Sigur í fyrstu umferð Gettu betur

Gettu betur lið FNV
Gettu betur lið FNV

Gettu betur lið Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra mætti Menntaskólanum í Kópavogi í fyrstu umferð keppninnar mánudagskvöldið 9. janúar. Lið FNV skipa þau Íris Helga Aradóttir, Alexander Viktor Jóhannesson og Óskar Aron Stefánsson. Íris og Alexander þreyttu frumraun en Óskar Aron tók þátt í þriðja skipti.  Fyrstu tvær umferðir keppninnar fara fram í útvarpi og þurfti lið FNV því að mæta í útvarpshúsið á Akureyri til að komast í samband við höfuðstöðvarnar í Reykjavík. Gekk ferðalagið misvel hjá keppendum en einn af keppendum FNV náði að tryggja sér síðasta mögulega flugmiðann frá Reykjavík til Akureyrar á keppnisdegi eftir að hafa stytt sólarlandafrí á Tenerife til að taka þátt í keppninni.

Eftir góðan kvöldverð á veitingahúsinu Greifanum hófst keppnin sjálf. Skiptist keppnin í útvarpi í hraðaspurningar og bjölluspurningar. FNV leiddi 7-5 eftir hraðaspurningar en tók síðan öll völdin í bjölluspurningum og sigruðu að lokum 21-9. FNV hefur því tryggt sér þátttöku í annarri umferð Gettu betur sem fer fram 16. og 18. janúar á Rás 2. Dregið verður í aðra umferð fimmtudagskvöldið 12. janúar.