David Hidalgo spænskukennari við FNV
Nafn: David Hidalgo
Búseta og fjölskylduhagir: Ég bý með eiginkonu minni sem heitir Noemí (47) ásamt tveimur sonum okkar sem heita Hugo (17) og Héctor, (14). Við búum í Reykjavík.
Skólaganga: Háskólinn í Salamanca á Spáni. Ég er með gráðu í sagnfræði og mastersgráðu í uppeldis og menntunarfræði, sem og spænskri bókmenntafræði. Ég gekk einnig í Háskólann í Vigo þaðan sem ég útskrifaðist með doktorsgráðu í sagnfræði. Allt þetta er samþykkt á Íslandi þar sem ég hef grunnskóla- og framhaldskólakennararéttindi frá Menntamálaráðuneytinu. Svo er ég einnig með KSI þjálfaragráðu (KSI) Pro-UEFAb.
Hvert er starf þitt í FNV? Ég er spænskukennari.
Áhugamál? Bókmenntir, að hjóla og skrifa ljóð.
Hvernig er dæmigerður dagur á skólatíma? Ég fer á fætur um sex á morgnana. Ég á góða expressókaffivél, svo ég fæ mér gott kaffi. Ég les blöðin og veðurspána. Ég svara nokkrum tölvupóstum og fer í fimm mínútna göngutúr úti. Ég kem aftur heim, gef konunni minni koss, fæ mér annan kaffibolla og vinn síðan allan daginn tengdur við tölvuna; meirihlutann af vinnutímanum vinn ég í fjarvinnu, og svo fer ég einu sinni/tvísvar í mánuði til Sauðárkróks líka. Ég tala mikið við nemendur mína og við erum alltaf í samskiptum. Þetta er ,,quid pro quo!“ (eins og Hannibal Lecter sagði einu sinni)! Ég læri meiri íslensku og svo kenni ég nemendum spænsku. Það er til gamall íslenskur málsháttur sem lýsir þessu. ,,Æ, sér gjöf til gjalda“!
Hvernig er dæmigerður dagur í sumarfríi? Lesa, skrifa og hjóla (ef veður leyfir 30 km á dag a.m.k skv. Strava forritinu). Fá Canyon Gravel Grizl 8 sem er næsta verkefni.
Uppáhalds tónlist, matur …? Ég hlusta á allskonar tónlist. Það fer eftir því hvenær, hvers vegna...Síðast hlustaði ég á Tom Waits til dæmis! En þegar ég er týndur í tilverunni fer ég alltaf til baka til Miles Davis eða klassískrar tónlistar (Bach, Mozart eða Mahler). Varðandi mat, þá borða ég hvað sem er sem er heimagert. Ég get alveg eldað vel og mig langar að fylgjast með því hvað ég er að borða.
Heilræði til framhaldsskólanema? Að lesa gerir hvern dag betri/öðruvísi: Leggðu frá þér farsímann!
Uppáhalds formúla?: Ég veit ekki mikið um stærðfræðiformúlur, en mér fannst alltaf gaman fylgjast með Formúlu 1, sérstaklega Ayrton Senna!