Foreldrasamstarf

Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra starfar foreldraráð. Sæti í því eiga fimm forráðamenn nemenda við skólann og tveir varamenn auk tveggja skoðunarmanna reikninga og tengiliðs við stjórnendur skólans. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann að efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

Samstarf við innlenda og erlenda skóla

Í skólanum er lögð áhersla á evrópskt og norrænt samstarf sem byggir á gagnkvæmum heimsóknum og sameiginlegri verkefnavinnu. Sótt er um styrki til innlendra og erlendra stofnana til að greiða fyrir þessu samstarfi.

Samstarf við nærsamfélag og atvinnulíf

FNV hefur lagt mikið upp úr samstarfi við atvinnulífið, sveitarfélög á Norðurlandi vestra og aðra hagsmunaaðila eins og fram kemur í framtíðarsýn skólans, en þar segir m.a. : „Það er eitt megin hlutverk FNV að bjóða upp á fjölbreytt bók- og starfsnám í takt við þarfir íbúa og atvinnulífs á svæðinu. Til framtíðar er horft til frekari sóknar á sviði matvælaframleiðslu, plastiðna, ferðamennsku og annarra sviða sem eftirspurn er eftir hverju sinni til viðbótar hefðbundnu námi til stúdentsprófs og námi í einstökum iðngreinum“.

Skólinn hefur notið mikils stuðnings og allra þessara aðila. Gott dæmi um slíkt samstarf er stofnun dreifnámsdeilda á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík. Skólinn hefur verið í samstarfi við Fiskvinnsluskóla Íslands, Farskóla Norðurlands vestra og Fisk Seafood um að koma á laggirnar námi í fistækni. Skólinn hafði einnig samstarf við fjölda hagsmunaaðila innan og utan héraðs um að koma á fót námi í slátraraiðn sem hófst á vorönn 2016. Loks býður skólinn upp á nám í málmiðnum, rafiðnum og tréiðnum auk þess að bjóða upp á nám fyrir verðandi iðnmeistara þegar eftirspurn er næg eftir slíku námi.