Kvikmyndabrautarnemar í FNV fóru á dögunum í árlega vísindaferð til Reykjavíkur í tengslum við RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík (Reykjavík International Film Festival). Bestu þakkir til allra sem tóku á móti hópnum og gerðu ferðina eftirminnilega.
Nemendur tóku þátt í dagskrá hátíðarinnar og heimsóttu jafnframt Ríkisútvarpið (RÚV), leigu- og kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Kukl og litu við í hljóðverinu Upptekið.
Á RÚV tók Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, á móti hópnum og veitti fróðlega og skemmtilega leiðsögn um starfsemi bæði útvarps og sjónvarps.
Í hljóðverinu Upptekið tók á móti þeim Gunnar Árnason, eigandi og stofnandi þessa glæsilega stúdíós og einn reyndasti hljóðmaður landsins. Þá var farið til Kukls þar sem Finnur Jóhannsson, gamalreynd goðsögn úr kvikmyndabransanum og einn reyndasti framleiðandi og framleiðslustjóri landsins, sýndi hópnum um og kynnti starfsemina. Meginhlutverk Kukls er að leigja út fjölbreyttan búnað fyrir upptökuverkefni af öllum stærðum.
Tekla Björg Jónsdóttir, kvikmyndabrautarnemi í dagskóla, klippti saman stutt myndband úr heimsókninni.