LÝÐH1LH03_2 - Lýðheilsa 1

Lýðheilsa - verklegt og bóklegt

Einingafjöldi: 3
Þrep: 1
Áfanginn er bóklegur og verklegur. Áfanginn er kenndur fjórar kennslustundir í viku. Tvær kennslustundir í viku eru bókleg lýðheilsufræði og tvær kennslustundir eru verklegar íþróttir. Í bóklegri lýðheilsufræði er lögð áhersla á forvarnir og heilbrigðan lífsstíl. Fjallaða verður um hreyfingu, næringu, vímuefni, svefn, kynfræðslu og andlega heilsu með hliðsjón af 1.stigs forvörnum. Í áfanganum verður jafnframt farið yfir mismunandi námsaðferðir, vinnulag og markmiðssetning. Árangursrík samskipti eru mikilvæg öllum, nemendur hljóta því æfingu í hópefli bæði í æfingum og verkefnum. Í verklega hluta áfangans er lögð áhersla á fjölþætta hreyfingu og þol. Nemendur geta valið um almennar íþróttir svo sem heilsuræktarstöðvar, hjólreiðar, sund, gönguferðir, fjallaverðir, hjólreiðatúra sem og boltaíþróttir líkt og körfubolta, fótbolta, handbolta og fleira.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • heimasíðu skólans, moodle, innu, tölvukerfi og ljósritunarvél
 • reglum skólans, þjónustu, heimavist, mötuneyti og öðrum þáttum sem við kemur skólanum
 • mikilvægi góðrar heilsu fyrir framtíðina svo sem mikilvægi hollrar næringar, góðum svefn, vímulausrar ævi o.s.frv.
 • skaðsemi tóbaks, áfengis og annara vímuefna
 • mikilvægi árangursríkra samskipta óháð kyni, litarhætti, búsetu, efnahag, kynhegðun og trúarbrögðum fyrir einstaklingana sjálfa sem og fyrir skólabraginn
 • mikilvægi reglubundinnar hreyfingar og þols sem forvarnar gegn ýmsum andlegum og líkamlegum sjúkdómum
 • mikilvægi þess að vinna jafnt, þétt og skipulega í náminu
 • lánum, sparnaði, greiðslukortum, vöxtum, gengi, veði og öðru sem tengist fjármálalæsi

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • setja sér raunhæf markmið varðandi nám í skóla
 • efla félagsþroska sinn og eiga árangursrík samskipti við aðra óháð kyni, litarhætti, trúarbrögðum, kynhegðun, efnahag og búsetu
 • nota moodle, innu og tölvukerfi skólans á árangursríkan hátt
 • nota þekkingu sína og leikni til að efla og viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu
 • auka úthald sitt og styrk með því að stunda reglubundna hreyfingu

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • nýta heilsulæsi sitt til að efla og viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu
 • bera ábyrgð á eigin námi og stunda það af bestu getu
 • eiga í árangursríkum samskiptum við aðra, geta til að mynda borið umhyggju fyrir öðrum og virðingu
 • skipuleggja fjármál sín af ábyrgð og með hagsýni í huga
Nánari upplýsingar á námskrá.is