TRÉS1VT08 - Vél- og trésmíði

Vél- og trésmíði

Einingafjöldi: 8
Þrep: 1
Í áfanganum eru kennd grunnatriði trésmíða með áherslu á þekkingu og færni í notkun trésamsetningar, límingar, pússning og yfirborðsmeðferð. Haldið er áfram umfjöllun um efnisfræði tréiðna þar sem ítarlegar er farið í ýmsa eðliseiginleika viðar, flokkun, merkingar og þurrkun. Nemendur kynnast notkun algengra tegunda viðarlíms og yfirborðsefna, vinnubrögðum og öryggisþáttum. Kennslan byggist að hluta á fyrirlestrum þar sem kennari útskýrir grunnatriði fyrir nemendum en stærsti hlutinn eru fjölbreytileg smíðaverkefni sem byggjast á markmiðum áfangans. Í áfanganum læra nemendur grunnatriði í véltrésmíði. Fjallað er um algengustu trésmíðavélar sem notaðar eru í tré- og byggingaiðnaði, meðferð þeirra og viðhald. Farið er yfir helstu notkunarmöguleika einstakra véla og tækja, stillingar, fyrirbyggjandi viðhald, hlífar, hjálpartæki, líkamsbeitingu og öryggismál og nemendur fá innsýn í að velja og skipta um helstu eggjárn. Lögð er áhersla á notkunarleiðbeiningar og merkingar á tækjum og búnaði. Kennsla í áfanganum byggir á innlögnum frá kennara þar sem hann útskýrir grunnatriði fyrir nemendum með sérstakri áherslu á öryggisþætti en að öðru leyti er aðaláherslan á verkefni þar sem nemendur fá þjálfun í notkun véla og tækja. Mikilvægt er að nemendur læri um ábyrgð sína í umgengni við trésmíðavélar og að takast ekki á við vélavinnu án fullnægjandi undirbúnings, hjálpar- og öryggisbúnaðar. Áfanginn er bæði kenndur á námsbrautum fyrir húsasmiði og húsgagnasmiði. Efnisatriði/kjarnahugtök: Efnisval, efnisfræði, viðarfræði, eðliseiginleikar viðar, viðarflokkun, styrkflokkun, útlitsflokkun, ÍST DS 413, ÍST INSTA 142, ÍST EN 519, viðarmerkingar, tréþurrkun, viðarlím, yfirborðsefni, yfirborðsmeðferð. Hjólsög, plötusög, afréttari, þykktarhefill, borðfræsari, yfirfræsari, súluborvél, dílaborvél, tappavél, pússvél, stillingar, stjórntæki, uppbygging trésmíðavéla, þrif á vélum, smurning, fræsikólfur, hjólsagarblað, snúningshraði, mötunarhraði, bútland, kleyfir, forsagarblað, land, skurðarhorn, bútun, ristun, afrétting, þykktarheflun, stærðarsögun

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • vinnuaðstöðu og vinnumhverfi
  • umgengni, ábyrgð og notkun á algengustu trésmíðavélum
  • öryggisþáttum og viðhaldi trésmíðavéla
  • vinnuaðstöðu og vinnumhverfi tiltekinna trésmíðavéla
  • smíðisfestingum sem notaðar eru í trésmíði
  • einstökum samsetningum og notkunarsviði þeirra
  • þvingum og vinnuaðferðum við samsetningar í trésmíði
  • algengustu gerðum og notkunarsviðum viðarlíms
  • nöglum og skrúfum og notkun þeirra í trésmíði
  • öryggisreglum fyrir meðferð og notkun einstakra límtegunda
  • grunnatriðum í yfirborðsmeðferð smíðaviðar og plötuefnis
  • helstu yfirborðsefnum á tré og notkunarsviðum þeirra
  • virkni og notkunarsviðum einstakra trésmíðavéla
  • uppbyggingu og notkun algengustu trésmíðavéla
  • algengustu slysavöldum og slysum í véltrésmíði og afleiðingum þeirra
  • öryggisreglum og öryggisbúnaði sem notaður er í véltrésmíði

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • nota áhöld til mælinga og uppmerkinga
  • nota mismunandi tegundir verkfæra, véla og efna
  • nota helstu trésamsetningar við einfalda trésmíði
  • lesa merkingar og flokka efni með tillit til útlits og styrks
  • nota mismunandi tegundir verkfæra, véla og efna á byggingarstað og verkstæðum
  • skipta um helstu skurðarverkfæri undir eftirliti
  • smíða einfalda hluti í trésmíðavélum undir eftirliti
  • beita algengustu stillingum og nota aukabúnað

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • aðlaga sig að mismunandi vinnuumhverfi
  • velja smíðavið fyrir einstök verkefni og rökstyðja valið
  • flokka timbur með hliðsjón af leiðbeiningum
  • viðhalda og yfirfara ástand öryggisþátta trésmíðavéla
  • undirbúa verk fyrir yfirborðsmeðferð með pússningu eða slípun
  • bera yfirborðsefni á tré með mismunandi hætti
  • beita öryggisreglum og öryggisráðstöfunum við yfirborðsmeðferð
  • smíða einfalda nytjahluti eftir teikningum og verklýsingum
  • beita vinnuskipulagi í trésmíði og fylgja aðgerðalista við vinnu
  • efna niður og vinna tré í höndum fyrir endanlega samsetningu
  • ganga úr skugga um gæði smíðishluta fyrir samsetningu
  • nota þvingur markvisst til að fá smíðishlut réttan í límingu
  • mæla og taka úr fyrir smíðisfestingum og setja endanlega upp
  • velja heppilegar trésmíðavélar með hliðsjón af verkefni
  • velja snúnings- og mötunarhraða fyrir trésmíðavélar
  • nota algengustu trésmíðavélar til að efna og forma
  • athuga rétta virkni og öryggisbúnað fyrir gangsetningu véla
  • nota viðeigandi öryggisbúnað í hverju tilviki til að fyrirbyggja slys
  • nota rétta staðsetningu og líkamsbeitingu við vélavinnu
  • hreinsa og framkvæma fyrirbyggjandi viðhald á trésmíðavélum
Nánari upplýsingar á námskrá.is