Undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf í húsasmíði í fullum gangi hjá FNV

Nú stendur yfir undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf í húsasmíði hjá FNV. Námskeiðið hófst mánudaginn 5. janúar og stendur til fimmtudagsins 8. janúar.

Alls eru 17 þátttakendur skráðir á námskeiðið. Markmiðið er að skerpa á þekkingu, rifja upp lykilatriði og undirbúa þátttakendur sem best fyrir komandi sveinspróf. Undirbúningsnámskeið af þessu tagi hafa verið fastur liður hjá FNV undanfarin ár og notið mikilla vinsælda meðal nemenda.

Sveinspróf í húsasmíði verður haldið 9.–11. janúar 2026. Prófið hefst á bóklegu prófi föstudaginn 9. janúar kl. 8:00–10:00 í þeim skólum sem umsækjendur eru skráðir í. Að því loknu hefst verklega prófið, sem stendur yfir frá föstudegi til sunnudags.

Af þeim þátttakendum sem sækja undirbúningsnámskeiðið munu 12 taka sveinspróf á Sauðárkróki, en aðrir munu þreyta prófið annars staðar á landinu.

Með þessu framtaki leggur FNV sitt af mörkum til að styðja við þátttakendur og tryggja að þeir séu vel í stakk búnir til að ná góðum árangri í sveinsprófinu.