ÍÞRÓ2SL03 - Styrkur og liðleiki

liðleiki, líkamsbeiting, styrkur, íþróttameiðsli

Einingafjöldi: 3
Þrep: 2
Forkröfur: ÍÞRÓ1UÞ03
Áfanginn er bæði bóklegur ( fræðilegur ) og verklegur þar sem aðaláhersla er á styrk og leiðleika og tengd verkefni. Lögð er áhersla á verklega og fræðilega þætti kraft- og liðleikaþjálfunar. Farið er yfir mikilvægi líkamsstyrks (krafts) fyrir stoðkerfi líkamans, líkamsbeitingu og líkamsreisn. Nemendur læra að stunda kraftþjálfun sem nær til helstu vöðvahópa líkamans. Þá er komið inn á mikilvægi réttrar líkamsbeitingar við kraftþjálfun og fjölbreytta möguleika við þjálfun krafts, s.s. með eigin líkamsþunga og/eða í tækjasal. Farið er yfir mikilvægi liðleika og liðleikaþjálfunar fyrir líkamann og áhrif liðleikaæfinga á vöðva og liðamót. Nemendur taka þátt í verklegum æfingum sem þjálfa liðleika.Nemendum gefast tækifæri til að taka þátt í slökunaræfingum og umræðu um mikilvægi slökunar í nútímasamfélagi. Einnig er komið inn á algengustu íþróttameiðsli, skyndihjálp og líkamsbeitingu í daglegu lífi. Þá verður farið nánar í aðalatriði undanfarandi áfanga, þ.e. upphitun og þolþjálfun og unnið með þá þætti bæði fræðilega og verklega. Í verklegu tímunum verður fjölbreytnin höfð að leiðarljósi – nemendur glíma við fjölbreytt verkefni sem á einn eða annan hátt tengjast þeim þáttum sem að ofan getur. Í einhverjum verklegum tímum býðst nemendum að velja sér viðfangsefni eftir áhugasviðum.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • ólíkum þjálfunarleiðum íþrótta og heilsuræktar
 • helstu lögmálum kraftþjálfunar og aðferðum sem beitt er til að auka kraft
 • helstu lögmálum liðleikaþjálfunar og byggingu líkamans
 • algengustu meiðslum sem verða við íþróttaiðkun
 • mikilvægi réttrar líkamsbeitingar í leik og starfi

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • meta eigið líkamsástand
 • útbúa æfingaáætlun sem miðast við að auka kraft og liðleika
 • hlusta á líkama sinn varðandi álag í íþróttaiðkun og minnka þannig hættu á meiðslum
 • nota góða vinnutækni og vinnustellingar
 • efla á markvissan og einstaklingsbundinn hátt líkamshreysti og þrek
 • stunda markvissa og fjölbreytta styrktar-, liðleika- og þolþjálfun

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • taka þátt í æfingum og leikjum sem viðhalda og bæta líkamshreysti
 • framkvæma eigin þjálfáætlun sem miðar að því að auka kraft og liðleika
 • beita fyrstu hjálp í meðhöndlun meiðsla í íþróttum
 • gæta að bakheilsu sinni og komast þannig hjá álagssjúkdómum vegna einhæfra vinnustellinga
 • nýta sér upplýsingatækni við alhliða líkams- og heilsurækt og mat á eigin heilsu
Nánari upplýsingar á námskrá.is