STÆR2TÖ05 - Tölfræði

undirstöðuatriði tölfræði

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: STÆR2AF05
Áfanginn er grunnáfangi í tölfræði. Í honum er fjallað um lýsandi tölfræði, þ.e. tölfræðigögn, miðsækni og dreifingu, flokkun gagna, úrtak og þýði, einkennishugtök, s.s. meðal- og miðgildi, frávik, tíðni og tíðnidreifingu og myndræna framsetningu gagna. Einnig er fjallað um tölfræðigreiningu, m.a. úrtaksfræði, meginmarkgildissetningu tölfræðinnar, fylgni og aðhvarfsgreiningu, ályktunartölfræði og tilgátur og prófanir. Þá er fjallað um áreiðanleika og ályktanir og fyrirvara við þær. Einnig er fjallað um marktekt, öryggismörk og skekkjumörk.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
 • dreifingu, miðsækni og flokkun
 • gagnasöfnum, dreifingu og úrtaksfræðum
 • fylgni og áreiðanleikaprófunum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
 • reikna út og vinna úr gagnasöfnum
 • nýta töflureikni við gagnavinnslu, prófanir og ályktanir
 • spá, reikna út og túlka fylgni milli tveggja breyta
 • beita fjölbreyttum aðferðum í myndrænni framsetningu tölfræðiupplýsinga
 • reikna út normaldreifingu og t-dreifingu
 • reikna út öryggisbil og prófanir á tilgátum, svo sem kí-kvaðrat próf og t-prófi
 • reikna út og túlka öryggis- og skekkjumörk

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
 • skilja merkingu og tengsl hugtaka í námsefninu og vinna með þau
 • beita aðferðum tölfræðinnar á skipulegan hátt við lausn viðfangsefna og þrauta
 • geta útskýrt hugmyndir innan námsefnisins skilmerkilega og skipst á skoðunum um þær
 • leggja mat á tölfræðigögn og átta sig á muninum á fylgni og orsaksamhengi
 • skilja röksemdir og framsetningu tölfræðinnar á almennum vettvangi á fræðilegan hátt, bæði í rituðu máli og myndrænt
Nánari upplýsingar á námskrá.is