VINS2SL20 - Vinnustaðanám slátrara 1

slátrari

Einingafjöldi: 20
Þrep: 2
Í vinnustaðanámi kynnist nemandi vinnu slátrara. Námið fer fram í viðurkenndu sláturhúsi. Nemandi kynnist vinnu við deyðingu á hvers kyns sláturdýrum s.s. sauðfé, geitum, nautgripum, svínum, hrossum, alifuglum. Nemandinn kynnist því hvernig tekið er á móti sláturdýrum og þeirri ábyrgð sem hvílir á slátrurum að dýrin njóti þess aðbúnaðar sem lög og reglur kveða á um, m.a. kröfur um dýravelferð. Nemandi kynnist því hvernig slátrari vinnur í samræmi við hættugreiningu vinnustaðarins og þær öryggis- og gæðakröfur sem gerðar eru til greinarinnar. Nemandinn kynnist grófbrytjun sláturgripa og hlutun þeirra niður í samræmi við gefna staðla til frekari vinnslu eins og krafist er hverju sinni. Tilgangur vinnustaðanáms er að efla þekkingu, færni og skilning nema á verkþáttum námsins. Námsferilbók er til leiðsagnar í vinnustaðanáminu og er í eigu nemans. Meistari/tilsjónarmaður merkir reglulega við þá verkþætti sem nemi hefur lokið.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • deyfingu og deyðingu hvers kyns sláturdýra, þ.m.t. deyfingu, aflífun, stungu og blóðtæmingu, fláningu og afbyrstun eða fiðurlosun/fiðurreytingu, sem og innanúrtöku, snyrtingu og verkun sláturafurða
  • flutningi og móttöku sláturdýra að sláturhúsi
  • frágangi og meðferð á kjöti á öllum sláturafurðum eftir slátrun s.s. kælingu, pökkun, frystingu, söltun eða aðra geymsluhætti eftir atvikum
  • helmingun kjötskrokka, sögun og grófbrytjun afurða eftir gefnum stöðlum og pökkun í viðeigandi umbúðir
  • innihaldslýsingum og merkingum afurða
  • mælingu sýrustigs og kjötmati
  • vinnu við frágang og förgun úrgangs
  • vinnu í samræmi við kröfur um góða starfshætti, innra eftirlit, hreinlætis- og örverufræði, hættugreiningu, gæðastaðla og öryggiskröfur sláturhúsa kjötvinnslustöðva
  • kröfum um hættumat slátrara
  • forvörnum og viðbragðsáætlunum við óhöppum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • vinna að deyfingu og deyðingu hvers kyns sláturdýra, þ.m.t. deyfingu, aflífun, stungu og blóðtæmingu, fláningu og afbyrstun eða fiðurlosun/fiðurreytingu, sem og innanúrtöku, snyrtingu og verkun sláturafurða
  • vinna að móttöku sláturdýra að sláturhúsi
  • vinna að helmingun kjötskrokka, sögun og grófbrytjun afurða eftir gefnum stöðlum og pökkun í viðeigandi umbúðir
  • vinna að frágangi og meðferð á kjöti og öllum sláturafurðum eftir slátrun s.s. kælingu, pökkun, frystingu, söltun
  • mæla sýrustig í kjöti, meta galla og meta kjöt
  • meta ástand og gæði hráefnis með hliðsjón af umbúðamerkingum, hitastigi og almennum gæðakröfum
  • setja réttar innihaldslýsingar og merkingar á afurðir sem fara í áframhaldandi sölu eða vinnslu
  • vinna við frágang og förgun úrgangs
  • vinna með vélar og handverkfæri sem tengjast starfinu, annast umhirðu þeirra og eftirlit

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • skipuleggja flutning og móttöku sláturdýra að sláturhúsi og tryggja að flutningur og móttaka sláturdýra að sláturhúsi sé í samræmi við reglur og reglugerðir um flutninga og móttöku búfjár s.s. er varðar dýravelferð, rými, öryggi, gæði, hreinlæti og sóttvarnir
  • vinna sjálfstætt að deyfingu og deyðingu hvers kyns sláturdýra, annast framkvæmd og stjórnun allra verkþátta s.s. deyfingu, aflífun, stungu og blóðtæmingu , fláningu, afbyrstun eða fiðurlosun/fiðurreytingu, svo og innanúrtöku, snyrtingu og verkun sláturafurða
  • annast frágang og meðferð á kjöti og öllum sláturafurðum eftir slátrun s.s. kælingu, pökkun, frystingu, söltun eða aðra geymsluhætti eftir atvikum og undirbýr fyrir frekari vinnslu á þann hátt að kælikeðjan rofnar ekki
  • annast helmingun kjötskrokka, sögun og grófbrytjun afurða eftir gefnum stöðlum og pökkun í viðeigandi umbúðir
  • hafa umsjón með frágangi á öllum úrgangi frá sláturhúsum og sjá til þess að frágangur og förgun úrgangs sé í samræmi við umhverfiskröfur greinarinnar, lög og reglur sem gilda um þau mál
  • skipuleggja verkferla með tilliti til viðfangsefna við slátrun, gera verkefnalista, forgangsraða þeim og undirbúa vinnusvæði
Nánari upplýsingar á námskrá.is