru skráðir í fjarnám í FNV fá fyrra nám sitt metið án aukakostnaðar. Nemendur sem ekki eru skráðir nemendur við skólann greiða 10.000 krónur fyrir námsmat.

Samstarf við aðra skóla

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra býður í samstarfi við 11 aðra framhalds-skóla á landsbyggðinni upp á fjarnám. Sjúkraliðanám er í samstarfi við MÍ og VA.

Netföng

Áfangastjóri: kristjan@fnv.is

Fjarnámsstjóri: sirry@fnv.is / fjarnam@fnv.is

Námsráðgjafi: tinna@fnv.is

Félagsráðgjafi: adalbjorg@fnv.is