Brautskráningarnemar 2020
Brautskráningarnemar 2020

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 41. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki föstudaginn 5. júni að viðstöddum nánustu aðstandendum brautskráningarnema.

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2744 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Skólameistari greindi m.a. frá fjölbreyttu námsframboði skólans í þágu atvinnulífs á svæðinu og þakkaði fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum fyrir afar ánægjulegt samstarf í þeim efnum. Veðurfar á síðasta skólaári setti mark sitt á skólahaldið og varð til þess að kennsla féll oft niður. Þegar því loks slotaði tók COVID-19 við og raskaði skólahaldi svo um munaði. Þrátt fyrir þetta mótlæti skiluðu nemendur sínu og stóðu sig vel. Að lokum minntist skólameistari þeirra Nínu Þóru Rafnsdóttur kennara við skólann og Jóns Alexanders H. Artúrssonar, nemanda við skólann, sem létust á árinu.

Kristján Bjarni Halldórsson, flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Þar kom m.a. fram að á haustönn voru 500 nemendur við skólann. Á stúdentsbrautum voru 140 nemendur, í iðnnámi 124 nemendur, í sjúkraliðanámi 92 nemendur, og í hreinu fjarnámi 96 nemendur. Í kvikmynda- og nýsköpunarnámi voru 8 nemendur, á starfsbraut 11 nemendur og nemendur í almennu námi voru 29 talsins. Nemendur í námsverum á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík voru meðtaldir í þessum tölum. Þess má geta að nemendur á Blönduósi voru 13 talsins, á Hvammstanga 11 og í Hólmavík 6 nemendur.

Við skólann starfaði 61 starfsmaður í 49,5 stöðugildum á haustönn. Við kennslu störfuðu 44 kennarar í 35,5 stöðugildum. Aðrir starfsmenn voru 17 í 14 stöðugildum.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara. Alls brautskráðust 67 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir, en alls voru gefin út 74 prófskírteini:

Stúdentsprófsbrautir: 48
Hestaliðabraut: 1
Húsasmíðabraut: 9
Kvikmyndabraut: 2
Sjúkraliðabraut: 9
Starfsbraut: 1
Vélvirkjun og vélstjórn: 4

Rebekka Ósk Rögnvaldsdóttir flutti ávarp brautskráðra nemenda.

Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.
Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

Hákon Ingi Rafnsson hlaut viðurkenningu Landlæknisembættinu fyrir framlag sitt til heilsueflandi skóla.

Rebekka Ósk Rögnvaldsdóttir hlaut þakkir fyrir framúrskarandi störf á vettvangi félagsmála nemenda, forystu fyrir Nemendafélag FNV og alla framgöngu á vettvangi skólastarfsins.

Sæþór Már Hinriksson hlaut þakkir fyrir framúrskarandi störf á vettvangi félagsmála nemenda, forystu fyrir Nemendafélag FNV og alla framgöngu á vettvangi skólastarfsins.

Telma Ösp Einarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.

Þorri Þórarinsson vann það einstaka afrek að hljóta meðaleinkunnina 10,0 á stúdentsprófi á Náttúrufræðibraut. Fyrir þetta afrek fékk hann eftirtaldar viðurkenningar:
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúruvísindabrautar.
Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.