Hrafnhildur Guðjónsdóttir
Nafn: Hrafnhildur Guðjónsdóttir
Búseta og fjölskylduhagir: Gift, þriggja barna móðir og á 2 barnabörn og eitt á leiðinni
Skólaganga: Var í grunnskóla á Ólafsfirði og Siglufirði. Hóf síðan nám í FNV og útskrifaðist með stúdentspróf þaðan árið 1997. Ég útskrifaðist síðan úr Háskóla Íslands 2003 sem félagsráðgjafi. Hvert er starf þitt í FNV? Ég er sko í besta starfinu í skólanum og er félagsráðgjafi skólans. Ég hitti nemendur og leiðbeini þeim í gegnum allskonar áskoranir. Ég er líka í samstarfi við foreldra og aðrar stofnanir og fagaðila svo sem félagsþjónustur, lækna og sálfræðinga. Ég er líka í stuðningsteymum nemenda sem eru með samþætta þjónustu samkvæmt farsældarlögunum. Ég er hér fyrir nemendur skólans.
Áhugamál? Útivist og ferðalög. Prófa nýjan mat. Mér finnst mjög gaman að fara í göngutúra, langa og stutta og stefni á að koma mér í form svo ég geti farið í lengri gönguferðir um fallega landið okkar. Svo hef ég mikla ánægju af því að eyða tíma með fjölskyldunni minni.
Hvernig er dæmigerður dagur á skólatíma? Þeir geta verið mjög mismunandi. Stundum þarf að bregðast hratt við einhverju og þá set ég annað sem ég hafði planað til hliðar. Ég er í þéttu samstarfi með Söndru náms-og starfsráðgjafa skólans, Kolbjörgu skólahjúkrunarfræðingi og stjórnendum skólans. Ég hitti nemendur í viðtölum og vinn síðan eftir viðtölin það sem þarf að gera sem getur verið að heyra í foreldrum eða fagaðilum, fer á samráðsfundi bæði innanhúss og í gegnum Teams. Ég hef líka verið beðin um að vera dómari í piparkökuskreytingakeppninni sem var núna fyrir jólin á vegum NEMÓ og það var mjög skemmtilegt. Vinnan mín er mjög fjölbreytt og skemmtileg eins og sjá má.
Hvernig er dæmigerður dagur í sumarfríi? Slaka á. Ég get verið algjör haugur í sumarfríinu mínu og sef gjarnan út. Mér finnst mjög gott að fara í sól og hita og hef farið vandræðalega oft til Tenerife á sumrin. Lillu finnst komið gott af því og vill að við förum að fara annað.
Uppáhalds (tónlist, matur, …) Ég er alæta á tónlist og á gjarnan uppáhaldslag sem ég spila út í hið óendanlega við misjafna hrifningu fjölskyldumeðlima. Núna er ég með Baseline með Quarashi á heilanum. Hvað varðar mat þá finnst mér dásamlegt að prófa allskonar mat og get í raun ekki nefnt eitthvað sérstakt í þeim efnum.
Heilræði til framhaldsskólanema? Vertu ávallt þú sjálf/ur. Fylgdu hjartanu og eltu drauma þína. Vertu umburðalynd/ur og veldu að sjá það jákvæða i hverju mótlæti. Ef þér finnst eins og þú ráðir ekki við hlutina talaðu þá við einhvern sem þú treystir því það er alltaf einhver leið fær þótt þú sjáir það ekki sjálf/ur!