Mynd frá skólafundi
Mynd frá skólafundi

Þann 5. febrúar sl. var haldinn skólafundur í FNV Þar sem nemendur svöruðu tveimur spurningum. Sú fyrri laut að því sem betur má fara í skólanum og sú seinni að draumaáfanganum sem nemendur vildu eiga kost á í vali.

Góð þátttaka var á fundinum og þar kom margt áhugavert fram. Helstu niðurstöður voru sem hér segir:

Nokkrar óskir koma fram um aðstoð við heimanám sem nái einnig til dreifnámsnema auk þess sem óskað er eftir fjölbreyttari kennsluaðferðum og meiri hópavinnu. Þá koma fram ábendingar um það sem betur má fara í einstökum námsáföngum þá einkanlega hvað varðar samskipti og námsálag.

Nemendur óska jafnframt eftir meira félagslífi og vilja fá að neyta hollustu í kennslustundum gegn því að þeir taki til eftir sig. Í sama anda er ósk nemenda eftir betri aðstöðu fyrir nemendur í verknámshúsi þar sem óskað er eftir örbylgjuofni, vatnsvél og grilli. Þá er óskað eftir meira vöruúrvali í nemendasjoppunni þ.á.m. brauði. Jafnframt er óskað eftir fleiri opnunartímum.

Varðandi óskir um áfanga í boði þá komu fram 25 tillögur að námsframboði. Þar vekur athygli mikill áhugi á matreiðslu og heimilisfræði. Þá kemur fram áhugi á tónlistarnámi, dansi, söng og grafískri hönnun. Hér er rétt að árétta að boðið er upp á tónlistarnám í Tónlistarskóla Skagafjarðar, en það á ekki við um dansnám og grafíska hönnun.

Óskað er eftir fleiri íþótta- og útivistaráföngum án þess að úskýrt sé hvað átt er við t.d. hvort átt sé við fleiri hópa eða annars konar áfanga en boðið er upp á nú þegar. Óskað er eftir áföngum í viðskiptagreinum, búfræði og sögu.

Loks vekur athygli að óskað er eftir fleiri áföngum í vélstjórn, vélsmíði og uppgerð véla án þess að útskýrt sé hvað átt er við þar sem allir áfangar í þeim greinum eru reglulega í boði. Hér má athuga hvort vekja þarf sérstaka athygli bóknámsnema á möguleikanum á því að taka valáfanga í verknámsdeildum skólans.

Stjórnendur hafa rýnt þessar niðurstöður og þegar hefur verið brugðist við ósk um að fá að neyta vatns í kennslustundum og vinna er hafin við undirbúning nokkkurra annarra umbóta sem fram koma í niðurstöðunum.