Brautskráningarnemar 2022
Brautskráningarnemar 2022

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 43. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki föstudaginn 27. maí 2022. Í þetta skiptið að viðstöddu fjölmenni í fyrsta sinn í tvö ár.

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2955 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Hún fjallaði m.a. um vaxandi áhuga á námi í iðngreinum og að í fyrsta skipti í sögu skólans stundi fleiri nemendur nám á iðnbrautum en stúdentsprófsbrautum. Í þessu ljósi sé löngu tímabært að bæta aðstöðu skólans til kennslu þessara greina með stækkun verknámshússins. Þá sé mikilvægt að skólinn geti lagað sig að eftirspurn eftir nýjum námsgreinum með því að í stækkun húsnæðisins sé gert ráð fyrir fjölnotarými.

Þá greindi hún frá nýju fyrirkomulagi á starfsþjálfun á vinnustað sem nú er í samvinnu skólans, nemandans og viðkomandi iðnmeistara og fyrirtækis. Að lokum kvaddi hún Helga Hannesson, kennara við skólann, en hann lætur af störfum vegna aldurs eftir 32ja ára starf við skólann.

Kristján Bjarni Halldórsson, flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Á haustönn voru skráðir 657 nemendur og á vorönn voru þeir 629. Nemendur stunduðu námið í dagskóla, helgarnámi eða fjarnámi.

Um þriðjungur nemenda stundaði nám á stúdentsbrautum. Einnig var um þriðjungur nemenda í iðnnámi. Sjúkraliðanámið var vinsælt með um 100 nemendur. Stúdentsbrautir, iðnnám og sjúkraliðanám eru með námslok á þriðja hæfniþrepi. Á starfsbraut voru 19 nemendur. Kvikmyndabraut er með námslok á öðru hæfniþrepi, þar voru átta nemendur. Meistaranám iðngreina er með námslok á fjórða hæfniþrepi, þar voru 25 nemendur. Rúmlega helmingur nemenda FNV kemur af Norðurlandi vestra.
Við skólann störfuðu 70 starfsmenn á haustönn 2021 í 57 stöðugildum og á vorönn 2022, 68 starfsmenn í 56 stöðugildum.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara. Alls brautskráðust 112 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir, en alls voru gefin út 129 prófskírteini:

 • Stúdentsprófsbrautir: 44
 • Húsasmíði: 10
 • Húsgagnasmíði: 2
 • Íþróttaakademía: 7
 • Meistaraskóli: 6
 • Rafvirkjun: 28
 • Sjúkraliðabraut: 21
 • Starfsbraut: 3
 • Vélvirkjun: 3
 • Vélstjórn: 5

 

Helena Erla Árnadóttir og Emil Jóhann Þorsteinsson fluttu ávarp fyrir hönd brautskráðra nemenda og Sigríður Margrét Ingimarsdóttir flutti ávarp nemenda sem brautskráðust fyrir 30 árum síðan.

Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.

Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

Birgitta Björt Pétursdóttir
 • Viðurkenning og þakkir fyrir framúrskarandi störf á vettvangi félagsmála nemenda í forystu fyrir Nemendafélag FNV og alla framgöngu á vettvangi skólastarfs.
Erna Sigurlilja Ólafsdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
Eva María Sveinsdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum sjúkraliðanáms.
Freyja Lubina Friðriksdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
 • Viðurkenning frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
Guðný Reykjalín Magnúsdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur í sjúkraliðanámi.
Helena Erla Árnadóttir
 • Viðurkenning og þakkir fyrir framúrskarandi störf á vettvangi félagsmála nemenda, forystu fyrir Nemendafélag FNV og alla framgöngu á vettvangi skólastarfs.
Katrín Eva Óladóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
Kristey Rut Konráðsdóttir
 • Viðurkenning framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi félagsvísindabrautar.
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Leonie Sigurlaug Friðriksdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum náttúruvísindabrautar á stúdentsprófi.
 • Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi.
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
Sigurður Pétur Stefánsson
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi fjölgreinabrautar.
 • Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur á sviði íþrótta.
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í spænsku á stúdentsprófi.
Valgerður Helga Ísleifsdóttir
 • Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum rafvirkjunar.

Að lokum fengu brautskráðir sjúkraliðar viðurkenningu frá Sjúkraliðafélagi Íslands og rós frá Sjúkraliðadeild Norðurlands vestra.