SLÁT2NE05 - Næringar og efnafræði - sláturiðn

Næringar og efnafræði - sláturiðn

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Markmið áfangans er að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu á næringarfræði matvæla með áherslu á kjötvörur. Í áfanganum er fjallað um næringarefnin, hlutverk þeirra, skortseinkenni og ráðlagða dagskammta. Farið er yfir ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni. Nemendur læra að nota næringarefnaforrit og reikna út næringargildi matvæla. Fjallað er um flokkun fæðutegunda og næringargildi þeirra, áhrif matreiðslu á næringargildi. Nemendur kynnast hugtökunum markfæði , erfðabreytt matvæli, notkun aukaefna í matvælum og vörumerkingar með hliðsjón af kjötvörum. Nemendur velta fyrir sér spurningunni hvort kjötvara sé markfæði. Fjallað er um á einfaldan hátt efnafræði lifandi og dauðra lífvera s.s niðurbrot, aukaefni, eðlissvipting, mengun og efni sem notuð eru til að hreinsa ílát undir matvæli.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • helstu næringarefnum í matvælum og vita hvar þau eru að finna.
 • ráðleggingum lýðheilsustofnunar um næringu.
 • lög og reglum um aukaefni og vörumerkingar matvæla s.s litarefni, bragðefni.
 • innihaldslýsingum á umbúðum utan um neysluvörur.
 • næringarforritum/næringartöflum til að reikna út næringargildi fæðutegunda og fæðisins í heild.
 • efnafræðilegir eiginleikar próteina (vöðvaprótein), fitu, kolvetni og vatns.
 • eiginleikum og hlutverki ensíma í matvælum og efnafræðilegum skemmdarferlum s.s þránun.
 • hugtökunum frysting, ískristöllun, varmaþennsla, sýrustig og hitaleysni bandvefs.
 • Áhrifum hitastigs á matvæli og efnabreytingum við geymslu matvæla.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • reikna út næringargildi máltíða og dagsfæðis með aðstoð næringarefnaforrita.
 • lesa og nýta sér upplýsingar á matarumbúðum og næringargildi einstakra matartegunda.
 • beita þekkingu sinni á næringarefnum í daglegu starfi sínu við slátrun.

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • velja sér fæðu samkvæmt ráðleggingum lýðheilsustofnunar.
 • beita þekkingu sinni til að geta tjáð sig um næringargildi kjötvara sem og efnasamsetningu á faglegan hátt.
Nánari upplýsingar á námskrá.is