Sigurvegari söngkeppninnar: Helena Erla Árnadóttir
Sigurvegari söngkeppninnar: Helena Erla Árnadóttir

Fimmtudagskvöldið 20. febrúar fór fram hin árlega Söngkeppni NFNV á sal Bóknámshúss FNV fyrir fullum sal áhorfenda þrátt fyrir leiðinda veður. Kynnar kvöldsins þær Birgitta Björt Pétursdóttir og Guðný Rúna Vésteinsdóttir stýrðu samkomunni af miklum myndarskap. Dómnefndina skipuðu þau Anna Valgerður Svavarsdóttir, Erna Rut Kristjánsdóttir og Sveinn Sigurbjörnsson.

Hljómsveit stóð sig afburða vel og sló ekki eina feilnótu enda skipuð afbragðs hljóðfæraleikurum. Hljómsveitarstjórinn í ár var enginn annar en Sæþór Már Hinriksson og með honum í hljómsveit voru þeir Jóhann Daði Gíslason, Arnar Freyr Guðmundsson og Magnús Björn Jóhannsson.

Að þessu sinni kepptu flytjendur með níu lög hvert öðru betra. Mikil og jöfn keppni var á milli flytjenda og eflaust erfitt fyrir dómnefndina að velja sigurvegarana.

Í fyrsta sæti hafnaði Helena Erla Árnadóttir með lagið Anyone eftir Demi Lovato. Í öðru sæti hafnaði Rannveig Sigrún Stefnánsdóttir með lagið Bring Him Home eftir Colm Wilkinson. Í þriðja sæti hafnaði svo Ingi Sigþór Gunnarsson með lagið Á sjó með Hlómsveit Ingimars Eydal.

Á meðan dómnefndin réð ráðum sínum fluttu þau Lydía Einarsdóttir og Óskar Aron Stefánsson, nemendur úr Varmahlíðarskóla og sigurvegarar söngkeppni Friðar 2019-2020, lag við mikinn fögnuð áhorfenda. Það verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni. Loks komu fram söngvarar og leikarar úr Mamma Mía söngleiknum sem nemendafélag skólans setti upp á yfirstandandi skólaári við fádæma aðsókn.

Það er óhætt að segja að áhorfendur hafi skemmt sér vel á frábærri skemmtun sem er nemendafélagi skólans og öðrum nemendum hans til mikils sóma.