FNV úr leik eftir hörku viðureign gegn MA

Liðsmynd. Frá vinstri: Atli Steinn, Alexander Victor og Steinunn Daníella.
Liðsmynd. Frá vinstri: Atli Steinn, Alexander Victor og Steinunn Daníella.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Menntaskólinn á Akureyri mættust í gærkvöldi í fyrstu umferð Gettu betur. Þegar skólarnir drógumst saman varð ljóst að hljóðverið á Akureyri, þar sem liðin hafa keppt í útvarpshluta keppninnar, væri of lítið og var því brugðið á það ráð að halda keppnina í Kvosinni, samkomusal Menntaskólans á Akureyri. Gátu því áhorfendur fylgst með keppninni og fóru rúmlega 60 nemendur frá FNV til Akureyrar til þess að styðja sitt lið. Myndaðist góð stemmning þar sem stuðningsveitir beggja skóla létu vel í sér heyra.

Útvarpsviðureignir Gettu betur er þannig skipulagðar að fyrst eru hraðaspurningar og síðan 12 bjölluspurningar. Liði MA gekk betur í hraðaspurningum og leiddu að þeim loknum 10-5. Lið FNV tóku við sér í bjölluspurningunum og úr varð hörku viðureign þar sem MA stóð uppi sem sigurvegari 18-15.

Lið FNV skipuðu þau Alexander Victor Jóhannesson, Atli Steinn Stefánsson og Steinunn Daníella Jóhannesdóttir. Geta þau gengið stolt frá borði enda æft vel í vetur, en auk þeirra þriggja voru þau Daníel Smári Sveinsson, Auður Ásta Þorsteinsdóttir og Matthías Sigurðsson í æfingahóp Gettu betur.

Frá viðureigninni