VÉLS2BA07 - Vélstjórn 3

Vélstjórn 3

Einingafjöldi: 7
Þrep: 2
Forkröfur: VÉLS1AA05 og VÉLS1AB07
.Markmið þessa áfanga er að auka hæfni nemenda til að hafa umsjón með rekstri, þjónustu og viðhaldi véla og búnaðar sem tilheyrir vélbúnaði skipa. Eldsneytisolíur og eldsneytiskerfi (svartolía, gasolía). Rekstur eldsneytiskerfa skipavéla (svartolía, gasolía). Nákvæmlega farið í alla þætti kerfa fyrir gasolíu og svartolíu. Eiginleikar smurolíu og áhersla lögð á gildi hinna mismunandi eiginleika í starfi. Nákvæmlega farið í alla þætti smurolíukerfa. Ferskvatns- og sjókælikerfi í skipum. Æskilegir eiginleikar ferskvatns og bætiefni. Tæringarvaldar og aðgerðir til úrbóta. Ferskvatnseimar, gangsetning og rekstur. Mismunandi skilvindur (vökvaskilja, soraskilja) teknar sérstaklega fyrir ásamt skilvindukerfum fyrir eldsneyti. Nánar farið í austurs- og kjölfestukerfi, ásamt þeim reglum sem um þær gilda (MARPOL). Í hinum verklega þætti er áhersla lögð á eftirtaldar æfingar: strokkmælingar, bullu- og bulluhringjamælingar, sveigjumælingu, viðgerð á olíuverki, tímastillingu með gráðuskífu. Teiknuð öll kerfi dísilvélarinnar. Tímastilling ventla. Sundurtekt og samsetning á skilvindum. Keyrsla dísilvéla og taka ritmynda. Hluti kennslunnar fer fram í vélarrúmshermi skólans

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • smurolíu- og eldsneytiskerfum sem hönnuð eru fyrir gasolíu og svartolíumeðhöndlun og helstu eiginleika eldsneytisolíu og smurolíu af mismunandi flokkum og meðferð þeirra ásamt grundvallaratriðum um skiljun
 • kælivatns og sjókælikerfum og helstu eiginleikum fersk- og saltvatns til kælingar og meðhöndlun þess við daglegan rekstur véla
 • helstu orsökum og skilyrðum tæringar í skipum og vélkerfum ásamt þeim aðgerðum sem beitt er til varnar tæringu í rekstri
 • helstu aðferðum við framleiðslu ferskvatns um borð í skipum
 • helstu eiginleikum austur og kjölfestukerfa ásamt þeim hreinsunarbúnaði sem gerðar eru kröfur um og þekki þær reglur sem gilda um losun á olíumenguðu vatni
 • uppbyggingu krosshausvéla og langbulluvéla
 • mismunandi eimkötlum
 • þeim alþjóðareglum sem lúta að störfum vélstjóra ásamt þeim reglum sem gilda um vaktstöðu um borð í skipum (stcw)
 • fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir hættuástand þegar slíkt hættu ástand er yfirvofandi

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • rekja og útskýra tilgang hvers einasta þáttar í eldsneytis-, smurolíu-. kælivatns- og sjókerfum með aðstoð teikninga
 • útskýra lagnakerfi að og frá eimkötlum ásamt virkni þeirra
 • meta þörf á viðhaldi og aðgerðum til að koma í veg fyrir hættuástand
 • átta sig á uppbyggingu og virkni vélahluta og búnaði sem tengist þeim með teikningum og leiðbeiningabæklingum
 • mæla slit í vélbúnaði og meta ástand með samanburði við uppgefin slitmörk
 • gera áætlanir um viðgerð og leggja mat á ástand vélhluta að viðgerð lokinni

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • stjórna vélbúnaði og vélkerfum í meðalstórum skipum og gera áætlanir um viðhald
 • bregðast rétt við algengum bilunum í vél og lagnakerfum meðalstórra skipa
 • kynda eimketil með einföldu eimkerfi til upphitunar
Nánari upplýsingar á námskrá.is