Örviðtal við fyrrum nemanda: Ágúst Ingi Ágústsson

Ágúst Ingi Ágústsson
Ágúst Ingi Ágústsson

Í örviðtölum svara fyrrum nemendur spurningum um lífið í og eftir FNV. Hér situr Ágúst Ingi Ágústsson fyrir svörum.

Hver er maðurinn? Hvaðan ertu og hverjir eru fjölskylduhagir?

Er sprungulaus Króksari sem er fluttur aftur heim eftir margra ára flakk við nám og vinnu. Giftur Gunnþórunni Elíasdóttur og á þrjár dætur: Emblu Ingibjörgu 18 ára, Bjarneyju 4 ára og Ernu Guðbjörgu eins árs.

Hvernig var skólaganga þín? Hvaða skólar og hvað lærðirðu?

Gekk í Barna- og Gagnfræðaskóla Sauðárkróks, síðan lá leiðin yfir Sæmundarhlíð í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, eftir það nam ég kennarafræði við Háskólann á Akureyri og stundaði svo sagnfræðinám við Syddansk Universitet í Óðinsvéum í Danmörku.

Hvernig voru árin í Fjölbraut?

Árin í Fjölbrautaskólanum voru eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. Í minningunni var lögð höfuð áhersla á skemmtana- og íþróttalífið. Böllin eru eftirminnileg þar sem hljómsveitir sem þóttu standa fremst hverju sinni komu og spiluðu í blómstrandi menningu aldarmótanna. Námslega gekk á ýmsu enda var hugurinn oft á sveimi eins og gengur á þessum mótunarárum.

Hvert er starf þitt við FNV og hvenær hófstu störf?

Strangt til tekið hóf ég störf við FNV haustið 2020 þegar ég tók að mér þjálfun Gettu betur liðs skólans. Hóf hins vegar kennslu við skólann í ágúst 2021 sem aðstoðarkennari. Á þessu skólaári 2022-2023 kenni ég einnig sögu. Aðstoðarkennslan felur í sér eins og nafnið gefur til kynna aðstoð við nemendur í svokölluðum vinnustofum sem nemendur skólans nýta prýðilega. Í fyrra var ég einnig inn í tímum sem aðstoðarkennari en eftir að sögukennslan bættist við hefur það dottið upp fyrir.

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Með vinnustofuumhverfinu verður starfið sjálfkrafa mjög fjölbreytt þar sem nemendur koma með ýmis verkefni sem þeir þurfa að leysa. Fjölbreytnin gerir starfið því mjög skemmtilegt þó það geti verið mjög krefjandi að aðstoða nemendur við flókin stærðfræðidæmi. Það allra skemmtilegasta við starfið er þó að kenna söguna enda fagið það mikilvægasta í námi hvers nemanda. Engin veit hvert skal halda ef hann veit ekki hvaðan hann kom.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Dæmigerður vinnudagur hefst með heimsókn á leikskólann þar sem dætur mínar yngri fást við ýmis verkefni. Síðan tekur vinnudagurinn við með kennslu, undirbúningi, yfirferð, fimmaura bröndurum á kaffistofunni o.fl.

Hver eru helstu áhugamál þín?

Helstu áhugamál mín eru íþróttir, sagnfræði og bókmenntir. Ekkert nærir heilann meira en lestur í góðri bók eða leit að áhugaverðum heimildum um liðna tíð.

Annað sem þú vilt taka fram?

Það er ánægjulegt að kenna í Fjölbrautaskólanum þar sem ég var sjálfur nemandi fyrir 20 árum.