Fimmtudaginn 4. desember sl. fór fríður flokkur eldri nemenda af rafvirkjabraut og vélstjórnarbraut í heimsókn í Blöndustöð en Landsvirkjun hefur, um nokkurra ára skeið, boðið nemendum upp á skoðunarferðir um stöðvarhús virkjunarinnar með leiðsögn sérfræðinga. Heimsókn sem þessi er bæði fróðleg og skemmtileg og veitir nemendum góða innsýn í þessar mikilvægu stoðir innviða landsins sem raforkuöflun er.

Hópurinn fékk höfðinglegar móttökur í starfsmannahúsi þar sem boðið var upp á heitt kakó, kökur og konfekt áður en kynning á starfseminni hófst í stöðvarhúsinu. Þrír vaktstjórar fylgdu hópnum um ganga og sali, ásamt stöðvarstjóra, og útskýrðu helstu verkferla við rafmagnsframleiðsluna en stöðvarhúsið er neðanjarðar og yfir því er stjórn- og tengivirkihús.

Við virkjunina eru þrír 50 MW hverflar, samtals 150 MW, og eru tveir þeirra að jafnaði í gangi á sama tíma en nú vildi svo til að allir þrír snérust af fullu afli. Kemur það til af því að nóg vatn er í miðlunarlóni virkjunarinnar en tvisvar hefur það gerst á árinu að það hafi fyllst og runnið hefur á yfirfalli. Blöndulón er allt að 57 km² að stærð og hefur 400 gígalítra miðlunarrými. Heildarfallhæð er 287 m og meðalrennsli er 39 m³ á sekúndu. Blöndustöð var gangsett haustið 1991 og verður því 35 ára næsta ár.
