Auglýsing um nýja valáfanga
Auglýsing um nýja valáfanga

Hægt er að velja alla áfanga sem frjálst val ef þið hafið lokið undanfara en við viljum vekja sérstaka athygli á nýjum valáföngum sem eru í boði í vor:

ENSK2KK05 Kvikmyndir og kynning

Nemendur öðlist skilning á menningu enskumælandi svæða í gegnum kvikmyndir, sígildar og nýjar, og þjálfist í ritun af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á að auka orðaforða. Nemendur þjálfast í að skilja ensku sem notuð er á ólíkum málsvæðum.

SAGA2KV05 Kvikmyndasaga

Í áfanganum verður fjallað um sögu kvikmyndanna, frá fyrstu verkum frumkvöðlanna til dagsins í dag. Fjallað verður um helstu tímabil, strauma og stefnur, þekkta framleiðendur, leikstjóra, leikara og leikkonur. Einnig verður fjallað um kvikmyndina sem áróðurstæki og sem leið til að skrá sögu okkar. Íslenskar kvikmyndir verða teknar sérstaklega fyrir. Áfanganum er ætlað að efla læsi nemenda á kvikmyndir, að þeir þekki til þróunnar kvikmyndarinnar sem listforms og sem afþreyingariðnaðar og að helstu áhrifavaldar séu þeim kunnir. Áfanganum er einnig ætlað að efla gagnrýna og skapandi hugsun og almenna þekkingu á kvikmyndaiðnaðinum. Það er einnig markmið áfangans læra að nota kvikmyndir sem verkfæri til þess að læra að skilgreina í sögulegum skilningi og læra um aðalþáttum, hugmyndir eða vandamál á XIX/XX öld á ýmislegum stöðum.

UMHV1GF03 Umhverfisstjórnun, grænfánaverkefni

Í áfanganum kynnast nemendur verkferlum umhverfisstjórnunar og læra að nýta sér þætti umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein byggir á. Nemendur ganga þannig í gegnum sjö skref umhverfisstjórnunar, sem er alþjóðlega viðurkennd aðferð og notuð um allan heim. Þau eru eftirfarandi:

  1. að stofna umhverfisnefnd
  2. að meta stöðu umhverfismála
  3. að útbúa aðgerðaráætlun í umhverfismálum
  4. að sinna eftirliti og endurmati
  5. að búa til námsefni og tengja við aðalnámskrá
  6. að upplýsa og fá aðra með
  7. að semja umhverfissáttmála og umhverfisstefnu

Nemendur velja sér jafnframt þema til að vinna með af þeim þemum sem í boði eru innan verkefnisins.