Nemendur FNV þróa nýja lausn fyrir hjólastólanotendur í Erasmus+ verkefninu Inclusion for All

Nemendur og kennarar í verkefninu, Inclusion for all
Nemendur og kennarar í verkefninu, Inclusion for all

Nemendur í verknámi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra halda áfram að taka virkan þátt í Erasmus+ verkefnum og að þessu sinni sóttu þeir Ungverjaland heim sem hluti af samstarfsverkefninu Inclusion for All. Markmið verkefnisins er að þróa lausnir sem bæta aðgengi og lífsgæði fólks með ólíkar þarfir.

Verkefnið

Að þessu sinni var ferðinni heitið til bæjarins Szeged í suðurhluta Ungverjalands. Ferðalagið var langt og krefjandi en við komu var hópnum tekið einstaklega vel og hittu þar nemendur og kennara frá fimm öðrum löndum. Þetta eru sömu samstarfsskólar og í fyrri heimsóknum, þannig að margir þátttakendur þekkjast ágætlega og halda jafnvel sambandi milli ferða.
Í verkefninu vinna nemendur FNV að þróun snjalltækjahaldara fyrir hjólastóla, sem gerir notendum kleift að nota lykilforrit eins og ferðakort og leiðsögutæki án þess að þurfa að nota hendur sem eru uppteknar við stýringu stólsins. Tækið er búið fjarlægðarnema sem eykur öryggi með því að vara við þegar hindranir eru of nálægt.
Snjalltækjahaldari

Dagskráin var fjölbreytt og fræðandi. Nemendur fengu innsýn í skólastarf, tóku þátt í íþróttum eins og sitjandi blaki og boccia og heimsóttu dagvistun fyrir fólk með fötlun. Hópurinn sá einnig heimaleik handboltaliðsins Pick Szeged, þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Janus Daði Smárason leikur
Á leiðinni heim var komið við í Búdapest þar sem borgin og jólamarkaðir gáfu notalega stemningu í lok ferðar.
Jólamarkaður í Búdapest

Í ferðina fóru eftirfarandi nemendur og kennarar frá FNV:

Andri Pétur Zakarias Ágústsson, Ívar Hrafn Ágústsson, Sindri Þór Guðmundsson og Elías Viðar Guðmundsson.
Karítas Björnsdóttir, Jónatan Björnsson, Jón Pálmason.

Samstarfsskólar í verkefninu Inclusion for All:
  • Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (Ísland) Stord vidaregåande skule (Noregur)
  • Technische Schulen des Kreises Steinfurt (Þýskaland)
  • APP School Munsterbilzen (Belgía)
  • Szegedi SZC Déri Miksa Műszaki Technikum (Ungverjaland)
  • Střední škola průmyslová, hotelová, zdravotnická a VOŠ Uherské Hradiště (Tékkland)