HÖSK1SK03 - Hönnun skipa

Hönnun skipa

Einingafjöldi: 3
Þrep: 1
Í þessum áfanga er fjallað með mjög almennum hætti um skipið og einstaka hluta þess, m.a með tilliti til nafngifta og þeirra hlutverka sem einstök stoðkerfi um borð í skipum gegna. Til þess að skip geti sinnt og fullnægt tilteknum hönnunarkröfum, þurfa þau að fullnægja fjölbreytilegum hönnunar-, rekstrar-, öryggis- og aðbúnaðarkröfum. Kynna á nemendum teikningar af fyrirkomulagi skipa, teikningar af dæmigerðu geymafyrirkomulagi, teikningar af brunaniðurhólfun og dæmigerðar kerfisteikningar af vélbúnaði og rafbúnaði skipa, Veita á nemendum almenna undirstöðuþekkingu um gerð, fyrirkomulag og búnað skipa með tilliti til þess hlutverks sem þeim er ætlað að gegna, um hönnun þeirra með tilliti til styrks, flothæfni, farsviðs og ytri umhverfisþátta og um helstu stoðkerfi þeirra með tilliti til vélbúnaðar og raforku. Æskilegt er að hluti kennslunnar fari fram um borð í skipi þar sem nemendur kynna sér fyrirkomulag þess og búnað.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • helstu tegundum skipa og hlutverkum þeirra
  • helstu hugtökum og nafngiftum varðandi einstaka skipshluta, búnað skipa og veiðarfæri
  • umhverfisþáttum sem ráða álagi á bol og þilför skipa og hafa áhrif á styrk þeirra
  • burðargetu skipa, mestu leyfilegu hleðslu, særými og þá krafta sem virka á bol skipa
  • álagi á skipsbol vegna mismunandi þyngdar- og uppdrifts krafta og dreifingar þeirra
  • áhrifum vinds og öldu á skip, hreyfingar þess, mótvægisaðgerðir og hættur sem eru samfara siglingu á lensi
  • áhrifum ísingar á skip og stöðugleika þeirra
  • áhrifum aukinnar hleðslu skips og djúpristu á álag og styrk bols
  • staðbundnu álagi sem veiðarfæri og veiðarfærabúnaður geta haft á skipsbol og þilför
  • gildi og nauðsyn vatnsþéttrar niðurhólfunar skipa, áhrifum þess ef vatnsþétt skilrúm reynast ekki þétt og reglum sem um það gilda er ekki fylgt
  • gildi og nauðsyn brunaniðurhólfunar í skipum og reglum sem þar um gilda
  • þeim vélbúnað sem myndar framdrifsbúnað skipa, hlutverki búnaðarins, afköst og þeim stoðkerfum sem þarf til þess að búnaðurinn starfi eðlilega
  • raforkuframleiðslu skipa, afköstum, uppbyggingu rafkerfis og helstu neytendum
  • stýrisbúnaði skipa, virkni búnaðarins og reglur sem gilda um neyðarstýrisbúnað
  • helstu véla- og lagnakerfum í skipum, hlutverk þeirra, uppbyggingu, virkni og helstu einingar sem mynda slík kerfi
  • reglum sem gilda um austurkerfi skipa, sjó - bruna - slökkvi - og kæli kerfi skipa
  • fyrirkomulagi akkerisbúnaðar skipa, legufæra og dráttarbúnaðar
  • helsta veiðarfærabúnaði fiskiskipa og þeim búnaði sem notaður er við mismunandi veiðiaðferðir
  • nauðsynlegum ráðstöfunum sem tryggja að sjór komist ekki í vatnsþétt rými skipsins eða geti komist á milli einstakra vatnsþéttra rýma eða safnist fyrir á þilfari skips
  • fyrirkomulagi við meðferð afla og frágang í lestum skipa
  • helsta öryggisbúnaði skipa, virkni hans og notkun
  • lögum og reglum sem gilda um eftirlit með skipum, um stafsemi siglingastofnunar Íslands, viðurkenndra skoðunarstöðva, flokkunarfélaga, faggiltra skoðunaraðila með búnaði skipa og um þau skírteini sem gefin eru út til að skip megi vera í förum
  • reglum um skráningu skipa og merkingar á skipum til auðkenningar

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • lýsa hlutverkum helstu stoðkerfa í skipum
  • lýsa helstu tegundum skipa og hlutverkum þeirra
  • greina frá helstu kröfum sem gerðar eru til hönnunar, rekstur og aðbúnaðar í skipum
  • lesa og lýsa teikningum af fyrirkomulagi skipa, brunahólfum, vél- og rafbúnaði
  • fjalla um hönnun skipa með tilliti til styrks, flothæfni, farsviðs og umhverfisþátta
  • greina frá helstu stoðkerfum skipa með tilliti til vélbúnaðar

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • meta þætti sem taka þarf tillit til við hönnun og breytingar á skipum sem smíðuð eru úr trefjaplasti
  • greina frá forsendum fyrir hönnun mismunandi tegunda skipa
  • taka tillit til öryggisþátta við hönnun og breytingar á skipum
Nánari upplýsingar á námskrá.is