Merki FNV og LbhÍ
Merki FNV og LbhÍ

Þriðjudaginn 21. mars undirrituðu FNV og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri (LbhÍ) samkomulag um samstarf sem miðar að því að nemendur eigi þess kost að útskrifast með stúdentspróf frá FNV og búfræðipróf frá LbhÍ.

FNV býður upp á tveggja ára undirbúningsnám í samræmi við forkröfur til innritunar í búfræði við LbhÍ. Nemandi sem útskrifast frá LbhÍ eftir tveggja ára nám í búfræði útskrifast á sama tíma með stúdentspróf frá FNV. Námið er alls skipulagt til fjögurra ára en nemendur taka tvö fyrstu árin (4 annir) við FNV en seinni tvö árin (4 annir) við búfræðibraut LbhÍ á Hvanneyri.

FNV tryggir ekki að nemendur fái aðgang að LbhÍ, aðeins að námið uppfylli inntökuskilyrði LbhÍ og kröfur sem gerðar eru til stúdentsnáms, þegar því er að fullu lokið. Nemendur þurfa sjálfir að sækja um nám hjá LbhÍ og tryggja að þeir uppfylli önnur þau inntökuskilyrði sem LbhÍ setur.

Mjög margir nemendur FNV hafa að námi loknu farið í búfræðinám við LbhÍ. Við erum því afskaplega ánægð með að geta boðið nemendum skólans þennan möguleika.